Tómas Ottó Hansson
Tómas Ottó Hansson
Markaðshagkerfið er sífelldum breytingum háð, það er styrkur þess.

Í LEIÐARA Morgunblaðsins á sunnudag svarar ritstjóri blaðsins grein minni um áhyggjur félagsmálaráðherra, Morgunblaðsins og fleiri af ýmsu því sem hefur gerst í viðskiptalífinu á síðustu misserum. Með greininni vildi ég benda á að síendurtekin gagnrýni sem hvorki tilgreindi tiltekin vandamál né kæmi með ákveðnar lausnir væri engum til framdráttar.

Morgunblaðið bendir réttilega á að ég hef ekki skýra mynd af skoðunum þess. Spurningin er hins vegar fyrir hvorn það er stærra vandamál. Þá er rétt hjá Morgunblaðinu að það er óþarfi að vera of viðkvæmur fyrir gagnrýnni umfjöllun og enginn er hafinn yfir slíka gagnrýni. Það tek ég heils hugar undir. Ádeila og gífuryrði sem ekki hafa skýr markmið eru aðeins til þess fallin að veikja traust almennings á viðskiptalífinu og afvegaleiða pólitíska umfjöllun. Þessu hljóta menn að vera sammála. Það er áhyggjuefni ef löggjafinn sér sig knúinn til að bregðast við þessu áreiti með því að setja reglur sem eru sérsniðnar að einstökum málum. Í greininni nefndi ég eitt nýlegt dæmi um frumvarp sem ber merki þessa ástands.

Afmyndun sannleikans

Þeirri bók sem Morgunblaðið nefndi til sögunnar í svari sínu og nefnist "America: What Went Wrong" var lengi vel haldið á lofti af vinstri elítunni í Bandaríkjunum. Hún hefur verið harkalega gagnrýnd fyrir að gefa villandi mynd, nota ranga tölfræði og afvegaleiða pólitíska umfjöllun um vandamál níunda áratugarins. Einn gagnrýnandi þessarar bókar, Richard B. McKenzie, segir í lokaorðum sínum í "America: What Went Right" að því miður létu gagnrýnendur á þróun níunda áratugarins í veðri vaka að raunveruleikinn væri einfaldur. Hann segir að flestir hafi réttilega bent á tilvist vandamála, annars hefðu þeir ekki náð athygli. Mistökin sem þeir gerðu voru að telja mönnum trú um að þau fáu afmörkuðu tilvik sem þeir nefndu gæfu rétta mynd af þróun níunda áratugarins. Þannig tókst þeim að afmynda sýn fjölda Bandaríkjamanna á níunda áratuginn.

Að reyna að fínstilla hagkerfið með löggjöf er eins og að veiða lax eftir ljósmynd - þú rennir næsta víst á rangan stað. Markaðshagkerfið er sífelldum breytingum háð, það er styrkur þess. Vandamál í dag eru tækifæri á morgun. Morgunblaðið hlýtur að vera sammála mér um að það sé einn mikilvægasti þáttur í verslunarfrelsi að þeir sem stunda viðskipti geti vænst þess að reglunum sé ekki breytt eftir gangi leiksins heldur til að bæta árangurinn almennt. Ef svo er þá verður umræðan um hvað má betur fara að vera skýrari og taka mið af almennum sjónarmiðum ekki sértækum. Á meðan ekki koma skýrari atriði eða dæmi fram um hvað hefur farið úrskeiðis og hvað ber að gera liggur viðskiptalífið allt undir grun og þarf í sífellu að sanna sakleysi sitt - það er ekki efnahagslífinu til framdráttar.

Tómas Ottó Hansson skrifar um viðskiptalífið

Höfundur er hagfræðingur.