Ingibjörg Laufey Guðlaugsdóttir.
Ingibjörg Laufey Guðlaugsdóttir. — Barna & fjölskyldumyndir. www.ljosmyndir.net
Ingibjörg Laufey Guðlaugsdóttir er ein úr þeim fjölmenna hópi sem fermist á höfuðborgarsvæðinu þetta vorið. Hún fermist í Bústaðakirkju, hjá séra Pálma Matthíassyni.

Ingibjörg Laufey Guðlaugsdóttir er ein úr þeim fjölmenna hópi sem fermist á höfuðborgarsvæðinu þetta vorið. Hún fermist í Bústaðakirkju, hjá séra Pálma Matthíassyni.

"Ég fermist til að staðfesta skírnina og líka dálítið út af gjöfunum," segir Ingibjörg.

"Það sem mér er efst í huga úr fermingarfræðslunni er boðskapurinn um Jesú og boðorðin. Ég kann bænir síðan ég var lítil, mamma kenndi mér þær og pabbi líka. Best Faðirvorið en ég fer nú ekki alltaf með það á kvöldin."

Ingibjörg fermist annan í páskum, í nokkuð stórum hópi barna.

"Ég kvíði ekki fyrir athöfninni, hlakka til ef eitthvað er. Veislan mín verður haldin í sal í Bústaðakirkju, þar sem bókasafnið var til húsa áður. Það koma um 80 manns í veisluna, ættingjar og vinir og það verður matur. Ég vona að ég fái sem mest af peningum í fermingargjöf en ég er þegar búin að fá eina gjöf, ég fékk frá mömmu og pabba keppnisdót fyrir skylmingar. Mig vantaði það því ég fór út að keppa í skylmingum nú í lok febrúar."

Hefur þú stundað skylmingar lengi?

"Í fimm ár, ég er nýlega komin úr keppnisferðalagi í Englandi og þar hlaut ég annað sæti - fékk silfurverðlaun. Ensk 15 ára stúlka sem ég bjó hjá fékk gullið. Keppnin fór fram í Glastonbury, skammt frá Bristol.

Ég æfi skylmingar með Skylmingafélagi Reykjavíkur."

Ætlar þú að kannski að skera fermingartertuna með sverði?

"Nei, en ég ætla að hafa skylmingasverðin mín til sýnis í veislunni, þau verða hjá gestabókinni."