Hirst, Lucas og Fairhurst.
Hirst, Lucas og Fairhurst. — Reuters
TATE-listasafnið í London hýsir þessa dagana sýningu á verkum listamannanna Damien Hirsts, Sarah Lucas og Angus Fairhursts.

TATE-listasafnið í London hýsir þessa dagana sýningu á verkum listamannanna Damien Hirsts, Sarah Lucas og Angus Fairhursts. Sýningin nefnist In-A-Gadda-Da-Vida og má þar finna, að sögn gagnrýnanda breska dagblaðsins Daily Telegraph, öll helstu sérkenni listamannanna, sem gjarnan hafa verið nefndir Young British Artists - eða Ungu bresku listamennirnir, m.a. brons-górillur, sígarettuskúlptúra og rotnandi hræ Hirsts. Að sögn blaðsins má líkja sýningunni við eins konar framþróunarskýrslu á ferli listamannanna þriggja, sem nú eru reyndar að nálgast fertugt en hafa þekkst og unnið saman allt frá námsárum sínum. Þannig eiga verk þeirra að kallast á, styrkja hvert annað og minna áhorfendur jafnt á það sem sameinar þau sem það sem skilur þau að, auk breytinganna sem orðið hafa í list þeirra Hirst, Lucas og Fairhursts í gegnum tíðina.

Inka-múmíur finnast í Perú

FORNLEIFAFRÆÐINGAR tilkynntu á dögunum um fund á múmíum frá Inka-tímanum í útjaðri Lima, höfuðborgar Perú. Að minnsta kosti 22 múmíur fundust við uppgröftinn, og hafði vefmiðill Voice of America eftir Guillermo Cock, sem fer fyrir uppgreftrinum, að múmíurnar væru frá tímabilinu 1470-1530.

Þúsundir múmía hafa fundist í Perú á undanförnum árum.

Syndir á sviðinu

HNEYKSLISMÁL kaþólsku kirkjunnar í Boston, er sneri að kynferðislegri misnotkun presta á börnum, hefur nú verið gert að leikriti sem frumsýnt var í Chicago í vikunni. Verkið nefnist Sin: A Cardinal Deposed og eru flestar orðræður verksins byggðar á yfirlýsingum sem gefnar voru út vegna kirkjulegra réttarhalda vegna málsins á árunum 2002 og 2003, en að auki er byggt á bréfum og yfirlýsingum rómversk-kaþólskra presta, lækna, fórnarlamba og foreldra þeirra. Verkið hefur vakið sterk viðbrögð að sögn New York Times, sem segir áhorfendur marga greinilega vera hrærða, en í leikritinu er dregin fram lifandi mynd af viðbrögðum Bernard Law, kardínála í Boston, við þessu hneykslismáli í erkibiskupsdæmi sínu. Hluti af áhrifamætti verksins er þá, að mati blaðsins, að það byggist eingöngu á raunverulegum atburðum.

Yfirvöld kirkjunnar hafa ekki viljað tjá sig um verkið.