Poulenc-hópurinn leikur breska fantasíutónlist í 15:15 tónleikasyrpunni.
Poulenc-hópurinn leikur breska fantasíutónlist í 15:15 tónleikasyrpunni. — Morgunblaðið/Ásdís
15:15 TÓNLEIKASYRPAN á nýja sviði Borgarleikhússins býður upp á Breskar fantasíur næstu tvo laugardaga, þar sem skyggnst verður inn í hinn stóra heim breskar kammertónlistar.

15:15 TÓNLEIKASYRPAN á nýja sviði Borgarleikhússins býður upp á Breskar fantasíur næstu tvo laugardaga, þar sem skyggnst verður inn í hinn stóra heim breskar kammertónlistar. Flytjendur eru Poulenc-hópurinn, skipaður Þórunni Guðmundsdóttur, sópran, Hallfríði Ólafsdóttur, flautuleikara, Eydísi Franzdóttur, óbóleikara, Zbigniew Dubik, fiðluleikara, Bryndísi Pálsdóttur, fiðluleikara, Herdísi Önnu Jónsdóttur, víóluleikara og Bryndísi Björgvinsdóttur, sellóleikara.

Fyrri tónleikarnir, á morgun kl. 15.15, hefjast á æskuverki eftir Benjamin Britten, Fantasíu-kvartett fyrir óbó og strengi. "Kvartettinn er líklega eitt mest flutta verk Brittens, enda nýtur það jafnan mikillra vinsælda bæði flytjenda og áheyrenda, fullt af æskufjöri, samið af Britten einungis 19 ára," segir Eydís. "Peter Warlock er ekki jafn þekkt nafn í tónlistarheiminum og Britten. Eftir hann liggja aðallega sönglög ásamt meistarastykki hans The Curlew (Spóinn) sem hér verður flutt. Þetta undurfagra verk er samið fyrir söngrödd, flautu, enskt horn og strengjakvartett, við fjögur ljóð eftir W.B.Yeats. Ljóð um óendurgoldna ást í líkingu vellandi spóa."

Tónleikunum lýkur á Kvintett eftir Arnold Bax fyrir óbó og strengjakvartett. "Bax er eitt athyglisverðasta tónskáld Breta frá fyrri hluta 20.aldar. Hann heillaðist mjög af írskri þjóðlagatónlist og bera verk hans merki þess. Kvintettinn gæti verið einskonar heimsókn á írska þjóðlagahátíð."

Tónleikarnir eru undir hatti ,,Ferðalaga" þar sem ferðast er á vængjum tónlistarinnar um ákveðin lönd eða landsvæði.