Alan Shearer skoraði tvívegis fyrir Newcastle í gærkvöldi í UEFA-leiknum á Mallorca.
Alan Shearer skoraði tvívegis fyrir Newcastle í gærkvöldi í UEFA-leiknum á Mallorca. — Reuters
LIVERPOOL er úr leik í UEFA bikarnum í knattspyrnu eftir 2:1 tap í Marseille í gærkvöldi. Newcastle var hins vegar ekki í vandræðum þegar liðið heimsótti Real Mallorca og vann 3:0. Celtic gerði sér lítið fyrir og náði markalausu jafntefli við Barcelona á Nou Camp í Barcelona og kemst skoska liðið áfram þar sem leikmenn þess fögnuðu sigri í Glasgow í fyrri leiknum.

Alan Shearer, fyrrum fyrirliði enska landsliðsins, skoraði tvívegis þegar Newcastle brá sér til Mallorca og lagði heimamenn 3:0. Nescastle vann einnig í fyrri leiknum, þá 4:1 og komst því örugglega áfram 7:1.

Fyrri hálfleikur var markalaus en markvörður heimamanna var ekki alveg vaknaður eftir hléið þegar Shearer nýtti sér sofandahátt hans og skoraði. Craig Bellamy kom inn á sem varamaður í liði Newcastle og bætti öðru marki við á 78. mínútu og Shearer því þriðja mínútu fyrir leikslok.

Ungur markvörður Mallorca, Miguel Garro "Miki" stóð vel fyrir sínu í fyrri hálfleik og varði þá nokkrum sinnum vel frá sóknarmönnum gestanna. Hann hitti hins vegar ekki boltann þegar hann ætlaði að spyrna frá marki í upphafi síðari hálfleiks og boltinn fór til Shearers sem nýtti reynslu sína til fullnustu og skoraði í autt markið.

Newcastle mætir PSV Eindhoven í átta liða úrslitunum og þar mun Boggy Robson, stjóri Newcastle, hitta fyrir einn af sínum gömlu klúbbum en hann var við stjórnvölinn um tíma hjá hollenska félaginu.

Vonbrigði hjá Liverpool

Liverpool hafði gert sér vonir um að komast í næstu umferð þrátt fyrir að ná aðeins 1:1 jafntefli við Marseille í fyrri leik liðanna. Byrjunin lofaði góðu því Emile Heskey kom liðinu yfir eftir aðeins stundarfjórðung, skoraði framhjá Fabien Barthez, fyrrverandi markverði Manchester United, sem nú ver mark franska liðsins.

En þeir rauðklæddu gátu ekki leyft sér að slaka neitt á og gerðu það ekki heldur sóttu mun meira en heimamenn. Owen komst í gegn en missti boltann aðeins og langt frá sér og Barthez náði honum. Liverpool virtist í ágætum málum allt þar til dómarinn dæmdi vítaspyrnu á Biscan fyrir að toga í Steve Marlet. Biscan var aukinheldur rekinn af velli. Heimamenn skoruðu úr vítinu og snemma í síðari hálfleik gerðu þeir annað mark og þar við sat.

Celtic gerði vel þegar liðið fór til Barcelona og náði markalausu jafntefli gegn heimamönnum sem hafa verið á mikilli siglingu síðustu vikurnar. Celtic vann 1:0 þegar liðin mættust í Glasgow í fyrri leiknum og komst því áfram á því marki. Celtic mætir öðru spænsku liði í átta liða úrslitunum því Villarreal er næsti mótherji, en liði lagði Roma 3:2 samanlagt.

PSV lagði Auxerre 3:0 og er komið áfram eins og Inter sem vann Benfica 4:3 en fyrri leikur liðanna endaði með markalausu jafntefli.Valencia komst einnig áfram í gærkvöldi með því að leggja tyrkneska liðið Genclerbirligi 2:0 í framlengdum leik, en tyrkir unnu 1:0 í fyrri leiknum.