Farþegar á leið úr vél Ryanair í Brussel. Ekki eru notaðir landgönguranar.
Farþegar á leið úr vél Ryanair í Brussel. Ekki eru notaðir landgönguranar. — AP
ER ekki lágt fargjald allt sem þarf? Ryanair, öflugasta lággjaldaflugfélag Evrópu, lætur nú reyna á það hvað farþegar eru tilbúnir að leggja á sig til að fá sem ódýrast far, og enn verður dregið úr rekstrarkostnaði hjá flugfélaginu.
ER ekki lágt fargjald allt sem þarf? Ryanair, öflugasta lággjaldaflugfélag Evrópu, lætur nú reyna á það hvað farþegar eru tilbúnir að leggja á sig til að fá sem ódýrast far, og enn verður dregið úr rekstrarkostnaði hjá flugfélaginu.

Nýlega tilkynnti það, að ekki yrði lengur hægt að draga fyrir gluggana í farþegarými flugvéla félagsins, ekki hægt að halla aftur farþegasætunum, fjarlægðar yrðu höfuðpúðahlífarnar á sætunum og einnig sætisvasarnir þar sem venjulega er að finna öryggisleiðbeiningar og tímarit. Í staðinn verða öryggisleiðbeiningarnar festar aftan á sætin.

Þá sagði í tilkynningu félagsins að ef til vill yrði farið að innheimta sérstakt gjald fyrir farangur sem farþegar láta setja í farangursrýmið, og að leðuráklæði verði sett á sætin í flugvélunum vegna þess að það er auðveldara og ódýrara að þrífa og endist lengur.

Með því að sleppa þessum "aukahlutum sem ekki er brýn þörf á" í nýjustu Boeing 737 þotum félagsins lækkar kaupverð hverrar vélar um hundruð þúsunda dollara, að viðbættum viðhaldskostnaðinum sem jafnan hlýst af því þegar sæti sem hægt er að halla aftur brotna.

Paul Fitzsimmons, helsti talsmaður félagsins, sagði að markmiðið með þessu öllu saman væri að sparnaðurinn myndi skila sér til viðskiptavinanna.

Salernum fækkað

Margt af því sem er í farþegarými flugvéla heyrir undir reglugerðir, svo sem sætisólar, loftræsting, lýsing og fjöldi útganga. En að öðru leyti ráða flugfélögin því sjálf hvaða þægindi þau bjóða farþegum sínum upp á - ef nokkur.

Þannig væri félögunum frjálst að hafa engin salerni í farþegarýminu á styttri leiðum og bjóða farþegum ekki vatn að drekka. Helsti keppinautur Ryanair, easyJet, hefur fækkað salernum um borð í vélum sínum úr þrem í tvö - og í staðinn komið fyrir farþegasæti sem skilar félaginu tekjum.

Toby Nicol, yfirmaður hjá easyJet, sagði að enginn hefði kvartað undan þessum breytingum. "Ef maður býður ekki upp á ókeypis mat um borð og sýnir engar kvikmyndir myndast engar raðir við salernin. Í hefðbundnu flugi myndast slíkar raðir eftir matinn og þegar kvikmyndinni lýkur."

Ennfremur dregur það úr líkunum á að farþegar með vélum easyJet og Ryanair sakni þessara hluta að leiðirnar sem evrópsku lággjaldafélögin fljúga eru flestar stuttar, að meðaltali um ein klukkustund, og sú lengsta um tveir og hálfur tími.

Í Bandaríkjunum, þar sem flugleiðir eru yfirleitt lengri, er þróunin hjá lággjaldafélögum öfug við það sem er í Evrópu. JetBlue Airways, sem er í örum vexti, býður lág fargjöld en líka leðurklædd sæti, sjónvarp fyrir hvern farþega og aukið fótarými. Delta Air Lines hefur fylgt fordæmi JetBlue með því að bjóða upp á gervihnattasjónvarp og tölvuleiki um borð í vélum lággjaldadótturfélags síns, Song.

Ryanair lætur farþega sína ekki fá sætisnúmer, enga ókeypis drykki eða mat, enga ferðapunkta og býður enga aðstoð við að ná tengiflugi. Félagið notar ekki aðalflugvelli, setur strangar skorður við farangursþyngd, gefur farmiðana yfirleitt út á Netinu og farþegar fara ekki um landgöngurana þegar þeir fara um borð og frá borði.

Líklega engar kvartanir

Flugmálafræðingar segjast munu verða hissa ef viðskiptavinir taka upp á því að kvarta vegna nýjustu sparnaðarráðstafananna hjá félaginu. Farþegum sé mest í mun að fargjöldin séu sem lægst. Einn fræðingurinn hrósaði Ryanair og easyJet fyrir að sleppa hlutum sem í rauninni væri engin þörf fyrir á stuttum leiðum.

"Það skiptir litlu hvort hægt er að halla sætinu aftur. Fólk tekur ekki eftir því að það er ekki hægt að draga fyrir gluggann. Og farþegarnir nota sætisvasana yfirleitt sem ruslapoka," sagði fræðingurinn. Hann var líka hrifinn af því að fækka salernunum, en sagði að það yrði of langt gengið ef félögin færu að láta farþegana borga sérstaklega fyrir afnot af salernum.

London. AP.