Sveinborg Helga Sveinsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 13. júní 1948. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 13. mars síðastliðinn. Faðir Sveinborgar er Sveinn Sverrir Sveinsson, lengst af verkamaður hjá Rafveitunni í Vestmannaeyjum, f. í Neskaupstað 15. október 1924. Foreldrar hans voru Sveinn Sigurður Sveinsson, sjómaður og verkamaður á Norðfirði, og Anna Herborg Guðmundsdóttir frá Borgarfirði eystra. Móðir Sveinborgar er Sigríður Ragna Júlíusdóttir saumakona, f. í Vestmannaeyjum 28. janúar 1926. Foreldrar hennar voru Júlíus Jónsson, múrarameistari í Vestmannaeyjum og Sigurveig Björnsdóttir saumakona. Sveinborg var önnur í hópi fimm systkina sem komust á legg en alls voru þau sex, hin eru: Júlíus, f. 25. júní 1944, maki Freydís Fannbergsdóttir; Sveinborg, f. 14. janúar 1946 , d. 7. apríl 1946; Ragnar, f. 9. júlí 1955, maki Gunnhildur María Sæmundsdóttir; Sveinn Sigurður, f. 21. apríl 1957, maki Margrét Bragadóttir; og Birgir, f. 6. febrúar 1959, maki Steinunn Gísladóttir.

Hinn 27. febrúar 1971 giftist Sveinborg Finnboga Jónssyni, stjórnarformanni Samherja h/f og framkvæmdastjóra SR-mjöls h/f, f. á Akureyri 18. janúar 1950. Foreldrar hans voru Jón Sveinbjörn Kristjánsson skipstjóri, f. á Ísafirði 13. september 1912, d. 26. mars 2001 og Esther Finnbogadóttir verkakona, f. á Eskifirði 24. janúar 1917, d. 23. júní 1986. Börn Sveinborgar og Finnboga eru Esther, viðskiptafræðingur hjá KB-banka, f. 30. nóvember 1969, unnusti Bjarni Karl Guðlaugsson, sjóðstjóri hjá KB-banka, f. 11. september 1973, sonur hennar er Finnbogi Guðmundsson, f. 18. apríl 1996, og Sigríður Ragna, flugfreyja og nemi við Háskólann í Alicante, f. 20. júlí 1976, unnusti Andrés Miñarro Canovas, starfsmaður í sérsveitum spænska hersins, f. 7. apríl 1976.

Sveinborg lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum 1965, prófi í hjúkrunarfræði frá Hjúkrunarskóla Íslands 1970 og framhaldsnámi í geðhjúkrun 1981. Sveinborg starfaði sem hjúkrunarfræðingur við Sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum 1970-1971, við geðdeild Borgarspítalans 1971-1972, við lyflæknisdeild Landspítalans 1972-1973, við sjúkrahúsið á Blönduósi sumarið 1973 og sumarið 1974, við krabbameinsdeild og langlegudeild Háskólasjúkrahússins í Lundi í Svíþjóð 1975 og 1977-1978, við geðdeild Landspítalans 1981-1982. Árin 1982 til 1986 starfaði Sveinborg við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, fyrst sem deildarstjóri á geðdeild og síðustu tvö árin sem fræðslustjóri FSA. Árin 1987 til 1996 var Sveinborg félagsmálastjóri í Neskaupstað. Hluta af tímanum starfaði hún einnig að sömu málum á Eskifirði.

Sveinborg var formaður Félags hjúkrunarfræðinga á Norðurlandi 1984 til 1986, starfaði að stofnun og uppbyggingu kvennaathvarfs á Akureyri og var í stjórn Rauða kross Íslands 1998-2002.

Sveinborg verður jarðsungin frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glaður, og þú munt sjá, að aðeins það, sem valdið hefur hryggð þinni, gerir þig glaðan.

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.

(Úr Spámanninum.)

Elsku Sveina, nú hefur þú kvatt okkur og farið þinn veg. Farið á vit æðri máttar. Þú fórst alltof snemma, varst kölluð til og eftir sitjum við og syrgjum og söknum. En ljósið í sorginni eru ljúfar minningar um yndislega systur, mágkonu og frænku og munum við ylja okkur á þeim um ókomna framtíð.

Við minnumst þín sem einstaklega góðrar manneskju með mikinn persónustyrk og vilja. Við minnumst þín sem glaðlegrar og hláturmildrar konu sem varst hrókur alls fagnaðar í fjölskyldu- og vinahópi. Við minnumst þín sem sérlega áhugasama um hagi okkar bræðranna og fjölskyldna okkar og ekki síður fyrir þá væntumþykju og natni sem þú sýndir foreldrum okkar. Við minnumst þín sem höfðingja heim að sækja og sérlega gjafmilda. Við minnumst þín sem glæsilegrar konu sem bar höfuðið hátt og vildi njóta lífsins í gleði og af smekkvísi. Og við minnumst þín í veikindum þínum, hve ótrúlegan styrk þú sýndir og tókst á við þau af æðruleysi og kjarki þó oft hljóti það að hafa verið erfitt. En elsku Sveina, þó vera þín hafi verið alltof stutt hér á þessu jarðríki þá vitum við að þú varst ánægð og stolt af því lífi sem þú mótaðir þér og þinni fjölskyldu, með eiginmanni þínum, Finnboga, og dætrunum Esther og Rögnu og litla ömmudrengnum, honum Finnboga. Eitt er víst að við erum þakklát fyrir að fá að vera þátttakendur í lífi þínu. Far þú vel.

