AÐSKILNAÐARSAMTÖK Baska, ETA, neituðu því formlega í gær að þau hefðu staðið fyrir hryðjuverkunum í Madríd í fyrradag, að sögn baskneskra fjölmiðla. Spænsk stjórnvöld sögðu þó að enn væri talið líklegt að liðsmenn ETA hefðu verið að verki.

AÐSKILNAÐARSAMTÖK Baska, ETA, neituðu því formlega í gær að þau hefðu staðið fyrir hryðjuverkunum í Madríd í fyrradag, að sögn baskneskra fjölmiðla. Spænsk stjórnvöld sögðu þó að enn væri talið líklegt að liðsmenn ETA hefðu verið að verki.

Baskneska dagblaðið Gara sagði að maður, sem kvaðst tala fyrir munn forystu samtakanna, hefði hringt í ritstjórnina og lagt áherslu á að þau bæru "alls enga ábyrgð" á sprengjutilræðunum í Madríd.

Gara styður baskneska þjóðernissinna og ETA hefur oft notað blaðið til að koma yfirlýsingum á framfæri.

Baskneska sjónvarpsstöðin EITB kvaðst hafa fengið samskonar yfirlýsingu frá aðskilnaðarsamtökunum.

Nýjar vísbendingar

Angel Acebes, innanríkisráðherra Spánar, sagði að lögreglan í Madríd hefði fundið ósprungna sprengju sem gæfi nýjar vísbendingar um hverjir kynnu að hafa verið að verki. Fregnir hermdu að tíu kílógrömm af sprengiefni og kíló af málmflísum hefðu fundist í bakpoka á lögreglustöð í Madríd. Pokinn var fluttur þangað vegna þess að talið var að hann væri í eigu eins af fórnarlömbum hryðjuverkanna.

Útvarpsstöðin Cadena Cer sagði að í pokanum hefði verið plastsprengiefni af tegund sem "ETA notar yfirleitt ekki" heldur "önnur hryðjuverkahreyfing og hún tengist íslömskum öfgamönnum". Þessi frétt var ekki staðfest og spænskir fjölmiðlar sögðu í gærkvöldi að utanríkisráðherra Spánar hefði sent öllum sendiherrum landsins fyrirmæli um að "staðfesta aðild ETA" að hryðjuverkunum "til að eyða hvers konar efasemdum".

Madríd. AFP, AP.