KLAUS Kjøller, rithöfundur og lektor við Kaupmannahafnarháskóla, vill að Svíar afhendi Dönum á ný glæsilegan síðkjól sem eitt sinn var í eigu Margrétar fyrstu drottningar.

KLAUS Kjøller, rithöfundur og lektor við Kaupmannahafnarháskóla, vill að Svíar afhendi Dönum á ný glæsilegan síðkjól sem eitt sinn var í eigu Margrétar fyrstu drottningar. Þannig sé hægt að undirstrika hið góða samband sem nú sé milli þjóðanna en sænski konungurinn Karl Gústaf 10. rændi kjólnum árið 1659 og er hann nú varðveittur í Uppsölum.

Margrét fyrsta Danadrottning lifði fram á 15. öld, hún var einnig þjóðhöfðingi Norðmanna og Svía frá 1397. Kjøller vill að Mary Donaldson, unnusta Friðriks krónprins, noti kjólinn, sem er úr efni með gullþráðum, við brúðkaupið 14. maí.

"Það væri stórkostlegt að fá kjólinn aftur," segir Kjøller og hvetur Svía til að vera rausnarlegir. "Við erum núna komin með Eyrarsundsbrúna og svo margt annað og kjóllinn getur ekki skipt svo miklu fyrir Svía. Og við létum Íslendinga fá aftur handritin."

Kjøller segir að þótt kjólnum yrði skilað myndi það alls ekki varpa rýrð á hernaðarsigra Svía á sautjándu öldinni. Á hinn bóginn myndu þeir sanna með þessum hætti að þeir séu sannarlega stórmannlegir í lund. Auk þess yrði tilvonandi drottningu Dana, sem er áströlsk og af borgaralegum ættum, tryggður merkilegur sess í sögunni. Lektorinn hefur sent Karli sextánda Gústaf Svíakonungi bréf um tillöguna og vill nú að danska stjórnin fari formlega fram á að fá kjólinn.