Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar
Forsætis- og félagsmálaráðherra fara mikinn um misbeitingu valds ... Verst að það er ekkert að marka.

ÞAÐ MÁ að íslenskum lögum segja þér upp ævistarfi þínu að ástæðulausu, afþví bara. Það þarf á almennum vinnumarkaði ekki einu sinni að tilgreina ástæðu, málefnalega eða ómálefnalega. Afþví bara dugar. Á miðjum aldri geturðu staðið uppi með 89 þúsund krónu atvinnuleyisbætur að framfleyta þér á þrátt fyrir vel unnin störf. Afþví bara.

Sjómaður á frystitogara vildi ekki flytja fjölskyldu sína frá Reykjavík til Skagastrandar fyrr en börnin hefðu lokið skóla að vori. Hann var rekinn og 11. mars sl. staðfesti Hæstiréttur að það hefði verið löglegt.

Þingmenn Samfylkingarinnar, þær Bryndís Hlöðversdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir, hafa ítrekað lagt til að tvær samþykktir Alþjóða vinnumálastofnunarinnar um starfsöryggi verði fullgildar á Íslandi, en án árangurs. Önnur ver fólk atvinnumissi vegna fjölskylduábyrgðar, en hin fjallar um jafn sjálfsagða hluti og að tilgreina þurfi ástæðu uppsagnar og að hún þurfi að vera málefnaleg. Það er ekki fram á mikið farið, en það er nær aldarfjórðungur frá samþykktinni og enn hefur okkur ekki auðnast að leiða hana í lög.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að við séum að dragast aftur úr nágrannaþjóðum okkar hvað varðar grundvallar mannréttindi vinnandi fólks. Þannig svaraði félagsmálaráðherra í síðustu viku fyrirspurn minni og staðfesti að Ísland hefði lagst gegn því að tilskipanir ESB gegn mismunun á vinnumarkaði yrðu teknar upp í samninginn um EES. Tilskipanirnar verja fólk mismunun við ráðningu, starfsframa og uppsögn vegna aldurs, fötlunar, trúar, kynþáttar, uppruna o.s.frv. Engir tilburðir eru heldur til að taka efni tilskipananna upp sem íslensk lög, heldur er beinlínis haldið í réttinn til að mismuna fólki.

Einar Páll Tamimi, lektor við Háskólann í Reykjavík og forstöðumaður Evrópustofnunar HR, hefur bent á að svo léleg séu réttindi launafólks á almennum vinnumarkaði að þessu leyti, að vafasamt sé að standist alþjóðlegar skuldbindingar Íslands á sviði mannréttinda. Nánast hverskonar ómálefnaleg sjónarmið atvinnurekanda geti kostað launamann starf sitt, enda sönnun um ástæður brottvikningar nánast útilokuð þegar engin skylda sé til að rökstyðja hana.

Vert er að hafa í huga að grundvallaratriði á borð við skoðana- og tjáningarfrelsi er ekki að fullu varið, meðan ekki þarf að tilgreina ástæðu atvinnusviptingar. Og það er ástæða til að minnast þess að á síðasta ári vöktu útgerðarforstjórar athygli starfsmanna sinna á því að atvinnuöryggi þeirra væri í hættu ef þeir styddu tiltekinn stjórnmálaflokk.

Forsætis- og félagsmálaráðherra fara mikinn um misbeitingu valds í atvinnulífi, skoðanakúgun í krafti fjármagns, ósiðlegar starfsaðferðir við yfirtökur og nauðsyn þess að stjórnmálamenn veiti aðhald og standi vaktina. Verst að það er ekkert að marka. Því ekki bara hafa þeir fjársvelt Samkeppnisstofnun vitandi vits, heldur hafa þeir ekki haft dug til að innleiða lágmarks ákvæði alþjóðlegra samþykkta og tilskipana um mannréttindi vinnandi fólks. Og þó er vinnan okkur flestum ein af forsendum farsældar í lífinu og ekkert sjálfsagðara en samfélagið tryggi okkur að hún sé ekki höfð af okkur að ástæðulausu. Og þeir Davíð og Árni þurfa að svara því hvers vegna þeir neita fólki um þessi sjálfsögðu réttindi, enda veit hvert barn að "Afþví bara" er ekkert svar.

Helgi Hjörvar skrifar um réttindi starfsfólks

Höfundur er alþingismaður Samfylkingar.