Frá málþingi um búsetuþjónustu fyrir fatlaða á Hótel Eldhestum í Ölfusi.
Frá málþingi um búsetuþjónustu fyrir fatlaða á Hótel Eldhestum í Ölfusi. — Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
Selfoss | Það er enginn svo fatlaður að hann eigi ekki að njóta mannréttinda, voru lokaorð málþings Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra Suðurlandi og Þroskahjálpar Suðurlandi sem fram fór 11. mars í tilefni Evrópuárs fatlaðra.

Selfoss | Það er enginn svo fatlaður að hann eigi ekki að njóta mannréttinda, voru lokaorð málþings Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra Suðurlandi og Þroskahjálpar Suðurlandi sem fram fór 11. mars í tilefni Evrópuárs fatlaðra. Á málþinginu fluttu erindi Friðrik Sigurðsson, formaður Þroskahjálpar, Hanna Björg Sigurjónsdóttir, Alda Árnadóttir og Ragnheiður Hergeirsdóttir. Megininntak umræðna og erinda var að hver maður ætti rétt á að njóta friðhelgi og einkalífs

Málþingið hafði yfirskriftina. Búseta fyrir alla - ný öld, ný hugsun. Ragnheiður Hergeirsdóttir, framkvæmdastjóri Svæðisskrifstofu, um málefni fatlaðra á Suðurlandi sagði í setningarávarpi að vitund almennings um réttindi fatlaðs fólks hefði aukist til mikilla muna á síðustu árum og að áhrif fatlaðra á eigið líf færi vaxandi. Megininntak í störfum á þessum vettvangi væri að fatlaðir hefðu sama rétt og sömu tækifæri og þeir ófötluðu. Áhersla væri á eitt samfélag fyrir alla.

Áherslur á aukið einkarými

Friðrik Sigurðsson sagði frá athugun sinni á markmiðum laga um húsnæðismál fatlaðra og framkvæmd þeirra. Allar áherslur í búsetumálum fatlaðra væru á aukið einkarými fólks og friðhelgi einkalífsins. Munur væri á kröfum um einkarými fyrir fatlaða og það sem kæmi fram sem almenn atriði í byggingareglugerðum. Í reglugerð frá 2002 væri gert ráð fyrir 10 fermetrum sem minnsta rými til einkanota fyrir fatlaða en í byggingarreglugerð væri gert ráð fyrir 18 fermetrum og minnsta rými 8 fermetrum. Nú væru á landinu 82 sambýli með 426 einstaklingum. 12,4% þeirra væru með einkarými undir 10 fermetrum, 47% með einkarými 10-14 fermetar, 12% með 14-18 fermetra og 16% höfðu einkarými með herbergi og baði. Í Noregi væru 95% þeirra sem nytu búsetuþjónustu í fullgildum íbúðum, í Svíþjóð væri hlutfallið 80% en hér á landi væru einungis 12% í þessum aðstæðum. "Að búa í fullgildri íbúð er grundvöllur þess að lifa sjálfstæðu lífi."

Hanna Björg Sigurjónsdóttir sagði að þarfir fatlaðra væru skilgreindar út frá fötlun þeirra en þarfir ófatlaðra væru skilgreindar út frá löngunum. Í þessu væri fólgin mikil mismunun og uppi væru kenningar um að hafa eflingu einstaklinganna sem leiðarljós í allri umsýslu með fatlað fólk. Það væri í raun ekki skerðingin sem fatlaði fólkið heldur félagslegt, efnahagslegt og menningarlegt umhverfi ásamt samfélagslegum viðhorfum. Kerfisbundin mismunun fatlaðra þyrfti að minnka. Valdefling væri jákvæð deiling á valdi einstaklinga til að skilgreina líf sitt, langanir og aðstæður óháð stofnunum. "Fatlaðir þurfa að fá að skilgreina þarfir sínar sjálfir," sagði Hanna Björg. Hún sagði of lítið gert af því að kenna fötluðum að vera sjálfstæðir og taka ákvarðanir sjálfir en jákvæð sjálfsmynd væri lykillinn að valdeflingu.

Skörun á þjónustuþáttum

Alda Árnadóttur, deildarstjóri stoðþjónustu í Árborg, lagði í sínu erindi áherslu á samstarf þeirra aðila sem sinntu þjónustu við fatlaða. Um væri að ræða heimaþjónustu og svonefnda frekari liðveislu. Þessir þjónustuþættir sveitarfélaga og ríkis skörðuðust en oft væri verið að þjónusta sömu einstaklingana af tveimur stofnunum. Samvinna væri því mjög mikilvæg og hún yrði að byggjast á þörfum einstaklinganna. "Þjónustan þarf að vera á einni hendi til að minnka misrétti og að unnt sé að vinna út frá einstaklingnum," sagði Alda.

Allir hafi sambærilega kosti

Ragnheiður Hergeirsdóttir sagði það megináherslu að fatlað fólk hefði sambærilega kosti varðandi búsetu og annað fólk. Það þyrfti að eiga þess kost að búa við bestu skilyrði á hverjum tíma með þjónustu eftir þörfum í því byggðarlagi sem það kýs sjálft. Hún sagði nauðsynlegt að taka tillit til óska og þarfa einstaklinganna, gera þyrfti þá meðvitaða um hvað væri í boði og fá þá til að taka ákvarðanir fyrir sjálfan sig. Hún fjallaði um áherslur á einkalíf fatlaðra sem deildu heimili með öðrum. Líta þyrfti á fatlaða sem einstaklinga fremur en hóp. Hún sagði nauðsynlegt að leiða hugann að þessum atriðum og benti meðal annars á þær aðstæður sem koma upp þegar einhver kemur í heimsókn á heimili þar sem hópur fatlaðra býr, þá væri fólk í raun að heimsækja alla íbúana og alla starfsmennina. "Vill einhver fara í svoleiðis heimsóknir," sagði Ragnheiður. Hún lagði meðal annars áherslu á að samvinna væri forsenda einstaklingsbundinnar búsetuþjónustu og það væri nauðsynlegt að eyða orkunni í að komast á tindinn og veita einstaklingsbundna gæðaþjónustu.