Maður þroskast á myndlistarsýningum.
Maður þroskast á myndlistarsýningum. — Morgunblaðið/Árni Torfason
Víkverji er oft að þvælast á vefjum fyrirtækja starfs sín vegna og rekst á margt skrýtið og skemmtilegt. Á dögunum hafði hann orð á því að á vef Lyfja og heilsu er heiti fyrirtækisins beygt vitlaust - Lyf og heilsa myndu sjálf segja á vef Lyf og heilsu.

Víkverji er oft að þvælast á vefjum fyrirtækja starfs sín vegna og rekst á margt skrýtið og skemmtilegt. Á dögunum hafði hann orð á því að á vef Lyfja og heilsu er heiti fyrirtækisins beygt vitlaust - Lyf og heilsa myndu sjálf segja á vef Lyf og heilsu. Í vikunni rakst Víkverji á dæmi um það sama á vef hins trausta og gróna tryggingafyrirtækis Sjóvár-Almennra trygginga hf. Þar á bæ eru menn líka hættir að beygja fyrri hluta nafns fyrirtækisins. "Hagnaður Sjóvá-Almennra trygginga hf." segir t.d. í frétt um afkomu fyrirtækisins.

Hvernig stendur á því að meira að segja gömul og traust fyrirtæki hætta að beygja nöfnin sín rétt? Gáfust menn upp af því að viðskiptavinirnir gátu ekki haft þetta rétt, starfsmennirnir eða einhverjir aðrir? Er íslenzkan kannski bara að þróast í þá átt að fólk hætti að beygja orð og þau verði alltaf í nefnifalli? Tilhneigingin virðist a.m.k. vera sú að þar sem tvö nöfn standa saman, sé því sleppt að beygja annað þeirra.

Víkverji þurfti þannig að hringja í stjórnanda í fyrirtæki fyrir skömmu, sá hét tveimur nöfnum og það síðara var Jón. Ritari mannsins, elskuleg ung kona, svaraði: "Hjá [fyrra nafn, rétt beygt] Jón." Hjá Jón?! Víkverji hefur reyndar aldrei haft ritara, en hann myndi ekki ráða sér ritara, sem gæti ekki beygt nafnið hans rétt. Heimur versnandi fer.

Æ fleiri virðast á þeirri skoðun að skólar eigi að sjá um uppeldi barna fyrir foreldra. Heil námsgrein, lífsleikni, hefur verið tekin upp í skólum til að kenna börnum það sem foreldrar þeirra ættu að kenna þeim; allt frá því að passa sig á tóbaki, áfengi og ótímabæru kynlífi til þess að gæta þess að nota hjólahjálm, sýna aðgæzlu í fjármálum o.s.frv. Víkverji er svo gamaldags að honum finnst að í skólanum eigi börn að læra að lesa, skrifa, reikna o.s.frv. en foreldrar þeirra eigi að kenna þeim aga og mannasiði og leggja þeim lífsreglurnar.

Víkverji uppgötvaði því sér til skelfingar á dögunum að sex ára dóttir hans er á hinni skoðuninni. Víkverji ætlaði að taka hana með sér á myndlistarsýningu einu sinni sem oftar, en sú stutta harðneitaði í fyrstu. Víkverji hélt þá dálítinn fyrirlestur um að skoðun myndlistarsýninga væri mikilvægur þáttur í því að kynnast lífinu, læra og þroskast. Sú stutta svaraði þá: "Æ, pabbi, við erum búin að þroskast í skólanum." Auðvitað fór hún samt á sýninguna.