Saga Hljóma: Rúnar Júlíusson og Gunnar Þórðarson eru áberandi í sýningunni Bláu augun þín enda fjallar hún um sögu Hljóma. Helgi Már Gíslason leikur Rúnar og Bergur Frosti Maríuson bregður sér í hlutverk Gunnars.
Saga Hljóma: Rúnar Júlíusson og Gunnar Þórðarson eru áberandi í sýningunni Bláu augun þín enda fjallar hún um sögu Hljóma. Helgi Már Gíslason leikur Rúnar og Bergur Frosti Maríuson bregður sér í hlutverk Gunnars. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"ÞESSI sýning er byggð upp af minningabrotum, en spannar ekki sögu Hljóma frá upphafi til enda," sagði Þorsteinn Eggertsson, höfundur og leikstjóri, um sýninguna "Bláu augun þín" sem Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS)...

"ÞESSI sýning er byggð upp af minningabrotum, en spannar ekki sögu Hljóma frá upphafi til enda," sagði Þorsteinn Eggertsson, höfundur og leikstjóri, um sýninguna "Bláu augun þín" sem Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) frumsýnir í félagsheimilinu Stapa í Njarðvík í dag kl. 14. Sýningin er mjög yfirgripsmikil, aðstandendur hennar eru hátt í 80 og í lokaatriði sýningarinnar standa 60 manns á sviðinu.

Nemendur og starfsmenn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja áttu sér þann draum að setja upp söngleik í tilefni af 40 ára afmæli Hljóma á liðnu ári og fljótlega kom Þorsteinn Eggertsson inn í umræðuna, enda hefur hann mikið unnið með hljómsveitinni í gegnum árin og þekkir hana vel. "Það var bara hringt í mig í september í fyrra og ég beðinn að semja leikrit um Hljóma. Jafnframt var ég beðinn um að hafa það tilbúið um áramót, þar sem æfingar ættu að hefjast í byrjun þessa árs," sagði Þorsteinn Eggertsson í samtali við blaðamann.

Davíð Örn Óskarsson, nemandi í FS og sá sem leikur Engilbert Jensen og Óla í Krossinum, bætti við að það hefði verið búið að spá mikið í þetta í fjölbrautaskólanum en loks látið verða af því.

Vissu lítið um þennan tíma

"Í stórum dráttum er saga verksins þannig að á 17. júní ganga tvær rosknar manneskjur inn á kaffihús og þær fara að rifja upp sögu Hljóma. Á meðan þær eru að segja frá birtast minningarnar á sviðinu. Þetta er ekki endilega sögulega rétt, enda skolast ýmislegt til með árunum en þetta er eins og fólkið man það og ég líka, ásamt kryddi," segir Þorsteinn.

Viðmælendur blaðsins úr leikaraliðinu, áðurnefndur Davíð og Valgerður Björk Pálsdóttir, sem túlkar Maríu Baldursdóttur, sögðust lítið hafa vitað um þennan gamla tíma og jafnframt að ekki væri auðvelt að setja sig inn í hann. "Þorsteinn hefur nú verið duglegur að segja okkur frá þessu og maður reynir bara sitt besta til að ná þessu fram," sagði Valgerður. "Þetta er svo allt öðruvísi en þetta er núna," bætti Davíð við en þau eru þó nokkurs vísari, því auk sýningarinnar snerust nýliðnir þemadagar í skólanum mikið til um Hljóma og hinar ýmsu tónlistarstefnur. Þá hafa þau verið dugleg við að hlusta á lögin og skoða myndir, "svona til að fíla þetta", eins og Davíð orðaði það.

Þegar blaðamaður spyr þau hvort eitthvað í sögu Hljóma hefði komið þeim á óvart, stóð ekki á svari. "Ég vissi til dæmis ekki að Hljómar hefðu sungið á ensku," sagði Valgerður og nefndi jafnframt að sér þætti lögin þeirra bara nokkuð góð.

Stjörnur framtíðarinnar

Þorsteinn segist hafa reynt að velja leikarana út frá karaktereinkennum, ef eitthvað í fari krakkanna hafi minnt á útlit eða takta persónunnar hafi þeir orðið fyrir valinu þegar prufan fór fram. "Þetta var reyndar svolítið erfitt, ekki bara af því að ég þekkti þessa krakka ekki neitt, heldur líka vegna þess að staðan er þannig í heiminum í dag að konur eru orðnar miklu fjölmennari í öllu sem viðkemur menningu. Það voru því miklu fleiri stelpur sem komu í prufu, en kvenhlutverkin eru tiltölulega fá. Þetta tímabil sem ég er að skrifa um er tímabil þar sem strákar voru mest áberandi. Ég reyndi því að nýta þær í allt annað, til dæmis hlutverk sem ekki þurftu að vera af ákveðnu kyni eins og blaðamenn. Þær eru líka fjölmennar í dansatriðunum."

Þorsteinn er ánægður með frammistöðu leikaranna og jafnframt sagðist hann viss um að einhverjir þeirra ættu framtíðina fyrir sér í leiklistinni. "Ég sé hérna í hópnum bæði stráka og stelpur sem við eigum eftir að sjá í kvikmyndum eftir nokkur ár. Þegar maður kemst á eftirlaun verður maður nokkuð montinn yfir að hafa unnið með þessu fólki," sagði Þorsteinn að lokum.

Blaðamaður gaut spurnaraugum að leikurunum ungu. Framtíðarstjörnurnar eða hvað? "Ja, það gæti allt eins verið," svaraði Valgerður og hló við en það var ekkert hik á Davíð: "Ég er stjarna út af fyrir mig."

Sýningar fyrir almenning verða dagana 31. mars, 1. og 2. apríl, klukkan 20, og mun það ráðast af aðsókn hversu margar sýningar verða. Hægt er að nálgast miða í Hljómvali við Hafnargötu í Keflavík.

www.hljomar.tk