Ljósmyndastofan Barna- og fjölskylduljósmyndir, Núpalind 1 í Kópavogi, hefur bryddað upp á þeirri nýjung að taka allar sínar myndir stafrænt og leyfa fólki að velja úr þeim jafnóðum.

Ljósmyndastofan Barna- og fjölskylduljósmyndir, Núpalind 1 í Kópavogi, hefur bryddað upp á þeirri nýjung að taka allar sínar myndir stafrænt og leyfa fólki að velja úr þeim jafnóðum.

"Við erum eina ljósmyndastofan á landinu sem getur sýnt myndirnar strax á risaskjá um leið og myndatakan fer fram og við gefum fólki kost á að velja sjálft myndirnar jafnóðum. Þannig geta viðskiptavinir okkar haft mikil áhrif á hvernig myndir eru teknar meðan sjálf myndatakan fer fram, það fylgist með í tölvu," segir Gunnar Leifur Jónasson hjá Barna- og fjölskylduljósmyndum.

En skyldi tískan í fermingarmyndum hafa breyst mikið nú upp á síðkastið?

"Já, nú er meiri áhersla lögð á taka fallegar og skemmtilegar myndir af krökkunum, eins og þau eru, en áður fyrr voru fermingarmyndir t.d. nær eingöngu kyrtilmyndir. Þetta er gjörbreytt.

Slíkar "englamyndir" eru á undanhaldi.

Nú er hægt með þessari nýju tækni að taka mikið af myndum og af fjölbreyttu tagi og velja svo eftir á í tölvunni hverjar koma vel út og verða notaðar.

Með þessari nýju tækni er hægt að laga ýmislegt í útliti fólks, taka af bauga undir augum, fjarlægja bólur og spangir á tönnum, hvítta tennur og þannig mætti telja, allt eftir óskum fólks. En slík þjónusta kostar aukalega.

Áður kom fólk t.d. til mín og pantaði ljósmyndapakka og fékk þá þær myndir sem ég valdi. Nú kemur fólk og fær mig til að taka myndir eftir sínu höfði og velur sjálft hverjar eru notaðar. Þannig er hægt að fá eina mynd, fjórar, tíu eða fimmtíu óháð hversu oft er smellt af.

Við hvetjum fólk t.d. til að taka með sér ýmsan fatnað í myndatökuna og það sem tengist áhugamálum þess, til þess að auka fjölbreytnina. Einnig mega koma margir úr fjölskyldunni þótt um eina myndatöku sé að ræða."

Er þetta dýr myndataka?

"Nei, hún kostar ekki nema

5.000 krónur með einni stækkun og svo er hægt að velja eins margar myndir og fólk vill og borga í samræmi við það."