Ragnar, Gunnhildur og börn.

Í dag kveð ég mína kæru mágkonu, Sveinu, sem fallin er frá alltof snemma.

Að lokum varst þú að láta undan eftir hetjulega og aðdáanlega veikindabaráttu. Það er erfitt að sætta sig við þá hugsun að hafa þig ekki lengur meðal okkar. Í meira en þrjá áratugi hefur þú verið mikilvægur hluti af lífi mínu.

Ég man þegar ég sá þig fyrst, grannan, ljóshærðan og glaðlyndan hjúkrunarnema sem sigrað hafðir hjarta bróður míns. Það var ekki laust við að ég fyndi til afbrýðisemi, ég vildi hafa hann Bróa minn fyrir mig. Ég fann samt fljótt að þarna var komin viðbót í fjölskylduna sem bætti okkur öll upp. Og það sem hann bróðir minn elskaði þig frá fyrstu stundu, það var eitthvað sem var einstakt og ekki allir fá að njóta.

Það eru margar góðar stundir sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til þín og þær lýsa myndarskap þínum, dugnaði og vináttu. Ég man á háskólaárum Finnboga og Helga í Reykjavík, þegar ekki var mikið um peninga, hvað ég dáðist að því hvernig þér tókst að töfra fram kræsingarnar. Í fyrsta skipti sem ég bragðaði lunda, var hjá þér og ég gleymi aldrei hvað hann smakkaðist vel þarna heima í litlu íbúðinni ykkar. Seinna þegar ég hef fengið þennan rétt, hefur mér aldrei þótt neitt varið í hann, hann stenst aldrei samanburð við það hvernig þú framreiddir hann.

Ég minnist þess líka hvað ég var stolt að eiga þig fyrir mágkonu þegar þú útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur. Þarna varstu komin í hvíta búninginn, tilbúin að líkna öðrum og kannski varð þetta ósjálfrátt til þess að ég leitaði í sömu spor.

Þú varst alltaf tilbúin að liðsinna þegar eitthvað bjátaði á. Eins og þegar hann Villi ákvað að koma í heiminn á sama tíma og svo mörg önnur börn að ekki var hægt að komast inn á fæðingarstofnun. Þá hringdi Helgi í þig um miðja nótt, þú komst, útvegaðir ljósmóður og aðstoðaðir við að taka á móti. Ég var kvíðin við þessar aðstæður en þú studdir mig og hvattir.

Já, það var gaman þegar þið komuð til London til okkar og frábært að fá að sýna ykkur Finnboga athyglisverða staði. Ég man hvað mér þótti hún Esther litla fín og flott klædd. Þú varst alltaf að strauja og gera hana svo fína. Ég man líka eftir ferð norður eftir að við vorum sest að á Akureyri. Þið voruð búin að ákveða að tjalda í Vaglaskógi en hitastigið féll niður undir frostmark. Ragna átti tveggja ára afmæli og ég kom með köku í tjaldið til ykkar, og það féllu snjókorn á meðan við stoppuðum hjá ykkur. Ég vildi endilega fá ykkur til Akureyrar til að gista hjá okkur en það var ekki við það komandi. Þú varst komin til að vera í tjaldútilegu og ætlaðir ekki að gefast upp.

Það var notalegt að hafa ykkur Finnboga, Esther og Rögnu búandi á Akureyri í þessi fjögur ár sem þið voruð þar. Þar aftur minnist ég margra höfðinglegra heimboða og skemmtilegra stunda. Það var aldrein nein lognmolla yfir þér, þú hafðir skoðanir á mörgum hlutum. Ég man eftir hvað þið Helgi gátuð margoft setið og rökrætt málefni sem voru efst á baugi. Oft fannst mér að hitnað væri ískyggilega í kolunum en alltaf endaði allt í góðri vinsemd. Já, það var einn af þessum kostum þínum sem ég mat mikils hjá hjá þér, að geta haft ríkar skoðanir og rætt um svo marga hluti á skynsaman og gagnrýninn hátt.

Ég man þegar þú og Finnbogi sögðu mér fyrst frá sjúkdómnum sem lagði þig að lokum að velli. Ég var sjálf skelfingu lostin og kvíðin yfir því hvað ég ætti að segja. Þú virtist taka þessu af miklu æðruleysi og sagðist ekki ætla að gefast upp þrautalaust. Það væri draumur þinn og markmið að eiga eins mörg ár og þú gætir með þínum nánustu.

Þú tókst veikindum þínum af þeim dugnaði og atorku sem þér einni var lagið og alltaf stóð hann Finnbogi sem klettur við hlið þína. Þú fórst heldur ekki neinar troðnar slóðir í veikindum þínum frekar en í öðru, þú hélst t.d. áfram fram á seinustu stundu að koma í mannfagnaði, meðan sumir aðrir hefðu einangrað sig heima. Þannig varðst þú í rauninni ákveðin fyrirmynd, sýndir og sannaðir að hægt er að gera svo margt og gleðjast yfir svo mörgu þótt um alvarleg veikindi sé að ræða.

