SÖNGKONAN Britney Spears var valin kynþokkafyllsta konan af karlatímaritinu FHM, sem velur árlega 100 kynþokkafyllstu konur heims. Í fyrra vann Bond-stúlkan Halle Berry þennan eftirsótta titil, en þar áður hafði Jennifer Lopez vermt efsta sætið, en hún er nú í 7. sæti. Milljónir lesenda blaðsins um allan heim taka þátt í að velja konurnar á listann.
"Það er ánægjulegt að sjá Britney Spears efsta á listanum. Hún var mikið í sviðsljósinu á síðasta ári og ekki alltaf til fyrirmyndar, en hún er þrátt fyrir allt kynþokkafull kona," sagði David Davies, ritstjóri FHM.
S Club 7-söngkonan Rachel Stevens hafnaði í öðru sæti eins og í fyrra og á hæla hennar kom Beyonce Knowles. Á listann komust einnig stjörnur á borð við Carmen Electra og Holly Valance.
Poppstjarnan Jordan, sem var í 25. sæti á listanum í fyrra, er nú í 8. sæti. Angelina Jolie og Elisha Cuthbert fylgdu fast á eftir Jordan í 9. og 10. sæti.