Samkvæmt reglum átti Mandela rétt á að hitta konu sína í 30 mínútur á sex mánaða fresti, en glerveggur var á milli þeirra í þessum heimsóknum. Stundum liðu ár á milli heimsóknanna. Dætur sínar sá hann ekki í um 15 ár.

Nelson Mandela er án efa í hópi merkustu stjórnmálamanna heimsins. Það er vægt til orða tekið þegar sagt er að skipst hafi á skin og skúrir í ævi hans. Mandela sat í 27 ár í fangelsi en eftir að honum var sleppt varð hann forseti Suður-Afríku, fyrsti blökkumaðurinn í sögu landsins.

Eftir að Mandela var sleppt úr fangelsi gaf hann út ævisögu sína sem er geysilega fróðlegt og skemmtilegt verk. Frásögn Mandela er spennandi og heldur athygli manns allan tímann, en bókin er um 750 blaðsíður að stærð. Sá sem les þessa bók getur ekki annað en borið djúpa virðingu fyrir Mandela og baráttu hans fyrir frelsi þjóðar sinnar.

Mandela fæddist í héraðinu Transkei í S-Afríku árið 1918. Faðir hans var ættarhöfðingi, en hann lést þegar Mandela var ungur og ólst hann því upp hjá móður sinni í skjóli skyldmenna. Sem ungur maður fór hann til Jóhannesarborgar í andstöðu við ættarhöfðingjann og einsetti sér að læra lögfræði. Hann lýsir vel fátækt sinni á námsárunum, en lengi átti hann varla fyrir mat og gekk um 30 kílómetra leið í skólann til að spara sér strætófargjald. Hann átti aðeins ein föt og lýsir því hvernig hann forðaðist að mæta vinkonu sinni á götu vegna þess að hann skammaðist sín fyrir gömlu og slitnu fötin sín.

Að loknu námi settu Mandela og vinur hans, Oliver Tambo, upp fyrstu lögfræðiskrifstofuna í S-Afríku sem rekin var af blökkumönnum. Samhliða tók hann virkan þátt í baráttu Afríska þjóðarráðsins (ANC) gegn aðskilnaðarstefnu hvítu minnihlutastjórnarinnar (apartheid). ANC reyndi með margvíslegum hætti að þvinga stjórnina til að breyta um stefnu. Baráttuaðferðir samtakanna byggðust á að beita ekki ofbeldi, en þegar stjórnvöld gerðu ekkert nema að herða á aðskilnaðarstefnunni jókst stuðningur innan ANC við að samtökin tækju upp vopnaða baráttu.

Allir helstu forystumenn ANC, Mandela þar með talinn, voru handteknir árið 1956 og sakaðir um samsæri og fyrir að vera kommúnistar, en samkvæmt lögum var starfsemi kommúnistaflokks S-Afríku bönnuð. Réttarhöld vegna þessara ásakana stóðu í mörg ár en þeim lauk með því að hinir ákærðu voru sýknaðir.

Mandela segir að hann hafi gert sér grein fyrir því áður en réttarhöldunum lauk að það væri aðeins tímaspursmál hvenær stjórnvöld myndu banna starfsemi ANC og því lagði hann fram tillögur um hvernig samtökin ættu að bregðast við slíku banni. Tillögurnar miðuðu að því að stofnuð yrði vopnuð deild, MK, sem stæði fyrir skemmdarverkum með það að markmiði að lama starfsemi ríkisins. Áður en til þess kom sendi ANC stjórnvöldum bréf þar sem því var lýst að samtökin ættu ekki annan kost en að taka upp vopnaða baráttu ef stjórnvöld breyttu ekki um stefnu. Bréfinu var ekki svarað.

Eftir réttarhöldin fór Mandela í felur og lifði sem útlagi í eigin landi í á annað ár. Hann fór í ferð til Afríkulanda og Evrópu til að afla málstað ANC stuðnings og fór í lok ferðarinnar til Eþíópíu þar sem hann gekkst undir herþjálfun í átta vikur. Stuttu eftir að hann sneri heim var hann handtekinn. Mandela fékk ekki þungan dóm enda höfðu stjórnvöld ekki í höndunum miklar sannanir gegn honum. Það breyttist hins vegar þegar lögreglan komst yfir öll helstu gögn MK og ANC þar sem lýst var í smáatriðum skemmdarverkastarfsemi samtakanna. Mandela og félagar hans voru enn á ný kærðir og að þessu sinni fór ákæruvaldið fram á dauðadóm. Mandela var í forystu fyrir hinum ákærðu og réttarhöldin notaði hann til að saka stjórnvöld um mannréttindabrot, en hunsaði sjálf ákæruatriðin enda vissi hann að hann væri sekur. Hann minnti m.a. á að stjórn hvíta minnihlutans hefði tekið upp vopnaða baráttu gegn yfirráðum Breta í S-Afríku um aldamótin 1900. Mandela komst hjá dauðadómi og var dæmdur í ævilangt fangelsi.

Frásögn Mandela af þrælkunarvinnunni á Robben-eyju er nöturleg. Allt var gert til að brjóta niður baráttuþrek hans og það er raunar ótrúlegt að hann skuli hafa komist í gegnum þessa vist óbugaður. Greinilegt er á frásögn Mandela að hann á erfiðast með að sætta sig við að fá ekki að hitta fjölskyldu sína. Samkvæmt reglum átti Mandela rétt á að hitta konu sína í 30 mínútur á sex mánaða fresti, en glerveggur var á milli þeirra í þessum stuttu heimsóknum. Stundum liðu ár á milli heimsóknanna. Dætur sínar sá hann ekki í um 15 ár.

Það kemur á óvart að það skuli hafa verið Mandela, en ekki hvíta minnihlutastjórnin, sem átti eftir 1980 frumkvæði að samningaviðræðum. Sumir af félögum hans voru andsnúnir slíku frumkvæði, en Mandela, sem þá hafði verið fluttur frá Robben-eyju í annað fangelsi, lét það ekki stöðva sig. Þrátt fyrir þrönga stöðu náði hann árangri. Mest reyndi þó á forystuhæfileika hans eftir að hann losnaði úr fangelsi og hann tók upp formlegar viðræður við stjórnvöld, en þau reyndu með öllum ráðum að tryggja sér áframhaldandi völd. Landið var þá á barmi borgarastyrjaldar sem stuðningsmenn de Klerk forseta kyntu að nokkru leyti undir.

Saga Mandela er saga manns sem barðist af hugrekki við ótrúlegar aðstæður og hafði sigur. Það er öllum hollt að kynnast sögu hans.

Eftir Egil Ólafsson egol@mbl.is