KAUPFÉLAG Árnesinga hefur verið dæmt til að greiða Sparisjóði Mýrasýslu 30 milljónir króna með dráttarvöxtum og vaxtavöxtum, en upphæðin var tekin að láni af fyrrverandi framkvæmdastjóra Hótel Selfoss.

KAUPFÉLAG Árnesinga hefur verið dæmt til að greiða Sparisjóði Mýrasýslu 30 milljónir króna með dráttarvöxtum og vaxtavöxtum, en upphæðin var tekin að láni af fyrrverandi framkvæmdastjóra Hótel Selfoss.

Forsvarsmenn Kaupfélags Árnesinga héldu því fram að framkvæmdastjórinn hefði ekki haft heimildir til að taka lánið, og hefði Sparisjóðnum átt að vera það fullljóst þegar tekin var ákvörðun um að veita lánið. Þessu hafnaði Héraðsdómur Vesturlands í dómi sínum, og segir ljóst miðað við umfang rekstursins að það teljist innan eðlilegs starfssviðs framkvæmdastjóra að taka lán að upphæð 30 milljónir króna.

Eignarhaldsfélagið Brú, sem er í eigu Kaupfélagsins, sá um rekstur Hótel Selfoss út febrúar 2002 en þá tók Kaupfélagið við rekstrinum með leigusamningi við Brú. Brú fékk greiðslustöðvun í júlí 2003, og síðar var það tekið til gjaldþrotaskipta. Kaupfélagið rak hótelið sem Flugleiðahótel, og hafði þannig aðild að greiðslumiðlun Flugleiða.

Veðréttur staðfestur

Sparisjóður Mýrasýslu fór einnig fram á að dómurinn staðfesti veðrétt sparisjóðsins í greiðslum frá greiðslumiðlun Flugleiða, og féllst dómurinn á rök sparisjóðsins fyrir því. Kaupfélag Árnesinga var einnig dæmt til að greiða málskostnað, alls 300.000 kr.

Dóminn kvað upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.