Vladímír Pútín
Vladímír Pútín
ENGINN þarf að velta því fyrir sér hver sigri í forsetakosningunum í Rússlandi á morgun, sunnudag. Allar skoðanakannanir spá Vladímír V. Pútín forseta 70-80% atkvæða.

ENGINN þarf að velta því fyrir sér hver sigri í forsetakosningunum í Rússlandi á morgun, sunnudag. Allar skoðanakannanir spá Vladímír V. Pútín forseta 70-80% atkvæða. Svo mikils álits nýtur hann að í könnun sem sagt er frá í þýska tímaritinu Der Spiegel svarar um helmingur nei þegar spurt er hvort eitthvað sé neikvætt í fari forsetans. Aðeins 15% aðspurðra telja að Pútín hafi gripið til réttra aðgerða gegn vandamálum þjóðarinnar en þeir bera samt traust til hans - og vona.

Keppinautar forsetans eru alls fimm en margir þekktir leiðtogar ákváðu að hunsa kosningarnar. Öflugastur hefur verið í könnunum Sergei Glazíev, 43 ára hagfræðingur sem berst gegn einkavæðingu en hann hefur þó verið með innan við 10% fylgi. Hann fékk þar að auki ekki flokk sinn til að styðja sig fremur en hin frjálslynda, hálf-japanska Írína Kakamada sem styður einkavæðingu og hefur beitt sér gegn einræðistilburðum Pútíns.

Önnur forsetaefni hafa verið bljúgari, til dæmis forseti efri deildar þingsins, Sergei Mírónov en hann er gamall félagi Pútíns. En af hverju þá að bjóða sig fram?

"Ég trúi því í einlægni að keppinautar í kosningum geti verið annaðhvort andstæðingar eða ekki andstæðingar. Ég er ekki andstæðingur Pútíns," segir Mírónov. Kommúnistar og flokkur þjóðernis-pópúlistans Valdímírs Zhírinovskís, bjóða fram nær óþekkta menn. Það eina sem veldur Pútín áhyggjum er að kjörsóknin gæti orðið innan við 50% og þá yrði hann ekki löglega endurkjörinn. Kjósa yrði á ný.

Kjörsóknin var aðeins 56% í þingkosningunum í desember og þá ríkti nokkur spenna um úrslitin. En breska tímaritið The Economist gefur í skyn að menn Pútíns muni ekki hika við að reyna að lagfæra tölurnar til að ná 50% markinu.

"Pútín er forseti vonarinnar," segir félagsfræðingurinn Júrí Levada sem telur að það muni taka tvær kynslóðir að byggja upp rússneskt samfélag þar sem almenningur krefst einhvers á borð við raunverulegt tjáningarfrelsi, fjölflokkakerfi og gegnsæi í ákvörðunum.

Pútín tók við af Borís Jeltsín á nýársdag árið 2000. Margt hefur lagast í tíð hans, laun og eftirlaun eru nú yfirleitt greidd á réttum tíma, innheimta skatta gengur betur en fyrr eftir umfangsmiklar endurbætur og einföldun á skattkerfinu. Margir Rússar kvarta undan spillingu og lélegri stjórn en undanskilja Pútín. "Hann getur ekki fylgst með öllu sem gerist," er viðkvæðið. Þannig var algengt að almenningur ræddi um jafnt Stalín sem keisarana í tíð þeirra. Leiðtoginn var góður og vildi vel, undirmennirnir vondir. Mannfallið í Tétsníu veldur þó mörgum sorg en fjölmiðlar hunsa að miklu leyti slíkar raddir.

Stjórnmálaskýrendur segja að alþýðuvinsældir Pútíns megi einkum skýra með því að hann hefur komið á stöðugleika og ráðist gegn óvinsælustu auðkýfingunum, olígörkunum svonefndu, sem notuðu tækifærið í upplausninni á tíunda áratugnum og lögðu undir sig mikinn hluta þjóðarauðsins, oftast með bellibrögðum og óhrjálegum baktjaldasamningum við Jeltsín. Nú eru sumir þeirra búnir að flýja land eða sitja í fangelsi.

Rússneskur almenningur er tortrygginn á lýðræðið eftir slæma reynslu, einkum á síðustu árum Jeltsíns. Gerð var könnun í fyrra þar sem fram kom að aðeins 30% Rússa telja lýðræðið ávallt besta stjórnarformið. En í könnun í öllum Afríkulöndum fyrir fáeinum árum var meðaltalsstuðningurinn við þá fullyrðingu 69%, segir í grein í breska ritinu Prospect.

Ósanngjörn gagnrýni?

Tveir Rússlandssérfræðingar við bandaríska háskóla, Andrei Shleifer og Daniel Treisman, rituðu nýlega grein í Moscow Times sem gefið er út á ensku í Moskvu. Þeir gagnrýna þar hömlurnar á fjölmiðlafrelsi og fleira en benda samt á að miðað við sögulegar forsendur og þjóðarframleiðslu komi Rússar ekki illa út í samanburði við þjóðir með svipaðar þjóðartekjur, t.d. Mexíkóa, Brasilíumenn, Malasíumenn og Króata. Ástandið sé eðlilegt, þegar tekið sé tillit til erfiðleikanna og ef til vill hafi menn gert sér of miklar væntingar fyrst eftir hrun Sovétríkjanna 1991. ekki sé hægt að búast við að samfélagið verði á svipstundu eins og vestræn lýðræðissamfélög.

Margt horfi nú til framfara í Rússlandi, segja þeir. Æ fleiri eignist nú ýmis nauðsynleg heimilistæki og bíla og þótt það sé rétt að fáeinir auðkýfingar með góð sambönd ráði miklu sé sama upp á teningnum í sambærilegum, fátækum löndum. Og þrátt fyrir græðgi olígarkanna hafi þeir oft lagt grunn að nútímalegum rekstri. Þjóðarframleiðsla hafi minnkað um 40% fyrstu sex árin eftir fall Sovétríkjanna en hafi vaxið um 24% eftir að stórfyrirtæki voru einkavædd. Einnig benda þeir á að kjörsókn hafi í fyrra verið meiri en í síðustu kosningum í Bandaríkjunum.

Rússar aftur farnir að hvísla?

Á síðustu árum hefur hækkandi verð á olíu á heimsmarkaði valdið því að lífskjör Rússa hafa batnað verulega, einkum í stórborgunum. Annað sem lagði, þrátt fyrir allt, grunn að bættri stöðu fyrirtækja er hrun rúblunnar 1998, það gerði erlendar vörur dýrari en innlendar.

En andstæðingar Pútíns, þeir sem fá að tjá sig, hika ekki við að velja honum hin verstu orð. Þeir segja að búið sé að endurreisa sovétkerfið, að þessu sinni án kommúnisma en með flokkseinræðinu. Hvarvetna sé þrengt að mannréttindum þótt vissulega fái fólk að nota Netið og fáeina frjálsa fjölmiðla, fólk er heldur ekki handtekið og skotið án dóms og laga. "En fólk í Rússlandi er aftur farið að hvísla," segir Írína Kakamada, einn af keppinautum Pútíns.

kjon@mbl.is