Spænskir rannsóknarmenn leita að líkamsleifum í flaki lestarinnar á Atocha-stöðinni. Mjög erfitt hefur reynst að bera kennsl á sum líkanna enda stundum ekki annað eftir en einn útlimur. Meðal hinna látnu eru að minnsta kosti 17 útlendingar frá 11 þjóðlöndu
Spænskir rannsóknarmenn leita að líkamsleifum í flaki lestarinnar á Atocha-stöðinni. Mjög erfitt hefur reynst að bera kennsl á sum líkanna enda stundum ekki annað eftir en einn útlimur. Meðal hinna látnu eru að minnsta kosti 17 útlendingar frá 11 þjóðlöndu — AP
Í LÍKHÚSUM sjúkrahúsanna í Madríd í gær mátti sjá raðir fólks sem var að reyna að afla sér vitneskju um hvort ættmenni þess hefðu farist í hryðjuverkunum í borginni í fyrradag.

Í LÍKHÚSUM sjúkrahúsanna í Madríd í gær mátti sjá raðir fólks sem var að reyna að afla sér vitneskju um hvort ættmenni þess hefðu farist í hryðjuverkunum í borginni í fyrradag. Margir áttu erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum og geðshræringu, óvissan nagaði aðra: í sumum tilfellum var lítið eftir af fórnarlömbunum nema klæðnaður eða einstaka útlimur.

Ungur sálfræðingur, Gema Perez, var við störf í einu sjúkrahúsanna í gærmorgun og reyndi að hugga fólk sem fengið hafði slæmar fregnir af afdrifum ástvina eða beið enn í óvissu um það hvort viðkomandi hefði beðið bana. "Það erfiðasta af öllu er að þurfa að bera kennsl á líkin. Stundum er ekkert eftir nema handleggur eða fótleggur. Þá er reynt að bera kennsl á viðkomandi með því að skoða önnur auðkenni, s.s. ör, fatnað eða skartgripi," sagði Perez.

"Það er algert öngþveiti þarna inni. Fólk hleypur um gangana og leitar dauðaleit að ástvinum sínum," sagði Jose Flores, Ekvador-búi sem var að leita að Liliönu Acero, mágkonu bróður síns. Acero, sem var aðeins 26 ára gömul, hafði aðeins verið búsett í Madríd í nokkra mánuði. "Hún tekur alltaf lestina kl. 7.15 í vinnuna á morgnana," sagði Flores.

A.m.k. 17 útlendingar létust

Mörg fórnarlamba hryðjuverkanna voru innflytjendur frá öðrum löndum og fram kom í máli José Maria Aznars, forsætisráðherra Spánar, í gær að meðal látinna væri fólk frá að minnsta kosti ellefu þjóðlöndum, auk Spánar.

Kom fram í gær að ljóst væri að a.m.k. þrír Perú-búar væru í hópi látinna, tveir menn frá Hondúras, tveir Pólverjar, tveir Rúmenar og ein manneskja frá Frakklandi, Chile, Kúbu, Ekvador, Kólumbíu, Marokkó og Gíneu-Bissau.

"Fjölskyldurnar skilja þetta einfaldlega ekki. Þau spyrja í sífellu: hvers vegna gerðist þetta? Hvers vegna gerðist þetta? Margir eru alveg óhuggandi," sagði Fernando Olivera, sendiherra Perú á Spáni, sem hafði gert sér ferð í líkhúsið til að aðstoða þá sem um sárt eiga að binda. "Þrír landa minna eru látnir. Þeir skilja eftir sig ekkjur og börn. Við deilum angistinni með íbúum Spánar," sagði Olivera.

Madríd. AFP.