Við Helgi, kveðjum þig, elsku Sveina mín, og vonum að þér líði vel í nýjum heimkynnum. Við biðjum Guð að styrkja, Finnboga, Esther og Rögnu í þeirra miklu sorg.

Dóróthea.

Kveðja frá Rauða krossi Íslands

Sveinborg Helga Sveinsdóttir var kjörin í stjórn Rauða kross Íslands árið 1998 og átti þar sæti til vorsins 2002. Hún var traustur liðsmaður og hafði víðtæka reynslu og þekkingu á umönnun og þjónustu við sjúklinga. Djúpstæður skilningur hennar á aðstæðum og kjörum fólks kom að góðu gagni innan stjórnar Rauða krossins, hún var úrræðagóð og hafði næmt auga fyrir nýjum tækifærum eða breyttum áherslum. Þar fóru saman eðlislægir eiginleikar hennar, reynsla og menntun.

Sveinborg var okkur gleðigjafi, brosmild, glaðlynd og góðviljuð.

Við minnumst hennar með hlýju og þakklæti og færum eiginmanni hennar og fjölskyldu allri innilegar samúðarkveðjur.

Úlfar Hauksson, formaður

Rauða kross Íslands.

Kveðja frá Samtökum félagsmálastjóra á Íslandi

Samtök félagsmálastjóra á Íslandi kveðja í dag góðan félaga, Sveinborgu Sveinsdóttur. Sveinborg gekk í samtökin árið 1988 eftir að hún hóf störf sem félagsmálastjóri í Neskaupstað. Verkefni félagsþjónustu og barnaverndar gera miklar kröfur til þeirra sem við þau starfa. Viðfangsefnin fjalla oft um dýpstu og viðkvæmustu tilfinningar fólks og því er mikilvægt að til slíkra starfa veljist hæfir einstaklingar. Sveinborg var einn þeirra. Auk þess að hafa traustan grunn til að byggja á, sem var menntun hennar í geðhjúkrun, þá hafði hún mikinn áhuga á að afla sér þekkingar og reynslu á nýjum vettvangi. Vorið 1991 sóttu félagsmálastjórar Sveinborgu heim, þegar fundur samtakanna var haldinn í Neskaupstað. Enn í dag minnast þeir sem fundinn sóttu þeirrar gestrisni og alúðar sem einkenndi móttökurnar.

Við félagsmálastjórar minnumst ófárra stunda með Sveinborgu þegar slegið var á létta strengi og gleðin tók völdin eftir hnyttnar sögur og misgóð ljóð. Þá lét Sveinborg sitt ekki eftir liggja, enda einkar skemmtilegur félagi. Áður en Sveinborg gekk til liðs við Samtök félagsmálastjóra hafði ég kynnst henni persónulega. Leiðir okkar höfðu legið saman á námsárum í Svíþjóð og síðar vorum við samstarfskonur við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Sameiginlegar stundir, sem hefðu svo gjarnan mátt vera fleiri í seinni tíð, vil ég þakka.

Fyrir hönd Samtaka félagsmálastjóra á Íslandi votta ég eiginmanni, dætrum og öðrum ástvinum mína dýpstu samúð. Megi minningin um góðan félaga og samstarfskonu lifa.

Unnur V. Ingólfsdóttir.

Það var bjartsýnn hópur ungs fólks sem flutti inn í stúdentaíbúðir á Norra Fäladen í Lundi í Svíþjóð haustið 1973. Þetta voru kaflaskil og nýtt líf blasti við í nýju landi. Það ríkti eftirvænting í hópnum en jafnframt runnu tvær grímur á ýmsa að hefja búskap svo fjarri vinum og ættingjum. Í þessum hópi var ung kona, grannvaxin og ljós yfirlitum, með freknur og glettnisglampa í augum. Þetta var Sveina.

Hún hafði alist upp í Vestmannaeyjum en var nú komin út í hinn stóra heim, með Finnboga sér við hlið og Esther. Hún var aðeins eldri og þroskaðri en ég. Það var því gott að leita til hennar með hvaðeina sem að höndum bar, enda mamma og pabbi ekki lengur innan seilingar þegar eitthvað bjátaði á. Þessi litli hópur námsmanna varð fljótlega eins konar stórfjölskylda.

Við sátum nýlega á líknardeildinni í Kópavogi við Sveina, sem þá var orðin fársjúk, og ræddum tímann í Lundi, en líka þau mál sem voru efst á baugi í pólitíkinni því þau ræddum við yfirleitt þegar við hittumst. Sveina var komin af alþýðufólki og stóð föstum fótum í tilverunni. Hún hafði ríka réttlætiskennd og samúð með þeim sem minna mega sín og valdi líka störf sem stuðluðu að því að auka vellíðan annarra. Það sem ég dáðist mest að í fari hennar var hvað hún var raunsæ og hugrökk. Hún horfðist í augu við vandamálin sem steðjuðu að og sigraðist á þeim. Hún var líka húmoristi og oft hlógum við dátt við eldhúsborðið hennar úti í Lundi, þótt blikur væru á lofti í lífi okkar beggja.

Hún var einstaklega heilsteypt manneskja og mikill vinur vina sinna. Hún var einnig gæfukona. Frá því þau Finnbogi kynntust á Akureyri kornung fetuðu þau slóðina saman, þannig að engan skugga bar á. Þau voru sérstaklega samhent og miklir félagar. Dæturnar tvær, Esther og Ragna, voru augasteinar mömmu sinnar. Lítill ömmustrákur, Finnbogi, kom í heiminn og var ömmu sinni og afa gleðigjafi.

