[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á LANDSBYGGÐINNI, rétt eins og á höfuðborgarsvæðinu, nálgast nú fermingarathafnir. Víðast er fermt í kringum páska en þó er það ekki algilt. Séra Lára G. Oddsdóttir er prestur í Valþjófsstaðarprestakalli sem hefur fimm sóknir innan sinna vébanda.

Á LANDSBYGGÐINNI, rétt eins og á höfuðborgarsvæðinu, nálgast nú fermingarathafnir. Víðast er fermt í kringum páska en þó er það ekki algilt. Séra Lára G. Oddsdóttir er prestur í Valþjófsstaðarprestakalli sem hefur fimm sóknir innan sinna vébanda.

"Það viðhorf er ríkjandi hér um slóðir og líklega víðar í sveitum að annaðhvort sé æskilegt að ferma fyrir eða eftir sauðburð," segir séra Lára.

"Núna þetta vorið fermi ég sautján börn í fimm athöfnum. Ég fermi í fjórum kirkjum af fimm í prestakallinu. Fyrsta fermingin er á skírdag í Valþjófsstaðarkirkju, síðan fermi ég aftur í þeirri kirkju um hvítasunnu. Fyrsta sunnudag í júní fermi ég í Áskirkju í Fellum, þar fermist stærsti hópurinn, níu börn. Síðan fermi ég 20. júní í Hofteigskirkju á Jökuldal og 27. júní fermi ég tvö börn í Möðrudalskirkju á Fjöllum. Það eru raunar börn sem eru ekki mín sóknarbörn heldur er þar um að ræða afkomendur Jóns Stefánssonar í Möðrudal. Afkomendur hans eiga þessa kirkju og halda henni vel við og þar fara fram kirkjulegar athafnir af og til og reglulega er þar sumarmessa."

Foreldrar og börn fá fermingarfræðsludag

En hvernig gengur fermingarfræðslan fyrir sig í svona dreifðu umdæmi?

"Börnin sem tilheyra Áskirkju í Fellum ganga í Fellaskóla og fræðsla þeirra fer fram í Fellabæ. Börnin sem fermast í Valþjófsstaðarkirkju ganga í Hallormsstaðarskóla ásamt börnum úr Skriðdal og af Völlum. Þessum börnum sinnum við saman, ég og séra Vigfús Ingvar Ingvarsson sem er prestur í Vallanesprestakalli en situr á Egilsstöðum. Í Brúarásskóla á Norðurhéraði eiga fjórar sóknir fermingarbörn, tvær þessara sókna eru úr mínu prestakalli og tvær úr Eiðaprestakalli. Þessum börnum, sem eru alls átta talsins, sinnum við séra Jóhanna Sigmarsdóttir Eiðaprestur. Fyrir utan hina vikulegu fermingarfræðslu þá eru sameiginlegar fermingarbúðir fyrir öll fermingarbörn á Austurlandi í kirkjumiðstöðinni á Eiðum. Auk þessa höfum við, þessir þrír prestar á Héraði, boðið öllum fermingarbörnum okkar og foreldrum þeirra upp á fermingarfræðsludag einu sinni á vetrinum.

Mikil tengsl eru á milli okkar þriggja presta hér á Héraði og við höfum kappkostað að öll fermingarbörnin okkar fái samskonar undirbúning.

Við leggjum til grundvallar bók sem heitir "Líf með Jesú" og tengjum trúarjátninguna sem öll börnin læra utan að við texta Biblíunnar. Reynum og að æfa þau í lestri í biblíulegum texta, hvetja þau til þátttöku í helgihaldinu með okkur eftir því sem aðstæður leyfa.

Auk þess tökum við ýmis önnur efni til umræðu og horfum á bíómyndir og leitum að trúarlegum stefjum. Í haust lét ég fermingarbörnin skrifa á miða hvað þau vildu tala um og það kom mér nokkuð á óvart að allmörg óskuðu eftir að tala um mat og líka tónlist niðurstaðan úr þessu er að við munum taka upp nokkra texta úr Biblíunni þar sem matur er sérstaklega ræddur og börnin ætla jafnframt að bjóða foreldrum sínum í mat. Matseðillinn er alveg ákveðinn en hann mun tengjast páskalambinu.

Einnig eru börn í Brúarásskóla að safna efni í tónlistarkvöld með trúarlegum textum.

Mikið gert úr fermingarathöfninni eystra

Það eru viss forréttindi að fá að vera með svona fá börn í fermingarfræðslu og vera í þessu góða samstarfi sem við prestar hér erum í. Það eru líka forréttindi að geta komið til móts við óskir foreldra um fermingardaga, en það getum við hér gert vegna þess að við erum ekki eins niðurnjörvuð og gerist í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu.

Þess má geta að mikið er gert úr fermingarathöfninni hér eystra yfirleitt eins og gerist annars staðar á landinu. Þetta eru fjölskylduhátíðir með tilheyrandi veisluhöldum og gjöfum."