Efnahvörf
Efnahvörf
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjórða keppniskvöld Músíktilrauna 2004, hljómsveitakeppni Tónabæjar og Hins hússins, haldið í Tjarnarbíói sl. þriðjudagskvöld. Þátt tóku Efnahvörf, Lada Sport, Hljóðlæti, Hydrus, Mania, Djósúa, Eden, Svitabandið, Of Stars We Are og Innovation.

LÍÐUR brátt að lokum Músíktilrauna og þegar þetta birtist er undankeppni lokið. Sl. þriðjudag léku tíu sveitir til og þá fjörutíu komnar af fimmtíu, en í gærkvöldi var svo lokaundanúrslitakvöldið þegar tíu sveitir til freistuðu þess að komast í úrslit. Mikið hefur verið af gítarrokki í tilraununum að þessu sinni og þriðjudagskvöldið skar sig ekki úr að því leyti. Efnahvörf riðu á vaðið, rokksveit frá Húsavík, og fluttu gítarrokk, melódískt, flott sungið og spilað. Fyrra lag sveitarinnar var einkar gott og vel sungið, en það síðara síðra þó fjörugra.

Lada Sport kom skemmtilega á óvart, sú hljómsveit sem var að gera frumlegustu hlutina, fór vel með sitt, trommur, bassi, gítar og söngur; allt lagðist á eitt og þegar við bættust fyrirtaks lagasmíðar var þar komið forvitnilegasta hljómsveit kvöldsins. Fyrra lagið var gott og það síðara enn betra, grípandi skemmtilegt.

Brokk lýsir ágætlega tónlistinni sem Hljóðlæti leikur, því þannig var bassa og trommugangur í lögunum tveim sem sveitin flutti. Trommuleikari sveitarinnar var venju fremur traustur. Í fyrra laginu var sönglínan þvinguð sem spillti eðlilega miklu, en á milli komu kaflar þar sem þeir félagar duttu niður í svellandi keyrslu og fjör. Í síðara laginu var meira um skemmtilega kafla en í því fyrra og mátti glöggt heyra hve hljómsveitin er þétt.

Einna skemmtilegustu pælingar kvöldsins voru hjá Hydrus-félögum. Uppbygging laga býsna snúin, skiptingar öruggar og framvinda skemmtileg. Trommuleikari sveitarinnar var fremstur meðal jafningja, en aðrir stóðu sig líka vel. Síðara lag sveitarinnar var hreint afbragð, lag sem batnaði eftir því sem það varð lengra. Frábær sveit.

Mania tók nú þátt öðru sinni, líkt og Hydrus reyndar líka, og stóð sig bærilega þótt ekki hafi framfarirnar verið eins miklar og hjá Hydrus. Fyrsta lagið var þungarokksballaða af bestu gerð, vel flutt og sungin. Annað lagið var heldur kraftmeira og góðir sprettir á gítar framan af þótt þeir félagar hafi misst lagið út í hálfgert rugl undir lokin. Heldur mikil rómantík líka.

Djósúa spilaði einskonar afbrigði af því sem menn vestan hafs kalla bílskúrsrokk þótt laglínan hafi týnst í hamaganginum í fyrra laginu. Í seinna laginu náði sveitin sér hinsvegar á strik í fínu snúnu lagi. Gítarleikur var prýðilegur og textar hæfilega einfaldir.

Eden spilaði einskonar harðkjarna. Söngvari sveitarinnar var traustur, hrynparið náði vel saman og gítarleikur var einnig í góðu lagi. Í seinna lagi sveitarinnar slóst söngkona í hópinn sem breytti svo sem ekki miklu en hún stóð sig vel.

Svitabandið stakk nokkuð í stúf, spilaði léttari tónlist en þær hljómsveitir sem á undan voru komnar, en gerði það vel. Helst má finna að því hve tónlistin var ófrumleg og þótt söngvarinn hafi verið framúrskarandi var framburður hans á enskum textunum óþægilega slæmur. Meira var spunnið í seinna lag sveitarinnar en það fyrra.

Söngvari Of Stars We Are vakti eiginlega athygli áður en hann byrjaði að syngja enda afskaplega öruggur með sig og svalur á sviðinu. Hann öskraði líka og söng sem hann ætti lífið að leysa, fín framhlið á geysiþéttri rokksveit. Fyrra lag þeirra félaga var afbragð og það seinna skemmtilega kraftmikið.

Lokatónar kvöldsins komu frá Innovation, fínt rokkað popp með skemmtilegum stílbrigðum. Söngvari sveitarinnar var góður og skemmtilegur hamagangur í trommaranum þótt hann hafi verið fullvirkur á köflum. Seinna lag Innovation var rólegra lag og heldur dapurt.

Mania komst örugglega áfram á sal en dómnefnd kaus Lödu Sport.

Árni Matthíasson