Jón Karl Ólafsson, forstjóri Flugfélags Íslands (lengst til hægri), Michael Ricken, frá Troll Tours, og Andreas Lutze, frá Thomas Cook.
Jón Karl Ólafsson, forstjóri Flugfélags Íslands (lengst til hægri), Michael Ricken, frá Troll Tours, og Andreas Lutze, frá Thomas Cook. — Morgunblaðið/Ásdís
FLUGFÉLAG Íslands hefur ákveðið að bjóða áætlunarflug til Kangerlussuaq, eða Syðri Straumfjarðar, á vesturströnd Grænlands. Er flugið í samvinnu við ferðaheildsalana Katla DMI, Troll Tours og Thomas Cook.

FLUGFÉLAG Íslands hefur ákveðið að bjóða áætlunarflug til Kangerlussuaq, eða Syðri Straumfjarðar, á vesturströnd Grænlands. Er flugið í samvinnu við ferðaheildsalana Katla DMI, Troll Tours og Thomas Cook.

Flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum frá Reykjavík með Fokker 50-vélum og á fimmtudögum frá Keflavík með þýska flugfélaginu Aeroflight á Airbus 320-þotum. Hefjast ferðirnar upp úr miðjum júní og standa fram yfir miðjan ágúst. Fargjaldið er báðar leiðir 49.900 kr. með sköttum. Hægt er að fara aðra leiðina með Flugfélagi Íslands en hina með þýska félaginu. Flugtíminn með Fokker er rúmir þrír tímar en rúmir tveir með Airbus.

Skrifað var undir samstarfssamning um flugið í gær og segja forráðamenn Flugfélags Íslands að þetta nýja áætlunarflug opni ýmsa möguleika á að tengja saman ferðalög erlendra ferðamanna til Íslands og Grænlands. Einnig sé þessi leið mikilvæg Íslendingum og Grænlendingum.

Kangerlussuaq er í um 25 km fjarlægð frá jökulröndinni og ýmis afþreying er í boði, m.a. bátsferðir um Syðri Straumfjörð sem er einn lengsti fjörður Grænlands. Þá segja þeir góða tengimöguleika frá Kangerlussuaq til flestra staða á vesturströnd Grænlands og þýska ferðaskrifstofan Troll Tours hefur sett upp leiguflug til Ilulissat eða Jakobshavn, í tengslum við komu vélanna frá Íslandi.

Sveigjanleiki í ferðum

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Flugfélags Íslands, segir að með samningum við ferðaheildsalana hafi Flugfélagið selt þeim ákveðinn sætafjölda í hverri ferð en félagið selji síðan sjálft afganginn. Með þann grunn hafi verið ákveðið að hefja flugið og kveðst hann ekki í vafa um að áhugi sé á þessum ferðamöguleika. Bendir hann á þann sveigjanleika að geta farið í þriggja, fjögurra eða sjö daga ferðir með því að nýta sér ferðirnar með öðru félaginu aðra leiðina og hinu til baka.