Ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að sekta hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft og setja því skorður á Evrópumarkaðnum - þ.ám. á Íslandi, eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag - markar talsverð tímamót.

Ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að sekta hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft og setja því skorður á Evrópumarkaðnum - þ.ám. á Íslandi, eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag - markar talsverð tímamót. Framkvæmdastjórnin hefur komizt að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hafi misbeitt ráðandi stöðu sinni á markaðnum fyrir stýrikerfi einmenningstölva til að drepa niður samkeppni á markaði fyrir margmiðlunarspilara og netþjóna. Fyrirtækið er m.a. talið hafa stælt vörur annarra framleiðenda og fellt þær inn í Windows-stýrikerfið til þess að losna við samkeppni. Sektin, sem Microsoft á að greiða, er sú hæsta sem ákveðin hefur verið í samkeppnismáli, þótt hún sé langtum lægri en evrópskar samkeppnisreglur heimila framkvæmdastjórninni að beita. Jafnframt verður fyrirtækið að bjóða upp á Windows-stýrikerfið án margmiðlunarspilarans Windows Media Player á Evrópumarkaðnum, þannig að neytendur eigi val um að kaupa forrit frá öðrum framleiðendum. Þá verður fyrirtækið að láta keppinautum sínum í té upplýsingar, sem gera þeim kleift að framleiða netþjóna sem geta haft samskipti við tölvur með Windows-stýrikerfi.

Málarekstur framkvæmdastjórnarinnar gegn Microsoft hefur tekið fimm ár. Í tvo áratugi hefur svipuðum málaferlum framkvæmdastjórnarinnar gegn tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækjum ævinlega lyktað með samningum. Samningaviðræður við Microsoft fóru hins vegar út um þúfur í síðustu viku, að sögn Marios Monti, samkeppnisstjóra ESB, vegna þess að Microsoft féllst eingöngu á að bæta fyrir orðinn skaða, en ekki á að breyta viðskiptaháttum sínum til framtíðar.

Samkeppnismáli bandarískra stjórnvalda gegn Microsoft fyrir nokkrum árum lauk einnig með samningum. Með ákvörðun sinni verður ESB þannig fyrst til að láta sverfa til stáls gegn fyrirtækinu. Ákvörðunin gengur mun lengra en samningur bandarískra samkeppnisyfirvalda og Microsoft og ekki er útilokað að hún valdi af þeim völdum einhverjum núningi í samskiptum ESB og Bandaríkjanna á viðskiptasviðinu, þar sem næg spenna var raunar fyrir.

Ákvörðun Montis um að láta hart mæta hörðu er vafalaust til þess hugsuð að framkvæmdastjórnin hafi frjálsari hendur gagnvart Microsoft og öðrum markaðsráðandi fyrirtækjum í framtíðinni. Úrskurður framkvæmdastjórnarinnar hefur verið gagnrýndur fyrir að ganga ekki nógu langt, en þar ber að líta á að Monti vill væntanlega reyna annars vegar að forðast deilur við Bandaríkin og hins vegar að tryggja að úrskurðurinn haldi fyrir Evrópudómstólnum, en Microsoft hefur tilkynnt að fyrirtækið áfrýi ákvörðuninni. Áfrýjunin verður í upphafi tekin fyrir hjá dómstóli ESB á fyrsta dómstigi. Sá dómstóll mun þurfa að ákveða fljótlega hvort áhrifum ákvörðunar ESB verður frestað þar til dómur hefur verið felldur í málinu, eða hvort þær hömlur, sem fyrirtækinu eru settar, taka strax gildi.

Enginn þarf að efast um mikilvægi málsins gegn Microsoft. Fyrirtækið hefur átt mikinn þátt í þeim gríðarlegu framförum, sem fylgt hafa tölvu- og upplýsingabyltingunni, en varla fer á milli mála að Microsoft hefur beitt stöðu sinni til að veikja keppinautana. Enginn markaður má við slíkri yfirburðastöðu eins fyrirtækis og því er eðlilegt og skiljanlegt að stjórnvöld í einstökum ríkjum reyni að koma böndum á tölvustórveldið. Staða Microsoft á heimsvísu er hins vegar orðin slík, að það er augljóst að engir aðrir en hin pólitísku stórveldi, Evrópusambandið og Bandaríkin, hafa bolmagn til að kljást við risann.