[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Queer Eye for the Straight Guy: Eiginlega ætti enginn að þurfa að gifta sig án þess að fá aðstoð frá hommum. Ekki þarf að horfa lengi á Queer Eye for the Straight Guy til að átta sig á því.
Queer Eye for the Straight Guy: Eiginlega ætti enginn að þurfa að gifta sig án þess að fá aðstoð frá hommum. Ekki þarf að horfa lengi á Queer Eye for the Straight Guy til að átta sig á því. Auðvitað eru hommarnir í þættinum erkitýpur, en í vikunni tókst þeim að beisla ýfingaþráhyggju Kevins, búa til boom boom-herbergi heima hjá honum, fá hann til að vefja bindi um beltið og segja klámbrandara um konuna sína á sviði. Það var breyttur maður sem bar upp bónorðið, enda lýsti hann sjálfur upplifuninni sem endurfæðingu. Auðvitað skýtur það skökku við að þrátt fyrir yfirburðaþekkingu á þessu sviði hjá hommunum í umræddum þætti megi þeir ekki gifta sig nema þeir búi í San Fransiskó... The No. 1 Ladies' Detective Agency: Hjartnæm stund í Botswana. Mma Ramotse situr við dánarbeð föður síns, sem segir henni að taka ævisparnað sinn, stofna eigið fyrirtæki, sláturhús, flöskugerð, hvað sem hún vill. Augu hennar fyllast tárum og hún segir: "Ég ætla að gerast einkaleynilögreglumaður. Í Gaborone. Það verður besta leynilögreglustofan í Botswana. Stofa númer eitt." Eitt augnablik opnast augu föður hennar upp á gátt og hann virðist berjast við að tala: "En... En..." En hann deyr áður en hann kemur upp orði... Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð: Dásamleg lýsing á finnsku þjóðinni, sem er í anda mynda Aki Kaurismaki. Upphafsorðin tala sínu máli: "Skæðasti óvinur finnsku þjóðarinnar er óhamingja, depurð, botnlaus deyfð. Þunglyndið grúfir stöðugt yfir aumingja fólkinu og hefur í aldanna rás grafið sig inn í alla Finna svo að þjóðarsálin er döpur og alvörugefin. Depurðin hefur náð þvílíku heljartaki á þjóðinni að mörgum Finnum finnst dauðinn eina lausnin. Bölsýnin er töluvert erfiðari andstæðingur en Rússar." pebl@mbl.is