Verslunarráð Íslands, Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins munu næstkomandi mánudag kynna nýjar leiðbeiningar um starfshætti fyrirtækja sem hafa að markmiði að skýra hlutverk og störf stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækja á Íslandi.

Verslunarráð Íslands, Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins munu næstkomandi mánudag kynna nýjar leiðbeiningar um starfshætti fyrirtækja sem hafa að markmiði að skýra hlutverk og störf stjórnarmanna og stjórnenda fyrirtækja á Íslandi. Með leiðbeiningunum er þessum aðilum auðveldað að rækja skyldur sínar um leið og hagur allra hluthafa í hlutafélögum er efldur.

Verslunarráð hóf sumarið 2003 vinnu við tillögugerð um stjórnarhætti fyrirtækja (e. corporate governance). Á haustmánuðum 2003 hófst samstarf VÍ við Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins um þetta verkefni. Tilgangurinn með þessari samvinnu var að skapa breiða samstöðu um stjórnarhætti fyrirtækja. Íslenskt viðskiptalíf vill axla ábyrgð í því aukna frelsi sem ríkir í viðskiptum. Fyrirtæki verða að sýna hluthöfum virðingu og hlúa að samskiptum við viðskiptavini og þjóðfélagið í heild.

Undanfarin ár hafa leiðbeiningar um stjórnarhætti litið dagsins í ljós í um 30 ríkjum. Þessar leiðbeiningar eru m.a. komnar fram vegna þeirrar gagnrýni sem alþjóðlegt viðskiptalíf hefur orðið fyrir vegna misnotkunar á valdi í einstökum fyrirtækjum. Þær leiðbeiningar sem unnið hefur verið að hér sem erlendis eru þó ekki settar fram til að bæta fyrir mistök gærdagsins heldur fyrst og fremst til að horfa til morgundagsins. Fyrirtæki skynja að með því að auka traust hluthafa og almennings skapast fjölmörg tækifæri þegar til lengri tíma er litið. Gagnkvæmt traust almennings og viðskiptalífs er lykill að bættri samkeppnisstöðu Íslands og betri lífskjörum.

Aukið traust

Markmiðið með leiðbeiningunum er fyrst og fremst að stuðla að góðum stjórnarháttum fyrirtækja á Íslandi. Auðvelda á stjórnarmönnum og stjórnendum hlutafélaga að rækja skyldur sínar og stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja, sem þeim er trúað fyrir að stjórna. Um leið er markmið leiðbeininganna að auka traust á fyrirtækjum og atvinnurekstri almennt og efla trúnað milli fjárfesta og stjórnenda. Loks má nefna að með skýrum leiðbeiningum um stjórnarhætti hérlendis er erlendum fjárfestum auðveldað að gera sér grein fyrir þeim stjórnarháttum sem tíðkast hérlendis þegar þeir eru að meta hvort þeir ætla að fjárfesta hér á landi. Þannig geta leiðbeiningarnar bætt aðgengi innlendra fyrirtækja að fjármagni hérlendis og erlendis.

Leiðbeiningar um stjórnarhætti henta hlutafélögum, hvort sem þau eru skráð í Kauphöll Íslands eða ekki, svo og einkahlutafélögum og fyrirtækjum í eigu ríkis og sveitarfélaga. Leiðbeiningarnar í heild sinni eða að hluta geta jafnframt nýst stjórnum annarra félagaforma eða stofnana. Enda þótt fyrst um sinn sé horft til hlutafélaga sem skráð eru á markaði eiga þessar leiðbeiningar jafnframt erindi til óskráðra fyrirtækja og opinberra fyrirtækja. Mörg af þeim atriðum sem nefnd eru í leiðbeiningunum eiga vel við um stjórnir opinberra fyrirtækja og mikilvægt er að ríkið og sveitarfélög sýni frumkvæði í að nota þessar leiðbeiningar til að auka aðhald á stjórnir fyrirtækja þeirra og um leið að undirbúa þau frekar undir einkavæðingu.

