Sól og sumar: Mondello-ströndin í Palermo blasir hér við og næsta nágrenni hennar.
Sól og sumar: Mondello-ströndin í Palermo blasir hér við og næsta nágrenni hennar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónin Ágúst Jóhannesson og Ragnheiður Bachmann höfðu húsnæðis- og bílaskipti við hjón á Sikiley í fyrrasumar og skemmtu sér þar konunglega ásamt þremur börnum sínum. Jóhanna Ingvarsdóttir forvitnaðist um fyrirkomulagið.

Þegar okkur stóðu til boða húsaskipti við fjölskyldu í Palermo á Sikiley, slógum við strax til þar sem okkur langaði til að fara sunnarlega í sólina," segja hjónin Ágúst Jóhannesson endurskoðandi og Ragnheiður Bachmann ljósmóðir, sem fóru í þriggja vikna frí til Sikileyjar síðasta sumar ásamt börnum sínum Gunnari, 17 ára, Þóru, 15 ára, og Brynju, 7 ára. Þau segja reynsluna af húsaskiptunum góða og eru þau nú að skoða sams konar ferðamöguleika fyrir komandi sumar í gegnum Intervac þar sem þau eru með eign sína á skrá ásamt fjölmörgum öðrum íbúðareigendum um heim allan. Þau hafa nú þegar fengið nokkur tilboð og stefna helst á Bretland, Danmörku eða Þýskaland.

"Kunningi, sem hafði oft nýtt sér þennan möguleika, sagði okkur frá Intervac fyrst fyrir um átta árum. Það var síðan í febrúar á síðasta ári að við slógum til í aðdraganda Íraksstríðs. Við fórum inn á Intervac.is þar sem er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar. Skráning gildir í eitt ár í senn og kostar fimm þúsund krónur, en samtökin voru stofnuð árið 1953 af svissneskum kennurum, sem voru að leita ódýrra leiða til að ferðast. Öll samskipti fara nú fram á Netinu og byggjast þau mest á gagnkvæmu trausti manna í milli. Intervac heldur úti sérstökum vef, sem öllum er frjálst að skoða, en meðlimir fá sérstakt númer og lykilorð til að nálgast aðra meðlimi. Best er að vera búinn að skrá sig inn á vefinn í nóvember eða desember fyrir komandi sumar. Nauðsynlegt er að hafa tengilið til að taka á móti gestum og kenna þeim á helstu heimilistæki."

Þegar ákvörðun fjölskyldunnar hafði verið tekin þurfti að finna leiðir til að komast á áfangastað en þá vandaðist málið. Við fyrstu athugun virtist sem fljúga þyrfti í gegnum Róm en þangað var ekki hægt að komast beint frá Íslandi og því stefndi í þrjá flugleggi. Í maíbyrjun hóf írska lággjaldaflugfélagið Ryanair hins vegar að bjóða beint flug á milli Stanstead og Palermo sem fjölskyldan ákváð að grípa. Niðurstaðan var því sú að flogið var með Iceland Express til Stanstead 22. júlí, gist á flugvallarhóteli yfir nótt og síðan flogið daginn eftir áfram beint til Palermo. Þar tóku á móti íslensku gestunum vinahjón fjölskyldunnar, sem átti íbúðina, og hjálpuðu Íslendingunum við að feta fyrstu skrefin á nýju heimili. Á meðan flaug ítalska fjölskyldan til Íslands.

Tengiliðir nauðsynlegir

Það truflaði þau Ágúst og Ragnheiði aldrei að vita af öðru fólki í húsinu sínu, en náinn ættingi var erlendu gestunum innan handar ef á þurfti að halda. Í húsið þeirra komu skólastjórahjón með tvær uppkomnar dætur sínar. Ágúst og Ragnheiður rýmkuðu til í fataskápum og þar sem Ítalirnir komu frá hlýju svæði, var skíðafatnaðurinn boðinn fram til notkunar. Hann mun hafa verið í stöðugri notkun allan tímann enda hitinn ekki "nema" 12-15 gráður á Íslandi í júlí og ágúst. Hitinn í Palermo á sama tíma var í kringum 35-40 gráður og því reyndust veðraviðbrigðin mikil hjá öllum.

