Tekin á teppið. Eva Björk Heiðarsdóttir, skíðakennari í Skíðaskólanum í Hlíðarfjalli, ræðir við nemendur í 5. bekk í Glerárskóla í skíðakennslunni í vikunni. Eva Björk var að kenna þeim að renna sér í pítsu, eins og það er kallað.
Tekin á teppið. Eva Björk Heiðarsdóttir, skíðakennari í Skíðaskólanum í Hlíðarfjalli, ræðir við nemendur í 5. bekk í Glerárskóla í skíðakennslunni í vikunni. Eva Björk var að kenna þeim að renna sér í pítsu, eins og það er kallað. — Morgunblaðið/Kristján
ÞESSA dagana er verið að prófa þá nýjung að bjóða öllum nemendum í 5. bekk grunnskólanna á Akureyri upp á skíðakennslu í Hlíðarfjalli þeim að kostnaðarlausu. Kennslan byrjaði mánudaginn 22. mars og stendur til 31. mars.

ÞESSA dagana er verið að prófa þá nýjung að bjóða öllum nemendum í 5. bekk grunnskólanna á Akureyri upp á skíðakennslu í Hlíðarfjalli þeim að kostnaðarlausu. Kennslan byrjaði mánudaginn 22. mars og stendur til 31. mars. Tekið er á móti nemendum úr tveimur skólum í einu, eða 80-90 nemendum, en í allt er hér um að ræða 259 nemendur sem er skipt niður á þrjá daga, mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga. Kennt er í 2 klst. í einu og munu nemendur fara tvisvar í fjallið þetta árið. Til stóð að hver hópur færi þrisvar sinnum en vegna aðstæðna varð að fækka skiptunum.

Þetta er samvinnuverkefni Skíðastaða í Hlíðarfjalli, skóladeildar og grunnskólanna, þannig að Skíðastaðir leggja til búnað fyrir þá sem þess þurfa, lyftugjöld og skíðakennara, en skóladeild greiðir kostnað vegna skíðakennara og sér um skipulagningu ferða í samvinnu við skólana.

Það hefur komið á óvart hversu hátt hlutfall þessara nemenda á ekki búnað eða tæp 43% og að tæplega helmingur (50%) nemendanna er byrjendur.

Markmiðið með þessu átaki er að kynna öllum nemendum í ákveðnum árgangi skíðaíþróttina og þá aðstöðu sem er í Hlíðarfjalli til að stunda holla útiveru. Eins og með kynningu á skautaíþróttinni í 3. og 4. bekk fyrir áramót er verið að reyna að fá sem flesta til þess að nýta sér þá góðu aðstöðu sem er á Akureyri til þess að stunda vetraríþróttir auk þess sem þessari kennslu á að sinna í íþróttakennslu samkvæmt Aðalnámskrá.

Á þetta verkefni er litið sem tilraun nú, en hugmyndir eru uppi um að færa þessa kennslu inn í stundaskrá og skipulag skólanna á næsta ári og helst að gera hana að föstum lið í kennslu nemenda í grunnskólum Akureyrar, enda Akureyri vetraríþróttamiðstöð Íslands, segir í fréttatilkynningu skóladeildar.