Leiðbeiningar í stað laga

Hugmyndin með leiðbeiningum er sú að þegar um skráð félög er að ræða veiti markaðurinn sjálfur fyrirtækjum aðhald um góða stjórnarhætti. Þannig munu markaðsaðilar óska eftir upplýsingum frá fyrirtækjum á markaði um hvaða leiðbeiningum þau fylgja. Ef þau fylgja ekki tilteknum leiðbeiningum munu markaðsaðilar óska eftir skýringum á því. Þessi aðferð hefur verið nefnd "fylgið eða útskýrið" (e. comply or explain). Eðlilega kann aðhald á óskráð félög að vera minna hvað þessar leiðbeiningar varðar en þó munu hluthafar þeirra án efa sjálfir setja sér markmið um stjórnarhætti og lánveitendur óskráðra fyrirtækja kunna jafnframt að óska eftir því að leiðbeiningunum sé fylgt.

Hvati einstakra fyrirtækja til þess að framfylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti er fyrst og fremst sá að fjárfestar og lánveitendur sýna þessum fyrirtækjum meiri áhuga en öðrum. Ýmsar athuganir í Bretlandi hafa sýnt að fjárfestar eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir hlutabréf í fyrirtækjum sem framfylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti. Þannig fara hagsmunir fyrirtækjanna og fjárfestanna saman.

Eðlilegt er að skoða með reglubundnum hætti lagaumhverfi viðskiptalífsins með hliðsjón af breyttum aðstæðum og reynslu. Ástæða er þó til að gefa viðskiptalífinu svigrúm til þess að sinna sjálft hlutverki eftirlitsaðila eins og reynt er með þeim leiðbeiningum sem kynntar verða á mánudag. Þannig er komið í veg fyrir að lög séu sett, sem taka ekki tillit til ólíkra aðstæðna og umsvifa fyrirtækja, og virki því íþyngjandi á fyrirtækjarekstur almennt og geri félög að síðri fjárfestingarkosti. Í fjölmiðlum hérlendis hefur komið fram að í nágrannalöndum okkar eins og Svíþjóð sé nú stefnt að lagasetningu um stjórnarhætti fyrirtækja í stað almennra leiðbeininga. Þetta er rangt. Nær alls staðar í nágrannalöndunum er byggt á leiðbeiningum um stjórnarhætti sem viðbót við þá lagaumgjörð sem fyrir er. Sú vinna sem fram fer í Svíþjóð um stjórnarhætti fyrirtækja byggir á leiðbeiningum en ekki lagasetningu en þó hefur komið fram að hafi þessar leiðbeiningar ekki tilætluð áhrif komi lagasetning til greina.

Frumkvæði fyrirtækja

Á aðalfundi Bakkavarar hf. fyrir skömmu lýstu forsvarsmenn fyrirtækisins því yfir að fyrirtækið hefði tekið upp innri starfsreglur um stjórnarhætti sem m.a. fela í sér að allir hluthafar vita hvernig staðið er að ákvörðun um starfskjör stjórnenda og um innra eftirlit stjórnar. Það er til fyrirmyndar þegar íslensk fyrirtæki taka frumkvæðið í þessum efnum. Íslensku útrásarfyrirtækin hafa einna mestu reynslu af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja þar sem þau hafa kynnst slíkum leiðbeiningum í öðrum löndum.

Viðskiptalífið hefur tekið frumkvæði með þeim leiðbeiningum um stjórnarhætti sem kynntar verða á mánudag. Það er mikið í húfi fyrir viðskiptalífið að vel takist til um eftirfylgni þessara leiðbeininga þannig að auka megi traust hluthafa morgundagsins gagnvart fyrirtækjastarfsemi og koma í veg fyrir íþyngjandi lagasetningu.

Eftir Þór Sigfússon

Höfundur er framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands.