Hjörleifur Jakobsson
Hjörleifur Jakobsson
Neytendur vita að þjónusta Olíufélagsins er ekkert skyndiupphlaup...
HUGI Hreiðarsson fer mikinn í grein sinni í Morgunblaðinu 27. febrúar sl. um samkeppni á eldsneytismarkaði. Í sjálfu sér ætla ég ekki að gera það að venju minni að svara endalausum rangfærslum Huga en lengi skal manninn reyna.

Olíufélagið rekur ábyrga verðstefnu á neytendamarkaði. Sú verðstefna stendur á tveimur fótum og er gegnsæ. Annars vegar er horft til þróunar á heimsmarkaði og verðið lækkað þegar verð á heimsmarkaði lækkar og öfugt. Hins vegar er horft til samkeppnisstöðu á markaði en Olíufélagið lofar að bjóða viðskiptavinum sínum ætíð hagstætt verð á eldsneyti. Til þess að vera trú þeirri stefnu er vel fylgst með hegðan keppinautanna og verð aðlagað til að standa ávallt við gefin loforð.

Oft gerast einstaklingar og fyrirtæki sjálfhverf í samkeppninni og halda að keppinautarnir séu bara að hugsa um þeirra fyrirtæki. Án þess að vilja móðga Huga, þá horfum við hjá Essó ekki sérstaklega á verðlagningu hans fyrirtækis í verðákvörðunum okkar. Einkunnarorðin "Veldu ódýrt bensín" eru ekki til höfuðs Huga. Þau eru hluti af markaðs- og auglýsingaherferð sem við hófum í febrúar 2003 - löngu áður en Hugi tók til við að selja bensín.

Hugi fjallar í grein sinni töluvert um nýlega kæru sína til Samkeppnisstofnunar og ætlar greinilega að reka þá kæru í fjölmiðlum. Ég legg til að við bíðum með umræðuna þar til Samkeppnisstofnun hefur úrskurðað í málinu. Það vill nefnilega svo til að samkeppnislögin voru ekki sett til að Hugi fengi að spila einleik á markaðinum. Nei, öðru nær, nálgun Huga er mikil einföldun því samkeppnislögin eru fyrst og fremst hugsuð til að stuðla að samkeppni á markaði og samkeppni byggist jú á því að menn takist á!

Annars er afar athyglisvert að sjá Huga tala um efnahagslegan styrk fyrirtækja. Þar ruglar hann reyndar saman Olíufélaginu og móðurfélagi þess, Keri. Fróðlegt þætti hins vegar mörgum að sjá efnahagslegan styrk Bandaríkjamannsins Brandon Rose og fjölskyldu hans sem er hinn raunverulegi eigandi Atlantsolíu.

Einu er ég þó sammála í grein Huga. Það er sú staðhæfing að valdið sé neytendanna. Því valdi vill Olíufélagið Esso sannarlega lúta. Við vitum að neytandinn vill þjónustu. Neytendur vita að þjónusta Olíufélagsins er ekkert skyndiupphlaup, það er alltaf hægt að treysta á að Esso eigi eldsneyti. Neytendur vita að Olíufélagið Esso rekur yfir 100 eldsneytisstöðvar um allt land sem landsbyggðarfólk getur treyst á allt árið og aðrir Íslendingar ganga að vísum í ferðum sínum víðs vegar um landið. Neytendur vita einnig að Olíufélagið Esso er ábyrgur þegn í samfélaginu og uppfyllir ítrustu kröfur í öryggis- og umhverfismálum. Eða eins og við hjá Esso segjum: "Þitt er valið."

Hjörleifur Jakobsson svarar Huga Hreiðarssyni

Höfundur er forstjóri Olíufélagsins ehf.