Dalvík|Fólk, fjör, frumlegheit. Mikið verður um að vera á skíðasvæðunum á Dalvík og Ólafsfirði um komandi páska. Skíðavíkurbyggð sem er risasnjóhúsabyggð verður reist á Dalvík og þar verður markaður alla daga með fjölbreyttum varningi, kynningum og uppákomum. Á svæðinu verður lítið svið þar sem fólki gefst kostur á að troða upp. Ekkifréttamaðurinn Haukur Hauksson hefur flutt lögheimili sitt í Skíðavíkurbyggð að því er fram kemur í frétt um páskadagskrána sem ber yfirskriftina; Fólk, fjör og frumlegheit.
Ottó Magnússon íslistamaður mun sýna listir sínar og einnig verður snjólistaverkasamkeppni. Af öðrum viðburðum má nefna nammidag, páskaeggjamót fyrir börn, þrautabraut, lifandi tónlist verður í skíðabrekkum og einnig messa á páskadag auk þess sem skíðakennsla er í boði.
Í Ólafsfirði verður Ólafsfjarðarmót í skíðagöngu í öllum flokkum og með hefðbundinni og frjálsri aðferð. Þar verður gönguskíðadagur fjölskyldunnar og veitt verðlaun m.a. fyrir búninga, stærstu fjölskyldurnar og yngsta og elsta þátttakandann. Hægt verður á fá gönguskíði að láni.
Þá má nefna að í Sundlaug Dalvíkur og Íþróttamiðstöð Ólafsfjarðar verður einnig mikið um að vera um páskana og laugarnar opnar lengur en vanalega.