Ragnhildur Kolka
Ragnhildur Kolka
Kannski hafa þeir sem eiga leið um húsið í Efstaleiti meira að segja en aðrir...

EKKI er langt síðan fjölmiðlamenn á Íslandi komu sér saman um að þeir byggju yfir guðdóminum sjálfum. Á verk þeirra gæti enginn skuggi fallið, því þeir væru yfir það hafnir að sýna hlutdrægni eða þjónkun. Þetta hlýtur að vera ástæðan fyrir því að þeir eiga svo auðvelt með að greina hismið frá kjarnanum og bera aðeins það á borð sem þeir telja satt og rétt. Ótrúlega mikið af upplýsingum virðist þó detta uppfyrir hjá þeim, eins og þeir vita sem aflað geta sér frétta frá erlendum fréttamiðlum. Til að tryggja að umfjöllunin í þjóðfélaginu sé í takt við fréttaflutninginn hafa margir þeirra komið sér upp hópi viðmælenda, sem baða sig hver í annars sól. Starfsmenn ríkisfjölmiðlanna og þá sérstaklega útvarps ganga þar dyggilega fram. Samspil frétta og álitsgjafa tryggir svo að aðeins það sem úrskurðað hefur verið Stóri sannleikur fer út á öldur ljósvakans. Fyrir kemur að þeir hnjóta þó um eigin tær, þ.e. gæta ekki að sér og opinbera einsýni sína, óbilgirni og skort á sjálfstæðri hugsun. En nú liggur líka mikið við, því nú þarf að ala á andúð við stríðið í Írak. Kosningavél ríkisútvarpsins gegn G.W.Bush er farin að snúast.

Nú um helgina uppgötvuðu dagskrármenn ríkismiðlanna nýjan álitsgjafa. Helgin var nánast frátekin fyrir formann herstöðvaandstæðinga. Maðurinn hefur reyndar verið inni á hverju heimili undanfarin föstudagskvöld sem dómari í spurningakeppni framhaldsskólanna. Líklega mun sú staðreynd hafa gefið dagskrárgerðarmönnum þá hugmynd að hann hafi eitthvað að segja eða var það kannski bara af því að hann notaði sömu kaffivél eða klósett. Kannski hafa þeir sem eiga leið um húsið í Efstaleiti meira að segja en aðrir, en þó ætti að hafa í huga að magn er ekki alltaf sama og gæði. Mér hefði t.d. nægt föstudagsuppljómunin.

Á laugardag var ítarleg umfjöllun í hverjum fréttatíma á fætur öðrum af mótmælagöngum gegn stríðinu í Írak. Um könnun vestrænna fjölmiðlarisa meðal íraks almennings um viðhorf hans til ástandsins og horfur til framtíðar var hinsvegar ekki fjallað. Líklega hafa niðurstöður ekki verið eins og fréttamenn okkar og kaupendur könnunarinnar höfðu vænst. Í það minnsta hlýtur bjartsýnistónninn að hafa komið þeim á óvart, því 70% Íraka telja líf sitt bara bærilegt - 56% að það væri betra en fyrir stríð á móti 19% sem sögðu að það væri verra, og 80% Íraka trúa að það muni verða enn betra að ári. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir hryðjuverk og aðrar ógnir sem að þessu fólki steðja. Mótmælendurnir við Stjórnarráðið hirtu ekki um þessar niðurstöður. Herstöðva-andstæðingurinn sem var mættur í laugardagsþátt rásar 2 hafði greinilega meiri áhuga á aulabröndurum sínum en lífi fólksins sem hann þóttist vera að verja.

Kristján Þorvldsson vildi greinilega ekki vera eftirbátur annarra og kallaði kauða inn í Sunnudagskaffi. Þar er ég þó hrædd um að hann hafi mætt ofjarli sínum, því það er erfitt að slá um sig með slaðgorðum þegar við hlið situr maður með yfirburðaþekkingu á umræðuefninu eins og reyndin er með Jón Hákon Magnússon, enda var mesta loftið úr herstöðvaandstæðingnum í lok viðræðnanna. Honum hafði þó tekist að kasta inn nokkrum vel tuggðum tuggum, þar á meðal þessari um forkastanlegar fangabúðir Bandaríkjamanna í Guantanamo. Hér fetar hann sömu slóð og trúfélaginn Guðrún Helgadóttir sem sló þessu sama fram í þættinum Í vikulokin fyrr í vetur. Báðum tókst að lýsa fyrirlitningu sinni á þessu atferli Bandaríkjamanna án þess að hirða um að nefna að handan girðingarinnar um Guantanamostöðina liggja stæstu fangabúðir hins vestræna heims. Fangabúðir sem geyma ellefu milljónir manna. Og báðum tókst að líta framhjá þeirri staðreynd að enn í dag varðar það dauðarefsingu að reyna flótta frá þessu draumaríki kommúnismans. Bæði gleymdu þau því að ekki er ár liðið frá síðustu aftökum vegna þessa. Á Kúbu er ekki um neinn áfýjunarrétt að ræða, refsing fer fram; einn, tveir, þrír um leið og aftökusveitin hefur hlaðið byssur sínar.

Það verður að segja Kristjáni til hróss að hann gerði ítrekaða tilraun til að negla niður afstöðu herstöðvaandstæðingsins. En sá varðist fimlega. Engin svör fengust við augljósum spurningum eins og þeirri hvort þeir (herstöðvaandstæðingar) væru á móti því að þjóðir byggðu upp varnir sínar? Þessari spurningu var svarað með þrugli um gróða hergagnaframleiðenda. Hvort hann teldi að Evrópuþjóðir gætu varið sig án aðstoðar Stóra bróður (Bandaríkjamanna) svaraði hann með einhverju þokukenndu rugli um sjálfskipaðar löggur. Síðast en ekki síst var hann spurður hvort þessi andúð á Íraksstríðinu væri ekki bara dulbúið hatur á Bandaríkjamönnum. Nei, það taldi herstöðvaandstæðingurinn af og frá, menn gerðu einfaldlega meiri kröfur til Bandaríkjamanna en annarra. Látum nú vera að menn trúi bullinu í sjálfum sér, en þegar menn geta ekki einu sinni staðið á sannfæringu sinni og látið hana í ljós á opinn og heiðarlegan hátt, þá held ég þeir ættu að íhuga hvort ekki væri bara betra að þegja.

Þegar ég svo opnaði fyrir rás 1 tveimur tímum síðar til að hlusta á þáttinn Vald og vísindi var hernámsandstæðingurinn einnig þar kominn. En þá hafði ég fengið nóg og þakkaði bara Guði fyrir að Víðsjá var ekki á dagskrá þann daginn.

Ragnhildur Kolka skrifar um fjölmiðla

Höfundur er meinatæknir.