FARÞEGAR grétu, kveiktu á kertum og lögðu blóm á jörðina á Atocha-brautarstöðinni í miðborg Madrídar í gær, þar sem undir venjulegum kringumstæðum hefði verið mikil ös og allir á hraðferð.

FARÞEGAR grétu, kveiktu á kertum og lögðu blóm á jörðina á Atocha-brautarstöðinni í miðborg Madrídar í gær, þar sem undir venjulegum kringumstæðum hefði verið mikil ös og allir á hraðferð. Í gær féllu þar þögul tár í kjölfar hryðjuverkanna sem urðu 198 að bana og særðu rúmlega 1.400 í fyrradag. Flak lestanna fjögurra voru enn á teinunum skammt frá Atocha í gær.

"Ég var mjög hrædd við að koma hingað," sagði Isabel Galan, 32 ára, sem kom til Atocha úr úthverfinu Fuenlabrada. "Þegar ég sá lestirnar fór ég að gráta. Mér fannst ég svo hjálparvana, varð svo reið," sagði hún og tárin runnu niður vanga hennar.

Atocha var óvenju þögul í gær. Fáir sögðu orð, flestir voru að lesa blöð eða hlusta á útvarpið. Á öllum lestunum sem komu inn á stöðina hafði svartur sorgarborði verið hengdur út um glugga stjórnklefans. Samkvæmt upplýsingum spænsku járnbrautanna, RENFE, voru farþegar í gærmorgun um 30% færri en venjulega. Margar lestanna sem komu inn á Atocha voru hálftómar.

Fjórar af sex járnbrautarlínum fyrir úthverfa- og héraðslestir sem koma til Atocha voru opnar í gær og umferð var að mestu með eðlilegum hætti. Lestum á þeirri línu þar sem tilræðin voru framin var beint á hina stóru brautarstöðina í borginni, Chamartin.

Madríd. AP.