Hann er hættur  Róbert Guðfinnsson hættir í stjórn SH eftir stjórnarformennsku í fimm ár. Hann er að mestu sáttur við árangurinn.
Hann er hættur Róbert Guðfinnsson hættir í stjórn SH eftir stjórnarformennsku í fimm ár. Hann er að mestu sáttur við árangurinn. — Morgunblaðið/Eggert
RÓBERT Guðfinnsson, fráfarandi formaður stjórnar SH, segir að rekstur dótturfyrirtækisins í Bandaríkjunum, Icelandic USA, hafi verið algjörlega óviðunandi undanfarin ár og ávöxtun eigin fjár hafi verið allt of lítil.

RÓBERT Guðfinnsson, fráfarandi formaður stjórnar SH, segir að rekstur dótturfyrirtækisins í Bandaríkjunum, Icelandic USA, hafi verið algjörlega óviðunandi undanfarin ár og ávöxtun eigin fjár hafi verið allt of lítil. Þetta kom fram í ræðu Róberts á aðalfundi SH í gær.

Róbert fjallaði meðal annars um gang mála hjá dótturfyrirtækjum SH erlendis og sagði:

Ávöxtun eigin fjár undir 5%

"Í Bandaríkjunum er rúmlega helmingur eigin fjár samstæðunnar bundinn, tæplega tveir og hálfur milljarður króna. Icelandic USA er því sú eining sem mestu ræður um það hvort afkoma SH-samstæðunnar er ásættanleg eða ekki. Ég verð því miður að viðurkenna að á undanförnum árum hefur rekstrarárangur okkar í Bandaríkjunum verið algjörlega óviðunandi. Mörg undanfarin ár hefur ávöxtun eigin fjár verið um og undir 5%. Til samanburðar má benda á að arðsemi eigin fjár samstæðunnar var síðustu þrjú árin á bilinu 13-19%.

Fæsta ætti því að undra áhugi minn á sameiningu Icelandic USA og Fishery Products í Bandaríkjunum. Að því verkefni vann ég síðastliðin tvö ár. Ekki tókst að koma því máli í höfn vegna afstöðu meirihluta eigenda SH. Með sameiningunni hefði orðið til eitt öflugasta framleiðslu- og sölufyrirtæki sjávarafurða í Bandaríkjunum með góða afkomu að mínu mati.

Að öðru leyti geri ég upp við þau fimm ár sem ég hef setið sem stjórnarformaður með miklu stolti. Rekstur SH-samstæðunnar hefur gengið ágætlega og við skilum nú 500 milljóna króna hagnaði. Vissulega gerðum við okkur vonir um meiri arðsemi og settum markið á 15-18%. Arðsemin fór eitt árið í 19% en á því síðasta var hún 13%. Ekki hefði þurft nema 190 milljónir í viðbótarhagnað til að 18% markið næðist á síðasta ári. Ég er viss um að þess verður ekki langt að bíða," sagði Róbert.

Róbert sagði að síðasta ár hefði að mörgu leyti verið óvenjulegt hjá SH. Nefndi hann breytingar á eignarhaldi og árangurslausar tilraunir til sameiningar SH og SÍF og sagði svo:

"Það má ljóst vera að þegar sameina á tvö rótgróin félög sem hafa verið lengi í virkri samkeppni koma upp mörg álitamál. Við slíkar aðstæður finnst hverjum sinn fugl fagur. Vel þarf því að vanda val á matsaðila til að stýra þeirri vinnu af fagmennsku og óhlutdrægni. Hættan er sú að kappið beri forsjónina ofurliði ef matsaðilinn hefur beina hagsmuni af sameiningunni.

Sameiningarviðræður okkar við SÍF leiddu ekki til þeirrar niðurstöðu sem við höfðum vonast eftir. Helstu ágreiningsefnin voru mat á óefnislegum eignum og framtíðarvirði félaganna. Niðurstaða matsaðila var sú, að verðmæti félaganna væri svipað þótt heldur hallaði reyndar á SÍF. Þrátt fyrir þann halla hef ég ætíð talið að þessi niðurstaða hafi verið fráleit og að SH væri mun verðmætara félag. Hvernig var unnt að segja að óefnislegar eignir stæðu undir bókfærðu verði þegar reksturinn að baki þeim skilaði engu? Þá byggði virðismatið einnig á rekstri tveggja ára sem liðin voru og eins árs fram í tímann og á framreiknuðum rekstri þar næstu árin. Bæði lögðu félögin fram mjög svipaðar áætlanir fyrir nýliðið ár. Við hjá SH drógum mjög í efa að svo snögglega myndi birta til yfir rekstri vissra SÍF-eininga. Í kjölfar birtingar ársuppgjöra félaganna tveggja hefur þessi skoðun mín varðandi framtíðarvirðið verið staðfest," sagði Róbert Guðfinnsson.