ÍSLENSK fyrirtæki munu verða meðal fyrirtækja sem mynda svonefnda heimsvísitölu FTSE Group (e. FTSE Global Index Series). Frá þessu er greint í frétt á vef Bloomberg fréttamiðilsins.

ÍSLENSK fyrirtæki munu verða meðal fyrirtækja sem mynda svonefnda heimsvísitölu FTSE Group (e. FTSE Global Index Series). Frá þessu er greint í frétt á vef Bloomberg fréttamiðilsins.

Auk íslenskra fyrirtækja munu fyrirtæki frá Kýpur, Jórdaníu, Sádi-Arabíu og Slóveníu verða tekin inn í vísitöluna.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að það sé áhugavert að íslensk fyrirtæki verði inni í heimsvísitölu FTSE. Það sé til vitnis um að íslenskur hlutabréfamarkaður sé að fá meiri og meiri athygli erlendis, en þetta ýti enn frekar undir það. Þetta komi og heim og saman við það sem Kauphöllin hafi orðið vör við undanfarin misseri, að athyglin sem íslenski hlutabréfamarkaðurinn fær erlendis sé smám saman að aukast.

Á vefsíðu FTSE segir að heimsvísitalan sé yfirgripsmesta vísitala sem fjárfestar hafi aðgang að. Í henni séu yfir sjö þúsund fyrirtæki frá 48 löndum. Þau fimm lönd sem nú hefur verið ákveðið að verði með í vísitölunni eru þá ekki talin með.