Sveina tókst á við krabbameinið eins og annað í tilverunni. Hún horfðist í augu við það staðráðin í að sigra. Hún var baráttukona til hinstu stundar. Hún hafði svo mikið að lifa fyrir og fannst þau Finnbogi eiga svo margt ógert saman. Það er sorglegt að hún skuli hafa verið kölluð héðan langt fyrir aldur fram. Stórt skarð er höggvið í hópinn sem settist að á Norra Fäladen fyrir rúmum þrjátíu árum.

Það er margs að minnast og margs að sakna þegar ég kveð Sveinu og þakka henni samfylgdina, tryggð hennar og vináttu. Sárastur er samt missir foreldra hennar, Finnboga, Estherar, Rögnu og fjölskyldna. Ég samhryggist þeim innilega, bið góðan Guð að styrkja þau og blessa minningu Sveinu. Minningu sem verður þeim ljós í myrkri sorgarinnar.

Erna Indriðadóttir.

Það var alveg sérstök stemning yfir því, þegar fundum bar saman. Heillandi brosið skínandi bjarta og breiða, geislandi augun báru með sér fágæta umfaðmandi og trausta návist. Umfram allt hlýju, en jafnframt litaða ögrun, stríðni, eftirvæntingu og spennu. Þetta allt í senn. Minnti helst á fjörmikið jasslag þar sem sveiflan hittir beint í mark. Naut lífsins og nýtti vel tækifærin sem gáfust. "Maður lifir nú ekki nema einu sinni," varð henni oft á orði þegar mikið var um að vera. Það var oftast mikil hreyfing, já, hvirfill í loftinu í kringum vinkonu okkar. Fljót að staðsetja og miða út viðkomandi og hvar hver nyti sín best. Hraðlæs á hugarástand. Næm á styrkleika og veikleika. Annað tveggja að hlúa að eða hvetja og efla til áræðis og athafna.

Hún var vel af Guði gerð. Driftin þvílík og dugnaðurinn. Alúðin og rausnin. Einbeitt í að gera öðrum til góða. Veisluborð og viðurgjörningur. Hvorki fyrir sér vílað né til sparað. Örlætið yfirfljótandi. Stundum kallað ákveðið og ákaft á sinn ástkæra. Hennar stíll að skerpa og halda við efnið. Lagði sig alla fram og ekki af dregið.

Hún var mikið djásn með sínum dýrmæta hætti. Glæsileg á velli. Skartaði jafnan sínu fegursta. Stolt sinnar fjölskyldu og metin af virktum af eiginmanni sínum Finnboga, ástvinum og vinum. Bjó vel að sér og sínum og lagði mikið upp úr góðum heimilisbrag.

Og þau voru sannarlega samstiga hjónin. Vináttu og eindrægni við brugðið. Alúðin gagnkvæm. Skemmtilegt og sterkt samspil með ótal tilbrigðum og áherslum endurnærði frábært samband og trausta samleið.

Sveina átti svo sannarlega góða að. Dæturnar Esther og Ragna og ömmudrengurinn Finnbogi, augasteinarnir. Fókusinn skýr. Þurfti ört að uppfæra fregnir. Síunnandi sínum, vinur og ráðhollur velgjörðarmaður. Fast og ákveðið á öllu tekið. Höndin fram rétt. Ekki legið á gleðitíðindum. Selibreraði sæl og sólrík í andliti. Dillandi hláturinn bráðsmitandi. Glettnin og kímnigáfan af bestu gerð. Tilefni fagnaðar kærkomið. Þannig hægt að ímynda sér hvernig vinahópurinn stóri upplifði hana. Hún var eins og segull. Einstaklega hrífandi og fjörmikil, stuðkona.

Forréttindi að fá að eiga með henni og fjölskyldunni fjölmargar samverustundir. Já og öll áramótin, lit- og gleðiríku. Hver getur gleymt þeim? Í minningu barna okkar urðu þau glæstustu boð ævintýranna. Öll fjölbreyttu og gómsætu pateiin, íburðarmiklir aðalréttir og eftirréttir runnu ljúft niður við glaum kátra og gefandi samræðna. Það er fyrir margt að þakka á tímamótum. Mörgum margt gefið í eigindum og hugarþeli einnar persónu. Syrti sannarlega að þegar alvarleg veikindi urðu ljós. En vinkonan brást við. Íklæddist baráttuham og kom þar engum á óvart. Þrek hennar og æðruleysi undur eitt.

En hún átti sem fyrr í þéttan faðm að leita er umlukti hana og studdi. Borin á höndum á ögurstundum. Stoðirnar styrku eiginmaður og dætur, foreldrar, tengdasynir Bjarni og Andrés, ástvinir og vinir, hjúkrunarfólk, ásamt fjölmörgum öðrum lögðu sig fram um að auðvelda og létta þunga byrði. Vitnisburður um ómælda ástúð og kærleika í hennar garð, samhug og einingu. Þessi sami hlýi og þétti faðmur lagði hana um síðir í hendur skapara síns og lausnara. Eitt er víst að ekki hefur dregið úr glaðværð himnanna við komu hennar og tilhlökkun ein að mæta brosinu skínandi bjarta og breiða og geislandi augum á spennuþrungnu augnabliki á mörkum tíma og eilífðar.

