MÉR líður illa þegar þú grætur eða ert eitthvað ómöguleg. Þegar magakveisuköstin stóðu yfir fannst mér erfiðast að heyra þig gráta og geta þig ekki huggað.

MÉR líður illa þegar þú grætur eða ert eitthvað ómöguleg. Þegar magakveisuköstin stóðu yfir fannst mér erfiðast að heyra þig gráta og geta þig ekki huggað.

Um daginn hringdi ólétt vinkona mín í mig og sagði mér frá því að einhver hefði ekið á hana þar sem hún keyrði í umferðinni. Hún var komin 37 vikur á leið og ég hváði því áhyggjufull: "En er ekki örugglega allt í lagi?" "Jú, jú, sem betur fer," svaraði hún og lýsti því fyrir mér hvernig hún var tekin strax í skoðun. Allt reyndist í lagi, en "maður varð samt alveg rosalega hræddur," sagði hún mér. Ég sagðist skilja þetta vel, enda er það nú svo að á síðari hluta meðgöngunnar er barnið í móðurkviði orðið svo lifandi hluti af manni sjálfum þó að auðvitað sjái maður ekki neitt.

Í magakveisuköstunum þínum hef ég því stundum hugsað hve gott mér finnst þó alla vega að geta í það minnsta haldið á þér í fanginu og séð öll viðbrögð. Hræðsla getur nefnilega gert vart við sig á meðgöngunni og gert mann hálf varnarlausan. Eftir páskana varð ég t.d. verulega hrædd. Við höfðum haft það rosalega gott í fríinu, farið í sumarbústað, legið í leti, borðað góðan mat, lesið og svo framvegis. Á þriðjudagsmorguninn eftir páskana vaknaði ég hálfdösuð til vinnu. Ég kenndi því um að ég væri bara syfjuð eftir þetta góða frí. Laust fyrir hádegi gerðist þó hið hræðilega. Það blæddi. Ég hringdi strax á meðgöngudeild Landspítalans og var sagt að fara samstundis heim og leggjast upp í rúm. Ég ætti að halda kyrru fyrir og fylgjast vel með hvort einhverjar frekari blæðingar gerðu vart við sig. Ég hringdi strax í pabba þinn, sem kom og sótti mig. Um það leyti sem hann kom var ég þvílíkt í tárum og það er erfitt að lýsa því hvers konar hræðsla þetta er sem maður finnur fyrir. Ég lagðist beint í rúmið og get svarið fyrir að þennan dag hefði ég ekki einu sinni hnerrað. Óttinn við að eitthvað væri að koma fyrir var svo mikill.

Um kvöldið var ég hætt að vita hvort hnúturinn í maganum stafaði af verkjum eða kvíða. Við fórum því á spítalann þar sem ég var sett í "monitor". Þarna heyrði ég hjartsláttinn þinn í fyrsta sinn og það var fegursta hljóð sem ég hafði nokkurn tíma heyrt. Spennufallið varð svo mikið þegar ég heyrði þennan fallega hljóm að aftur brotnaði ég saman og hágrét. Hjartslátturinn og hreyfingar eru nefnilega það haldreipi sem verðandi mæður halda í til staðfestingar á að allt sé í lagi. Ég skildi því vel þessa óttatilfinningu sem vinkona mín fékk í árekstrinum.

Meira á mánudag.