Frábær árangur: Þuríður Helga Ingvarsdóttir, Magnús Arturo Batista og Guðni Þór Björnsson ánægð með árangurinn í stóru upplestrarkeppninni.
Frábær árangur: Þuríður Helga Ingvarsdóttir, Magnús Arturo Batista og Guðni Þór Björnsson ánægð með árangurinn í stóru upplestrarkeppninni. — Ljósmynd/Ólafur Thoroddsen
MAGNÚS Arturo Batista nemandi í Síðuskóla varð í fyrsta sæti í Stóru upplestrarkeppninni á Akureyri, en úrslitakeppnin fór fram nú í vikunni.

MAGNÚS Arturo Batista nemandi í Síðuskóla varð í fyrsta sæti í Stóru upplestrarkeppninni á Akureyri, en úrslitakeppnin fór fram nú í vikunni. Í öðru sæti varð Þuríður Helga Ingvarsdóttir, Lundarskóla, og Guðni Þór Björnsson, Glerárskóla, varð í þriðja sæti. Þau hlutu peningaverðlaun frá Sparisjóði Norðlendinga, 15, 10, og 5 þúsund krónur sem Sigrún Skarphéðinsdóttir frá Sparisjóðinum veitti.

Það eru börn í 7. bekk sem þátt taka í Stóru upplestrarkeppninni og hefur hún verið mikil lyftistöng í bekkjarstarfi þessa bekkjar undanfarin ár. Hún er eitt viðamesta skólaþróunarverkefni á landinu og hefur orðið til þess að læsi nemenda hefur batnað, áhugi á bókmenntum glæðst og margir hafa sigrast á feimni og óöryggi. Upplestur er þannig orðinn snarari þáttur í bekkjarstarfi en áður var. Nemendur læra að koma fram og flytja texta á vandaðan og virðulegan hátt, rækt er lögð við góða túlkun án öfga eða tilgerðar.

Skáld keppninnar í ár voru Stefán Jónsson og Þuríður Guðmundsdóttir, hinir ungu lesarar lásu brot úr sögu hans, Hjalti kemur heim eftir Stefán og ljóð eftir Þuríði. Þá lásu þau líka ljóð að eigin vali. Magnús réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur; Grettir og Glámur eftir Matthías Jochumsson varð fyrir valinu hjá honum, en það þykir með erfiðari ljóðum til upplestrar. Formanni dómnefndar, Ingibjörgu Einarsdóttur, þótti Magnús fara sérlega vel með kvæðið.