NÝR leikstjóri við Leikfélag Akureyrar var nýlega ráðinn, en starfið var ekki auglýst laust til umsóknar.

NÝR leikstjóri við Leikfélag Akureyrar var nýlega ráðinn, en starfið var ekki auglýst laust til umsóknar. Síðast þegar leikhússtjóri var ráðinn, árið 2002, var staðan auglýst og ráðningin síðan kærð til kærunefndar jafnréttismála þar sem einu konunni í hópi tólf umsækjenda taldi að sér hefði verið mismunað við ráðninguna á grundvelli kynferðis. Héraðsdómur dæmdi leikfélagið til að greiða konunni skaðabætur en sneri Hæstiréttur þeim dómi síðar við. Framkvæmdastjóri BHM segist telja rétt að allar stofnanir og félög sem rekin eru fyrir almannafé auglýsi lausar stöður.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, formaður leikhúsráðs Leikfélags Akureyrar, bendir á að samkvæmt samþykktum leikfélagsins þurfi ekki að auglýsa stöðu leikhússtjóra. "Það er tímafrekur ferill og við þurftum í sjálfu sér að bregðast nokkuð skjótt við, til þess að fara að vinna í verkefnavali næsta árs," segir Sigmundur.

Þá segir hann að margir hæfileikaríkir einstaklingar hafi sýnt áhuga á starfinu svo leikhúsráð hafi síður séð ástæðu til að auglýsa. "Það var tilkynnt að Þorsteinn Bachmann [sem var leikhússtjóri LA] væri að láta af störfum. Þessi leið hefur verið farin áður við val á leikhússtjórum við atvinnuleikhúsin," segir Sigmundur. Hann segir að hátt í tíu einstaklingar hafi að eigin frumkvæði sýnt starfinu áhuga og að það hafi meira og minna allt verið þekkt leikhúsfólk. Konur hafi reyndar ekki verið fjölmennar í þeim hópi. "Konur komu náttúrulega fyllilega jafn vel til greina og karlar í þessa stöðu. Niðurstaðan varð einfaldlega þessi," segir Sigmundur.

Aðspurður hvort málarekstur við síðustu ráðningu hafi spilað inn í þá ákvörðun að auglýsa ekki starfið nú segir Sigmundur svo ekki vera. "Við horfðum í rauninni mjög lítið til þess. Aðalatriðið hjá okkur var að ganga hratt og vel til verks og auglýsingaferli hefði í sjálfu sér skapað nokkra óvissu um óákveðinn tíma. Það hefur verið fyrsta og síðsta verkefni nýs leikhúsráðs að eyða allri óvissu í rekstri og starfsemi félagsins."

Leikfélag Akureyrar er frjáls félagasamtök sem eru rekin með styrk frá íslenska ríkinu og Akureyrarbæ.

Allir hafi jafna möguleika

Gísli Tryggvason, framkvæmdastjóri BHM, sagði, þegar Morgunblaðið leitaði eftir áliti hans, að lög kveði á um að allar fastar stöður hjá íslenska ríkinu beri að auglýsa. Hann telur að það sama gildi um stöður hjá sveitarfélögum, á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þá hafi Reykjavíkurborg gert sérstakan samning við BHM og fleiri samtök launafólks um að auglýsa öll störf sem ráðið er í hjá borginni.

Hann segist almennt telja rétt að félög sem eru rekin fyrir almannafé auglýsi laus störf sem til stendur að ráða í. Eðlilegt sé að gera þá kröfu að allir njóti jafnræðis og hafi jafna möguleika á ráðningu og aðrir. Þá sé það einnig í hag starfseminnar að besti umsækjandinn sé valinn í hvert starf.

Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segist telja að viðmiðið almennt eigi að vera að öll störf beri að auglýsa og laun eigi sömuleiðis að vera uppi á borðinu. Hún segir þó að ekkert skyldi einkaaðila og sjálfstæð félög til að auglýsa lausar stöður.

Aðspurð hvort dæmi séu um að þeir sem hafi þegar fengið á sig kæru forðist að auglýsa stöður, komist þeir hjá því, segir Margrét María að almennt megi segja að fólk reyni oft að forðast allt eftirlit.