Guð styrki þig, Finnbogi, kæri vinur, dætur, ömmudrenginn, tengdasyni foreldra, alla ástvini og vini og gefi ykkur huggun og frið í hjörtum. Guð blessi minningu trausts og góðs og gefandi vinar. Já, minningar allar sem sindra eins og skærustu stjörnur á hugarhimni.

Inger, Davíð og börn.

Sumarsins stjarna sólin bjarta

Sjáðu hér hvílir stúlkan mín.

Byrgðu gullna geisla þína

gáðu að hvert ljós þitt skín

því hún sefur

stúlkan mín hún sefur.

Í ársbyrjun 1967 hófu fimmtíu og tvær ungar konur nám við Hjúkrunarskóla Íslands.

Hópurinn, eða hollið eins og það nefndist, var hið fjölmennasta sem hafði verið tekið inn í skólann frá upphafi. Nemendur komu víða að af landinu og var þeim skipt í tvo bekki. Í öðrum bekknum voru nemendur úr Reykjavík en í hinum vorum við saman stöllurnar sem komum af landsbyggðinni og úr nágranna sveitarfélögum Reykjavíkur. Meðal þeirra sem komu utan af landi var Sveinborg Helga Sveinsdóttir úr Vestmannaeyjum, Sveina, sem við viljum kveðja með nokkrum minningarbrotum. Í skólanum tengdumst við órjúfanlegum vináttuböndum sem hafa haldist síðan enda var ýmislegt brallað á heimavistinni.

Sveina setti svip á hópinn, lífsglöð, félagslynd og sterkur persónuleiki. Sveina bar af þegar við fórum út að skemmta okkur, í glæsilegum kjólum sem mamma hennar saumaði og er silfurkjóllinn minnisstæðastur. Sveina var heimskona og fagurkeri. Hún átti fallegt heimili og var höfðingi heim að sækja og nutum við þess saumaklúbbssystur. Við erum þakklátar að hafa átt hana fyrir vinkonu. Sveina greindist með krabbamein fyrir tveimur og hálfu ári síðan. Hún barðist eins og hetja og hélt reisn sinni allt til enda.

Kæri Finnbogi, Esther, Ragna, Finnbogi litli og foreldrar Sveinu, við vottum ykkur innilega samúð. Megi góður Guð styrkja ykkur í sorginni.

Sumarmáni með sorg í hjarta

sefur bak við blámans tjöld.

Hann er að dreyma dimmar nætur

dimmar nætur og veður köld

meðan ég vaki

við hlið hennar ég vaki.

Sumarsins vindar varlega blásið

svo vakni ekki rósin mín.

Hljóðlega farið um fjöll og dali

friður frá hennar ásjónu skín

því hún sefur

stúlkan mín hún sefur.

(Bubbi Morthens.)

Saumaklúbbssystur úr

Hjúkrunarskóla Íslands.

Í dag er til moldar borinn elskuleg vinkona okkar Sveinborg Sveinsdóttir eftir langa og hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Lífið er oft á tíðum svo óútreiknanlegt og ósanngjarnt. Sérstaklega finnur maður til þess á stundu eins og þessari þegar glæsileg kona fellur frá langt fyrir aldur fram. Við sem eftir sitjum getum þó glaðst yfir ljúfum minningum um vin sem svo gott var að eiga að. Það var ekki stíllinn hennar Sveinu að gefast upp þrátt fyrir allt mótlætið, en nú er hvíldin komin. Vinátta okkar hófst þegar þau Finnbogi fluttu til Neskaupstaðar 1986 og Finnbogi tók að sér að stýra Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Þau hjón fluttu með sér ferskan blæ inn í samfélagið og létu til sín taka á mörgum sviðum og mörkuðu djúp spor sem seint verða máð. Sveina tók að sér að erfitt og oft á tíðum vanþakklátt starf félagsmálastjóra bæjarins og leysti það sérstaklega vel af hendi. Þar kom til bæði sérþekking hennar sem hjúkrunarfræðings, en ekki síst hennar góðu mannkostir og hæfileikinn til að setja sig inn í erfið vandmál sem oft þarf að leysa í slíku starfi. Við minnumst sérstaklega allra vinafundanna, gagnkvæmra heimsókna og gamlárskvöldanna okkar fyrir austan. Þó þessir fundir hafi orðið strjálli eftir að við færðum okkur um set, við til Akureyrar og þið til Hafnarfjarðar, þá hafa tengslin ekki rofnað.

Elsku Finnbogi, Ragna, Ester og Finnbogi yngri, ykkar missir er mikill.

Fyrst sigur sá er fenginn,

fyrst sorgar þraut er gengin,

hvað getur grætt oss þá?

Oss þykir þungt að skilja,

en það er Guðs að vilja,

og gott er allt, sem Guði' er frá.

(V. Briem.)

Með þessum orðum kveðjum við elskulega vinkonu Sveinborgu Sveinsdóttur og biðjum henni guðs blessunar.

Ásgeir og Ásta.

Nú er komið að kveðjustund. Sveina er kvödd með miklum söknuði og trega, kona sem bjó yfir svo mikilli útgeislun og hamingju að öllum leið vel í návist hennar.

