Hví skyldi ég yrkja um önnur fljóð,
en ekkert um þig, ó, móðir góð? -
Upp, þú minn hjartans óður!
Því hvað er ástar og hróðrar dís,
og hvað er engill úr paradís
hjá góðri og göfugri móður?
Ég man það betur en margt í gær,
þá morgunsólin mig vakti skær
og tvö við stóðum í túni:
Þú bentir mér yfir byggðar hring,
þar brosti við dýrðin allt í kring
og fjörðurinn bláöldum búni.
Þú bentir mér á, hvar árdagssól
í austrinu kom með líf og skjól.
Þá signdir þú mig og segir:
"Það er guð, sem horfir svo hýrt og bjart,
það er hann, sem andar á myrkrið svart
og heilaga ásján hneigir."
- - -
Matthías Jochumsson