SIGFÚS Sigurðsson verður með Magdeburg í dag þegar liðið sækir Flensburg heim í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu í handknattleik.

SIGFÚS Sigurðsson verður með Magdeburg í dag þegar liðið sækir Flensburg heim í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Sigfús var hvíldur í síðustu tveimur deildarleikjum Magdeburg en meiðsl í hné hafa verið að angra hann og lék hann draghaltur gegn Flensburg í byrjun þessa mánaðar.

"Ég er nú ekki alveg orðinn góður en það kemur ekki til greina annað en að spila. Ég harka af mér og sjúkraþjálfararnir tjasla mér saman og vonandi heldur hnéð. Ég hef ekkert æft í meira en tíu daga og hef aðeins farið í sund, hjólað og lyft. Það getur vel verið að ég spili bara varnarleikinn en það verður bara að koma í ljós," sagði Sigfús við Morgunblaðið en hann var á leið í rútu með félögum sínum áleiðis til Flensburg.

Magdeburg vann báða deildarleikina á móti Flensburg á leiktíðinni, hinn fyrri á útivelli með 11 marka mun og 2. mars síðastliðinn vann Magdeburg leik liðanna, 32:26. "Það var lítið að marka fyrri leikinn. Flensborg hitti á afleitan dag og ég reikna með svakalega erfiðum leik. Ef okkur tekst að smella vörninni saman þá er ég sannfærður um að við sigrum og það vinnur ekkert lið okkur ef vörnin er í lagi."

Þess má geta að Stefán Arnaldsson og Gunnar Viðarsson dæma leikinn í Flensburg í dag sem hefst klukkan 14 að íslenskum tíma.