Á TÍMUM alþjóðavæðingar og frjáls flæðis, sem Ísland hefur ekki farið varhluta af, hafa rótgróin innlend fyrirtæki skipt um eigendur, bankar eru orðnir virkir þátttakendur í íslensku atvinnulífi með eignarhaldi sínu og beinum afskiptum.

Á TÍMUM alþjóðavæðingar og frjáls flæðis, sem Ísland hefur ekki farið varhluta af, hafa rótgróin innlend fyrirtæki skipt um eigendur, bankar eru orðnir virkir þátttakendur í íslensku atvinnulífi með eignarhaldi sínu og beinum afskiptum. Það sem áður voru þjónustustofnanir á sviði fjármála við heimilin og atvinnulífið eru nú orðnir virkir gerendur á fyrirtækjamarkaði.

Þetta sagði Árni Magnússon félagsmálaráðherra í ræðu á Iðnþingi og spurði svo jafnframt: "Er það raunverulega svo að eðlilegt sé að einstakir viðskiptabankar verji mestum kröftum sínum og fjármunum, jafnvel með stórkostlegum erlendum lántökum, í að brytja niður fyrirtæki í íslensku viðskiptalífi, til hagnaðar fyrir sjálfa sig? Er það tilgangur þeirra? Aldrei verður sátt um aukið frelsi fjármagns nema því fylgi félagslegt réttlæti. Þar bera fyrirtækin ábyrgð og verða að axla hana."

Stórfyrirtæki sem ráða hverjir fá að lifa

Þá vék félagsmálaráðherra einnig að samþjöppun í verslun og þjónustu og sagði ábyrgð eigenda og stjórnenda vera mikla. Miklu skipti hvernig á væri haldið og merki væru um að ekki risu allir undir henni: "Verslunar- og þjónustufyrirtæki hafa á sama tíma stækkað gífurlega, völd þeirra gagnvart smærri fyrirtækjum, ekki síst smærri framleiðslufyrirtækjum, eru mikil," sagði Árni. "Þræðirnir liggja svo víða að helst minnir á vef risavaxinnar köngulóar. Þessi stórfyrirtæki geta í mörgum tilvikum ráðið því hverjir fái lifað og hverjir skuli deyja. Ábyrgð þeirra sem þessum stóru, virku - ég segi afskiptasömu fyrirtækjum ráða er mikil. Gildir þar einu hvort ræðir um verslanir, fjölmiðla eða fjármálastofnanir. Það er hreint ekki sama hvernig á er haldið. Það eru ákveðin merki þess í íslensku efnahags- og atvinnulífi að ekki valdi allir því hlutverki sem þeim hefur verið falið eða þeir hafa tekið sér."

Umsvif einstakra aðila á mörkum hins siðferðilega

Þá sagði félagsmálaráðherra að merki væru um hringamyndun í viðskiptalífinu og að hans mati væru umsvif einstakra aðila í atvinnulífinu á mörkum þess að standast siðferðilega mælikvarða. "Það er að mínu viti eitthvert mikilvægasta hlutverk okkar stjórnmálamanna um þessar mundir að standa vaktina. Ábyrgð okkar er mikil en ábyrgð þeirra sem ég hér fjalla um er ekki minni, taki þeir til sín sem eiga. Við stjórnmálamenn þurfum að vera á varðbergi og það munum við verða. Íslenska þjóðin þarf sömuleiðis að veita þessum nýju valdhöfum aðhald, þeir eiga ekki að fá tækifæri til að ofbjóða þjóðinni, sitjandi á einhvers konar heimatilbúnum friðarstóli," sagði Árni Magnússon.