Bergþór G. Böðvarsson
Bergþór G. Böðvarsson
Ég get lofað ykkur því að við erum miklu betri en við getum ímyndað okkur.

ÉG hætti mér ekki út fyrir hússins dyr, því það stara allir á mig. Ég skil það vel, því ég er ljótur og leiðinlegur, illa lyktandi og ómögulegur í alla staði. Fjölskylda mín og vinir segja mér að þetta sé ekki rétt hjá mér, en ég veit betur, ég hef rétt fyrir mér, ég veit hvernig ég er og það er ekki fallegt, ég er ömurlegur.

Þetta voru þær hugmyndir sem ég hafði um sjálfan mig fyrir nokkrum árum, og það var alveg sama hvað aðrir sögðu, ég var bara ákveðinn í því að ég væri alveg ómögulegur. Auðvitað sagði ég geðlækninum mínum frá þessu og hann sagði að þetta væri bara ímyndun, ekki var það til að bæta líðan mína, að vera ímyndunarveikur ofan á allt saman. Hugsið ykkur ljótur, leiðinlegur, illa lyktandi, ömurlegur og ímyndunarveikur, þetta var ekki beysið að burðast með.

Ég veit að það eru fjölmargir sem eru að burðast með þessar sömu ranghugmyndir og ég fyrir nokkrum árum. En sem betur fer fyrir mig, þá fór ég smátt og smátt að trúa því sem aðrir sögðu, ég fór að hætta að hanga í þessari ótrúlegu neikvæðni um sjálfan mig.

Ég reyndi að breyta hugsanagangi mínum svolítið.

Hvað með það þótt sumir stari á mig? Það er þó tekið eftir mér.

Og ef ég lykta svona illa, þá fer ég bara í bað og þvæ mér.

Hvað með það þótt sumum finnist ég leiðinlegur? Öðrum finnst ég kannski skemmtilegur.

En fyrst og fremst þá reyni ég að hlúa að sál minni, ég reyni að nota allt það jákvæða sem ég hef. Og horfi fram hjá því sem ég hef ekki.

Ég þakka fyrir það sem Guð hefur gefið mér.

Ég get séð (nota að vísu gleraugu).

Ég heyri (þokkalega).

Ég get gengið og er ekki líkamlega fatlaður að neinu leyti.

Og ég hef hjarta sem slær bara nokkuð vel.

Þetta er eitthvað sem ég þakka fyrir á hverjum einasta degi!

Ég vona svo sannarlega að það fólk sem lifir og hrærist í sínum neikvæðu hugsunum geti fundið sínar jákvæðu hliðar og farið að byggja líf sitt í kringum það.

Og reynum endilega að trúa því að við erum betri en við höldum. Ég get lofað ykkur því að við erum miklu betri en við getum ímyndað okkur.

Bergþór Grétar Böðvarsson skrifar um ranghugmyndir

Höfundur greindist með geðhvarfasýki fyrir 15 árum, fyrir 1 ári byrjaði hann að vinna í 50% starfi hjá Múlalundi. Í dag er hann virkur meðlimur í notendahópi Hugarafls.