RANNSÓKNIR Íslenskrar erfðagreiningar á Langanesveiki eða arfgengri sjón- og æðavisnun hafa leitt í ljós að stökkbreyting í erfðavísi á tilteknum litningi sem segir til um samsetningu sk. TEAD1 prótíns, orsakar sjúkdóminn. Langanesveiki lýsir sér í skemmdum á augnbotnum sem byrja við sjóntaugaenda en breiðast út eftir augnbotnunum með aldrinum og getur sjúkdómurinn valdið blindu.
Alls tóku 81 sjúklingur og 107 ættingjar þátt í rannsókninni og fannst stökkbreytingin í öllum sjúklingunum en hvorki í heilbrigðum ættingjum né viðmiðunarhópi. Rannsóknirnar voru unnar undir stjórn Ragnheiðar Fossdal líffræðings hjá ÍE í samvinnu við Friðbert Jónasson augnlækni á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Hefur erfðafræðitímaritið Human Molecular Genetics birt grein eftir vísindamenn ÍE þar sem greint er frá niðurstöðunum.