Sveina var næstelst fimm systkina og eina dóttirin, enda bar hún þess vitni að mömmunni þótti gaman að punta stelpuna sína. Tvítug að aldri kom Sveina til Akureyrar þá sem nemi í hjúkrunarfræðum, - hér lágu leiðir þeirra Finnboga Jónssonar, systursonar míns, saman, hann var þá nemandi í MA. Þó svo hvorugt hefði lokið námi lét ekki ávöxtur ástarinnar á sér standa. Já, margs er að minnast. 30. nóvember 1969 eignuðust þau dóttur sem ber nafn ömmu sinnar, Esther Finnbogadóttir. Þetta kvöld átti Finnbogi að halda ræðu í Menntaskólanum í tilefni af 1. desember. Þau voru búin að vera uppi á fæðingardeild allan daginn og ekkert gekk. Ákveðið var að ég kæmi og leysti hann af svo hann gæti farið heim og haft fataskipti. Hann ætlaði síðan að koma við á spítalanum um leið og hann færi upp í skóla. Sagði ég við Sveinu að gaman væri ef hún yrði búin að fæða áður en hann kæmi til baka og það fór svo. Barnið var nýfætt þegar Finnbogi birtist. - Enda var það stoltur faðir með bros á vör sem hélt ræðu þetta kvöld.

Eftir að Sveina lauk námi sem hjúkrunarfræðingur flutti fjölskyldan til Svíþjóðar, en þar bjuggu þau í rúm 5 ár og eignuðust dótturina Sigríði Rögnu. Eftir að heim kom fór Sveina í framhaldsnám í geðhjúkrun, - flutti fjölskyldan síðan til Akureyrar og þaðan til Neskaupstaðar, þar sem Finnbogi tók við framkvæmdastjórastarfi Síldarvinnslunnar, en Sveina gerðist félagsmálastjóri. Vorið 1996 lauk Ragna stúdentsprófi. Datt mér þá í hug að gaman væri að gleðjast með fjölskyldunni þennan dag. Ég keyrði frá Akureyri til Eskifjarðar, gisti þar um nóttina, kom til Neskaupstaðar snemma næsta dag án þess að gera boð á undan mér. Þvílíkar móttökur sem ég fékk gleymast aldrei.

Sveina fylgdist vel með sveiflum tískunnar enda var hún glæsileg í útliti og klæðnaði.

Þau hjón voru svo samrýmd, að sjaldan nefndi maður annað þeirra án þess að nefna hitt. Stolt þeirra eru tvær yndislegar dætur, þær Esther og Ragna og dóttursonurinn Finnbogi, - síðan bættust tengdasynirnir við. Ykkur ásamt foreldrum og bræðrum bið ég guð að styrkja.

Megi ljúfar minningar liðinna ára ylja ykkur um ókomin ár.

Björg Finnbogadóttir.

Á kveðjustund koma fram í hugann ótal minningar og hugurinn reikar til æskuáranna í Eyjum. Við vinkonurnar hittumst fyrst sex ára í stubbó og höfum alltaf haldið sambandi síðan. Margs er að minnast frá áhyggjulausum árum bernskunnar enda margt brallað. Það var sama hvað við gerðum: Sveina var alltaf hrókur alls fagnaðar. Hún þekkti alla í bænum enda opin og skemmtileg og átti auðvelt með að umgangast fólk og við hinar nutum góðs af því. Árin í Eyjum liðu við leik og störf og minningarnar þaðan eru allar góðar.

En síðan tók alvaran við. Við fórum í burtu til náms og starfa, eignuðumst fjölskyldur og fjarlægðir skildu okkur að um lengri og skemmri tíma. Við hittumst þó alltaf á árgangsmótum og við önnur hátíðleg tækifæri. En þó að stundum liði langt á milli samverustunda var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Sveina var glaðlynd, dugleg og skemmtileg og hafði ótrúlega gott minni og skemmtilega frásagnarhæfileika sem gerði allar okkar samverustundir ógleymanlegar.

Eitt árið þegar við vorum á árgangsmóti var ákveðið að hittast í Lúxemborg þar sem ein okkar býr. Það leið ekki á löngu þar til Sveina dreif í þessu og hringdi í okkur vinkonurnar og sagðist vera búin að finna góða miða til Lúx. Við hittumst þar allar ásamt mökum og áttum saman ógleymanlegar stundir: Dreyptum á kampavíni og hlógum endalaust. Gleymdum okkur algjörlega og hurfum langt aftur í tímann. Við héldum að það hlyti að vera kampavínið sem gerði þetta svona skemmtilegt. En það var ekki það. Það var gleðin yfir því að vera saman og rifja upp gömlu góðu dagana í Eyjum.

Við vinkonurnar munum sakna Sveinu óumræðilega og sjáum hana fyrir okkur með útbreiddan faðminn, breiða brosið sitt og heyrum dillandi hláturinn. Við erum þakklátar fyrir þær perlur sem hún skilur eftir í minningasjóði okkar.

Við sendum þér, kæri Finnbogi, og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveður.

Margrét Rósa, Guðrún Helga, Elín Ágústa

og Brynhildur.

Genginn er góður vinur og tryggur, gestrisin kona og hlý, brosmild og björt í minningunni.