Þetta var í tíunda sinn sem gestirnir frá Sikiley höfðu húsaskipti enda líkaði þeim fyrirkomulagið vel og höfðu ferðast um allan heim með þessu móti. Þau heilluðust af Íslandi. Þeim fannst náttúran ósnortin, víðáttan mikil og hægt að ferðast um langan veg einn síns liðs án þess að rekast á annað en fjórfætlinga, að sögn Ágústs. "Þessa fágætu kosti skildum við vel þegar kom til Palermo þar sem mannmergð er mikil og flestar götur ráða illa við umferðarþungann. Þó að maður hafi keyrt víða, þurfti góðan tíma til að komast í takt við umferðina í Palermo.

Við fengum þriggja herbergja rúmgóða íbúð á efstu hæð í níu hæða fjölbýlishúsi með stórum svölum, sem óspart voru notaðar, og í kringum húsið var há girðing með rafknúnu hliði. Íbúðin stendur nærri Mondello-ströndinni, sem er frægasta og vinsælasta baðströnd Palermo. Við notuðum ströndina mikið, lágum í hvítum sandinum og syntum í sjónum. Þarna voru sárafáir erlendir ferðamenn að undanskildum Ítölum.

Bíllinn gufaði upp

Skólastjórahjónin frá Sikiley fengu afnot af fjölskyldubílnum okkar og á móti fengum við rúmgóðan bíl frá þeim. Að auki fylgdi með gamall Fiat Panda, sem við kölluðum strandbílinn því auðvelt var að leggja honum. Á fyrsta degi lentum við í ævintýri með Fiatinn. Þegar við komum af ströndinni var bíllinn hvergi sjáanlegur þar sem við höfðum skilið við hann. Nú voru góð ráð dýr. Við brugðum á það ráð að hringja í tengiliðinn okkar og kom í ljós að við höfðum lagt ólöglega. Bíllinn hafði verið dreginn í burtu af dráttarbíl. Eftir nokkur símtöl fannst bíllinn í bílaporti og eftir þónokkra snúninga og ferðir á lögreglustöðina tókst okkur að leysa bílinn út með greiðslu sektar eftir að hafa fært sönnur á að við mættum nota bílinn. Í þessum aðstæðum reyndist tengiliðurinn betri en enginn. Okkur var bent á að skilja aldrei neitt eftir í bílnum, allra síst skráningarskírteinið, því bíllinn væri þjófum einskis virði án þess. Í eitt skipti er við komum að bílnum eftir dag á ströndinni hafði verið farið inn í hann, en þar var engu að stela.

Ævintýri og sandstrendur

Þau Ágúst og Ragnheiður hugsuðu ferðina fyrst og fremst til afslöppunar í nýju umhverfi. "Með þessu móti göngum við inn í daglegt líf fólks, eignumst nágranna og upplifum hvernig fólk býr á þessum slóðum, kaupum inn í hverfisverslunum, sem eru fjölbreyttar og um margt ólíkar því sem við eigum að venjast. Mestum tíma eyddum við í Palermo, sem státar af mörgum fallegum byggingum, og á ströndinni. Við ferðuðumst til Catania, næststærstu borgar eyjarinnar, sem stendur við rætur Etnu og á þeim hluta Sikileyjar sem er næst Ítalíuskaganum. Borgin hefur farið undir hraun oftar en einu sinni eftir gos í Etnu, en verið byggð upp jafnharðan aftur. Fyrir okkur var Etna eins og stækkuð útgáfa af Heklu, en ekki eins falleg. Við ferðuðumst líka til Cefalu, sem er bær nærri Palermo og státar m.a. af gömlum og vel við höldnum bæjarhluta, sem gaman er að ganga um. Allir þessir staðir státa af strandlífi og eru strandirnar stórar með hvítum sandi svo langt sem augað eygir.

Börnin okkar þrjú upplifðu ferðalagið allt sem mikið ævintýri. Þeim fannst gaman að taka þátt í daglegu lífi Sikileyjarbúa og pitsurnar voru þær langbestu sem þau höfðu smakkað. Þá fannst þeim virkisveggurinn umhverfis húsið afar framandi og á sama tíma fannst Ítölunum húsið okkar illa varið. Við mælum hiklaust með svona ferðafyrirkomulagi. Við kynntumst nýjum siðum og venjum, sem við vorum í snertingu við allan tímann, og ævintýrin voru aldrei langt undan."

Gagnlegar slóðir: www.intervac.is http://213.82.254.66/tourpass/eng/collegamenti.htm www.regione.sicilia.it/turismo/web_turismo/ www.sicilia.indettaglio.it/eng/index.html www.comune.palermo.it/site.htm