FORSETI Argentínu, Nestor Kirchner, ætlar að láta reisa safn til minningar um fórnarlömb "Skítuga stríðsins" svonefnda á árunum 1976-1983 en þá réð herforingjastjórn yfir landinu og ofsótti andstæðinga sína.

FORSETI Argentínu, Nestor Kirchner, ætlar að láta reisa safn til minningar um fórnarlömb "Skítuga stríðsins" svonefnda á árunum 1976-1983 en þá réð herforingjastjórn yfir landinu og ofsótti andstæðinga sína. Kirchner skýrði frá ákvörðun sinni í ræðu sem hann flutti í gömlum pyntingabúðum í flotaskóla tilefni þess að 28 ár voru liðin frá valdaráni herforingjanna. Safnið verður á lóð skólans sem er í höfuðborginni, Buenos Aires.

Saksóknarar álíta að um 5.000 af þeim 13.000 manns sem hurfu í tíð herforingjanna hafi verið sendir í umrædda stöð flotans. Sumir mannréttindahópar segja að talan sé mun hærri eða um 30.000.

Kirchner notaði tækifærið til að "biðja fyrir hönd stjórnvalda fólk um að fyrirgefa þeim að svo lengi skuli hafa ríkt þögn um svo mörg ódæði" á valdaárum herforingjastjórnarinnar. Hann lét einnig taka myndir af tveim herforingjanna, Jorge Videla og Reynaldo Bignone, sem héngu á veggjum þekkts skóla landhersins, niður. Að sögn dagblaðsins La Nacion voru fjórir hershöfðingjar svo ósáttir við ákvörðun Kirchners að þeir fóru fram á að verða settir á eftirlaun.

"Hef beðið í mörg ár"

Um 40 þúsund manns voru á staðnum, þ. á m. fólk sem komst lífs af úr pyntingaklefum og börn mæðra sem hurfu. Var orðum forsetans ákaft fagnað og margir veifuðu argentínska fánanum. Rosa Roisinblit, félagi í mannréttindahóp sem kallast Ömmur Plaza de Mayo, kvenna sem kenna sig við þekkt torg í höfuðborginni, sagðist hafa misst dóttur sína í pyntingarstöðina en hefði ekki enn fengið nein svör frá stjórnvöldum um afdrif hennar. En Roisinblit sagðist samt þakklát fyrir það sem nú hefði gerst.

"Ég hef beðið í mörg ár eftir því að þetta gerðist. Ég hélt að ég myndi aldrei lifa þennan dag," sagði hún. Yfirmaður flotans, Jorge Godoy aðmíráll, sagði nýlega að húsið hefði orðið "villimannlegt tákn" um fortíðina.

Sumir sögðu sögur af fólki sem dregið var inn í flotaskólann sem þekktur er undir skammstöfuninni ESMA og hefur árum saman verið eitt helsta táknið um ógnarstjórnina. Inni var fólkið barið með keðjum, pyntað með rafmagnsköplum og látið þræla fyrir valdhafana. Vanfærar konur sem ólu börn í fangelsinu urðu að sætta sig að börnin væru tekin frá þeim og afhent með leynd fólki sem vildi ættleiða þau.

Argentínuþing nam í ágúst sl. úr gildi lög frá níunda áratugnum sem veitt höfðu nokkur hundruð herforingjum sakaruppgjöf og margir af æðstu leiðtogum herforingjastjórnarinnar sæta nú stofufangelsi, meðal þeirra eru Videla og Bignone. Einnig eru margir lægra settir liðsforingjar í haldi vegna ásakana um að þeir hafi rænt börnum kvenna sem hurfu. Kirchner hefur sagt að Argentínumenn muni ekki lengur andmæla kröfum evrópskra dómstóla sem vilja fá suma af herforingjunum framselda. Sum fórnarlambanna voru erlendir borgarar, þ. á m. fólk frá Evrópu.

Buenos Aires. AP, AFP.