Angurgapi er ein af sex sveitum sem koma fram á Ung-Jazz í Reykjavík.
Angurgapi er ein af sex sveitum sem koma fram á Ung-Jazz í Reykjavík.
DJASSHÁTÍÐIN Ung-Jazz í Reykjavík verður haldin fyrsta sinni um þessa helgi á Hótel Borg. Fram koma sex hljómsveitir frá þremur Norðurlöndum en um samnorrænt verkefni er að ræða og er Nordisk Kulturfund helsti bakhjarlinn.

DJASSHÁTÍÐIN Ung-Jazz í Reykjavík verður haldin fyrsta sinni um þessa helgi á Hótel Borg. Fram koma sex hljómsveitir frá þremur Norðurlöndum en um samnorrænt verkefni er að ræða og er Nordisk Kulturfund helsti bakhjarlinn.

Sveitirnar sex eru Angurgapi, HOD, Refleks, jogujo circuit, B3 Trio og Rodent, allar skipaðar ungum djassleikurum frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi.

Haukur Gröndal er meðlimur í Rodent og er aðalskipuleggjandi hátíðarinnar.

"Okkur langaði til að setja saman hátíð þar sem við gætum sjálfir sett niður listræna stefnu," segir Haukur. "Allir tónlistarmennirnir eru í yngri kantinum og öll tónlistin er frumsamin. Það getur verið erfitt að koma eigin efni á framfæri við þessar aðstæður og þess vegna ákváðum við einfaldlega að búa til ramma utan um það."

Hljómsveitirnar eru nokkuð ólíkar innbyrðis enda segir Haukur að áhersla hafi verið lögð á að bjóða upp á nokkra breidd.

Hljómsveitirnar

Angurgapi er skipuð ungum og upprennandi íslenskum djössurum og er tónlistin allt frá rokki yfir í spuna. HOD er skipuð þeim Davíð Þór Jónssyni, Ómari Guðjónssyni og Helgi Svavari Helgasyni. Þeir þrír hafa allir verið mikilvirkir í djasssenu Íslands undanfarin ár og innan HOD fara þeir þangað sem tónhugurinn girnist hverju sinni.

Hljómsveitin Refleks kemur frá Danmörku, er píanótríó og tvinna þeir saman djass og danska þjóðlagahefð. Hljómsveitin jogujo circuit kemur aftur á móti frá Noregi og notast nokkuð við raftónlist í sinni sköpun. B3 Tríó er leitt af Agnari M. Magnússyni og er aðalsmerki þeirra orgeldjass að hætti Jimmy Smith og Larry Golding.

Rodent er kvartett, skipaður tveimur Íslendingum, Norðmanni og Svía. Þeir fara víða um völl, allt frá austur-evrópskri þjóðlagatónlist yfir í örgustu framúrstefnu. Fyrsta plata þeirra var tekin upp í janúar á þessu ári og er komin út. Kallast hún Beautiful Monster og ætti hún að vera fáanleg í öllum betri plötubúðum en það er Zonet sem dreifir.

Styrktaraðilar hátíðarinnar eru Icelandair, Ríkísútvarpið og Nordisk Kulturfund.

Tónleikarnir eru í kvöld og á morgun á Hótel Borg. Bæði kvöldin hefjast þeir klukkan 20.00. Fyrra kvöldið leika Angurgapi, HOD og Refleks en á hinu síðara leika jogujo circuit, B3 Trio og Rodent. Aðgangseyrir er 1.500 krónur á hvort kvöld en einnig er hægt að kaupa miða á bæði kvöldin fyrir 2.500 krónur. Miðar eru seldir í 12 Tónum og við hurð. www.ungjazzreykjavik.net

arnart@mbl.is