Við kynntumst fyrst öll fjögur á árunum kringum 1980 þegar Finnbogi fékk Þorstein til verka í kringum sig í iðnaðarráðuneytinu, en þeir höfðu kynnst sem nemandi og kennari og í pólitísku starfi í Háskólanum tíu árum fyrr.

Störf Sveinu sem geðhjúkrunarfræðings og Sigrúnar sem félagsráðgjafa tengdu þær fljótt saman og eftir að Sveina tók að sér ábyrgðarmikil störf að fjölskyldu- og félagsmálum á landsbyggðinni urðu umræðuefnin seint tæmd.

Finnbogi og Sveina voru vinir af því tagi sem eru eins og maður hafi alltaf þekkt þá og það sé þarafleiðandi sjálfsagður hlutur að þau kynni standi af sér allan sjó. Aðeins dauðinn einn getur slitið slík vináttubönd sem verða til fyrirhafnarlaust eins og af sjálfu sér. Það hefur hann nú gert gagnvart Sveinu og skilið eftir skarð sem aldrei verður fyllt.

Við minnumst margra ánægjustunda við skemmtilegar samræður um svo margt sem var sameiginlegt: lífsskoðanir, viðhorf og verklag, samfélagsmál og barnauppeldi, vonir og vandamál í störfum, og yfirhöfuð "lífsnautnin frjóva, alefling andans og athöfn þörf".

Gestrisni þeirra hjóna var þvílík að það mun seint gleymast þeim sem kynntust henni. Við áttum því láni að fagna að heimsækja þau bæði á Akureyri og á Norðfirði og minningar frá þeim heimsóknum eru grópaðar í hugann; þvílík elskulegheit og örlæti í bland við andlegt fjör af bestu gerð!

Sveina og Finnbogi voru afar samrýnd og samstillt þó að sjólagið kringum þau breyttist heldur betur á vegferð þeirra, frá tímum bítla og uppreisnar undir merkinu 68 og til gerólíkra strauma og hlutverka á síðari árum. Hjónaband þeirra var fallegt og traust, einkenndist af gagnkvæmri aðdáun og heilindum gegnum þykkt og þunnt.

Við vitum að missir Finnboga er mikill og hugur okkar er hjá honum og dætrunum og fjölskyldum þeirra.

Vonandi munu minningarnar og lífskrafturinn sefa sorg þeirra með tímanum.

Sigrún Júlíusdóttir og

Þorsteinn Vilhjálmsson.

Nú er hún Sveina dáin. Þessi ljúfa og góða kona sem alltaf var svo glöð og hlýleg hefur verið hrifsuð burt í blóma lífsins. Okkur hjónin langar til að minnast þessarar kæru vinkonu okkar með örfáum orðum.

Við kynntumst þeim Sveinu og Finnboga þegar á háskólaárunum, fyrir meira en þrjátíu árum síðan. Það fór vel á með okkur. Við áttum samleið í skoðunum okkar á samfélagsmálum, stjórnmálum og almennum lífsviðhorfum. Þessi upphaflegu kynni voru endurnýjuð á níunda áratugnum, er fjölskyldurnar höfðu báðar snúið aftur til Íslands að afloknu áralöngu námi erlendis. Lífsstarfið var hafið. Við vorum öll upptekin við að sinna okkar störfum. Jafnframt fjölgaði í fjölskyldunum og börnin tengdu okkur einnig saman.

Það var alltaf svo gaman að hitta Sveinu og Finnboga. Það var sama hvert tækifærið var; formleg heimboð, veiðiferðir, afmæli eða kokkteilboð; Sveina var alltaf jafn hjartanleg og innileg. Aldrei brást það að hún breiddi hún út faðminn og faðmaði okkur að sér eins og við værum nánir ættingjar sem ekki hefðu sést í áraraðir.

Í veikindum sínum stóð Sveina sig eins og hetja. Lund hennar var söm og jöfn. Hún var æðrulaus og eins hjartanleg og innileg og hún hafði alltaf verið.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til Finnboga, dætranna tveggja, þeirra Estherar og Rögnu, og dóttursonarins, hans Finnboga yngri. Þau hafa mikið misst. Nú verða þau eins og við hin að láta okkur nægja minningar um sannkallaða afbragðskonu.

Anna og Ragnar.

Sveinborg verður öllum eftirminnileg sem henni kynntust, hjartahlý, glaðvær og greind. Hún er nú fallin frá á miðjum aldri og verður sárt saknað af þeim fjölmörgu sem áttu með henni samleið. Missir eiginmanns, dætra og annarra nánustu er auðvitað mestur, en geislunin frá Sveinu náði langt út fyrir kunningjahóp fjölskyldunnar. Í starfi sínu að félagsmálum og ráðgjöf leitaðist hún sem geðhjúkrunarfræðingur við að létta sem flestum hversdaginn og leita lausna oft á erfiðum málum fjölskyldna og einstaklinga.

Ég kynntist Sveinu eftir að Finnbogi eiginmaður hennar réðist til iðnaðarráðuneytisins 1979 en þá voru þau nýkomin frá námi erlendis. Það duldist engum að þar fóru afar samrýnd hjón sem nutu stuðnings hvort af öðru í lífi og starfi.

Eftir dvöl á Akureyri um tíma fluttist fjölskyldan til Neskaupstaðar, þar sem Sveina stóð fyrir fallegu heimili þeirra hjóna og starfaði jafnframt sem félagsráðgjafi, um skeið bæði í Neskaupstað og á Eskifirði. Bæði áttu þau ættir að rekja á þessar slóðir og það hefur eflaust átt sinn þátt í að þau hösluðu sér lengi völl utan höfuðborgarsvæðisins. Ógleymanlegar eru heimsóknirnar til þeirra heima á Norðfirði þar sem saman fór besta atlæti í mat, fallegt borðhald og umræðuefni sem lyftu huganum yfir hversdaginn. Dæturnar áttu þar sín æsku- og uppvaxtarár og heimilisfaðirinn lagði sig fram á vettvangi atvinnulífs bæjarins með þeim árangri að athygli vakti um land allt. Saman unnu þau hug og hjörtu samstarfsmanna þar í bæ og ræktuðu þau tengsl eftir að haldið var til verka annars staðar fyrir fimm árum.

Við Kristín þökkum Sveinu samfylgdina og þá gleði og stuðning sem hún veitti öðrum á meðan kraftar frekast leyfðu. Öllum aðstandendum sendum við samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson.

Eitt líf fer og annað kemur. Sunnudagsmorgun 14. mars fengum við hjón tvær upphringingar. Hin fyrri var frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, dóttursonur var fæddur og við hlustuðum á andardrátt hans, fyrstu andartökin í lífi hans. Nokkrum andrám síðar hringdi vinur okkar Finnbogi, Sveina hafði skilið við skömmu fyrir miðnætti kvöldið áður.

Við kynntumst Sveinu og Finnboga á 9. áratugnum, en þá fluttu þau með dætur sínar til Akureyrar og bjuggu þar í nokkur ár. Leiðir okkar lágu fyrst saman í bæjarmálapólitíkinni, en að auki unnum við konurnar saman, reyndar aldrei á sama vinnustað, en ætíð þó að sömu málefnum og sátum við oft saman á löngum og ströngum fundum. Einmitt þar þróaðist einlæg vinátta á milli okkar tveggja sem aldrei rofnaði þótt leiðir okkar skildi síðar og margar dagleiðir yrðu á milli okkar. Sveina virtist búa yfir sjötta skilningarvitinu því hún skildi öðrum mönnum betur svo ótal margt í mannlegu eðli og framkomu og hjálpaði mér og öðrum að glíma við mörg erfið viðfangsefni. Að leita til Sveinu með sálfræðileg verkefni var hrein unun, hún hafði óþrjótandi áhuga og elju og átti alltaf tíma. Við týndum líka stundum tímanum þegar við vorum saman að þræða vegina órannsakanlegu, ég minnist þess t.d. þegar við eitt sinn vorum saman í flugferð til Stokkhólms svo niðursokknar við að leysa lífsþrautir að við fórum í ógáti út úr vélinni á flugvellinum í Ósló þar sem vélin millilenti og vorum komnar hálfa leið inn að húsi þegar við áttuðum okkur. Sem betur fer sátum við aftast í vélinni og gátum laumast aftur inn að aftan svo lítið bar á. Minningin um þennan atburð og fleiri góða voru oft rifjaðir upp og mátti ekki á milli sjá hvor hló hjartanlegar.

Í desember sl. hittumst við í síðasta sinn, Sveina spaugsöm og hyggin sem endranær, vissulega lúin, en svo æðrulaus og friðsöm að kveðjustundin varð falleg og geymist sem minning um einstaka konu.

Finnbogi minn, Esther, Ragna, litli Finnbogi og aðrir aðstandendur, við Brynjar og fjölskylda sendum ykkur hugheilar samúðarkveðjur.

Sigrún Sveinbjörnsdóttir.

Barátta Sveinu er á enda. Síðustu metrar ævivegarins voru á brattann, torfærir og erfiðir. En þegar verulega reynir á menn, eru sumir sem sýna innri styrk og æðruleysi, sem öðrum virðist vera ofurmannlegrar náttúru.

Þannig var Sveina.

Ég kynntist Sveinu fyrir hálfum öðrum áratug eftir að leiðir okkar Finnboga lágu saman í stjórn Olíuverzlunar Íslands og vegna lögmannsstarfa minna fyrir Samherja og Síldarvinnsluna. Sveina var hluti af þeirri tilveru, er tilheyrir því fólki sem á sína kjölfestu í þessum fyrirtækjum. Þegar dagsstritinu lýkur, er andanum á stundum lyft á æðra plan. Í góðra vina hópi var Sveina geislandi af lífsgleði og smitandi glaðværð. Þannig verður hennar minnst.

Margar góðar samverustundir koma fram í minningunni þegar hugurinn reikar á kveðjustund. Lífið bjart og við í blóma lífsins. En auðvitað var til mótlæti sem okkur fannst á stundum skipta máli. Það var áður en helgreipar sjúkdóma læstu sig í Sveinu. Eftir það skiptir minni háttar mótlæti ekki máli.

Stjórn og framkvæmdastjórn Olíuverzlunar Íslands minnast Sveinu með virðingu og þakklæti fyrir samferðina á liðnum árum.

Við Helga geymum dýrmæta minningu um góðan vin. Við færum Finnboga, Esther og Rögnu hlýjar kveðjur. Megi almáttugur Guð veita þeim styrk í sorginni.

Gísli Baldur Garðarsson.