Elí Rósinkar Jóhannesson húsasmíðameistari fæddist á Hlíð í Álftafirði við Ísafjarðardjúp 19. október 1925. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 18. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Málfríður Sigríður Sigurðardóttir, f. 15. maí 1885, d. 5. maí 1956 og Jóhannes Einar Gunnlaugsson, f. 27. maí 1882, d. 2. apríl 1942. Elí var yngstur 17 systkina sem öll eru nú látin.

Elí kvæntist 17. maí 1947 Matthildi Kristinsdóttur, f. á Brimnesi í Viðvíkursveit í Skagafirði 13. janúar 1924, d. 3. desember 1997, ættaðri úr Skagafirði. Börn þeirra eru: 1) Gunnar Stefán, f. 16. ágúst 1950, kvæntist Elínu E. Ellertsdóttur, f. 8. júní 1951, þau skildu. Börn þeirra eru Gunnhildur Ásta, Hrafnhildur, Bryndís og Stefán Carl. Gunnar Stefán og Elín eiga sjö barnabörn. 2) Kristín, f. 14. ágúst 1951, gift Þóri Þórarinssyni, f. 24. september 1949. Synir þeirra eru Elí Þór, Brynjar Logi og Ingimar Trausti. Kristín og Þórir eiga sjö barnabörn. 3) Agnes, f. 30. ágúst 1954, gift Árna Bergi Sigurbergssyni, f. 4. mars 1948, d. 30. nóvember 2001. Synir þeirra eru Sigurbergur og Finnur Már. Agnes og Árni Bergur eiga tvö barnabörn. Synir Árna Bergs eru Eðvald Ingi, hann á fjögur börn og Hjörleifur. 4) Málfríður, f. 9. október 1959, gift Víði Þormar Guðjónssyni, f. 15. maí 1957. Börn þeirra eru Matthildur Elín, Karen og Arnór. Málfríður og Víðir Þormar eiga eitt barnabarn. 5) Kristbjörg, f. 26. september 1962. Synir hennar eru Elí Rósinkar og Agnar Bergur Sigurgeirssynir. Sambýlismaður Kristbjargar er Sigurjón Guðmundsson, f. 9. febrúar 1964. 6) Steindór Jóhannes, f. 16. október 1965, kvæntur Valgerði Guðlaugu Guðgeirsdóttur, f. 12. júlí 1968. Synir þeirra eru Hinrik og Guðgeir Ingi. Sonur Steindórs frá fyrra hjónabandi er Kristinn.

Elí ólst upp hjá foreldrum sínum á Hlíð þar til hann fluttist með móður sinni til Hnífsdals eftir lát föður hans. Í Hnífsdal stundaði hann sjómennsku þar til hann fór suður til náms í trésmíði við Iðnskólann í Reykjavík. Eftir það voru smíðarnar hans ævistarf og fjölmargar byggingar standa eftir hann, bæði háar og lágar. Síðustu ellefu ár starfsævi sinnar vann hann á trésmíðaverkstæði Landspítalans við Hringbraut.

Fyrstu hjúskaparárin bjuggu Elí og Matthildur í Borgarnesi en árið 1953 fluttu þau í Kópavog þar sem þau bjuggu alla tíð síðan, lengst af á Bjarnhólastíg 9. Eftir lát Matthildar flutti Elí á sambýli aldraðra á Skjólbraut 1a en síðasta ár ævi sinnar bjó hann á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð.

Útför Elís fer fram frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku Elli minn.

Nú er komið að kveðjustund. Fyrir 30 árum fór ég að slá mér upp með dóttur þinni Mallý og þú og Mattý tókuð mér strax opnum örmum. Ég var fljótur að átta mig á því hvaða gæðasál þú hafðir að geyma, alltaf tilbúinn að rétta fram hjálparhönd og gefa góð ráð.

Þær eru margar minningarnar sem þjóta um huga minn. Þegar þú hvattir okkur til að kaupa okkar fyrstu íbúð hjá Byggingu í Engihjallanum. Seinna varðst þú fyrsti maður til að styðja mig og fjölskylduna mína í að reisa okkur heimili í Bæjargilinu og tókst ekki annað í mál en að vera meistari að húsinu og lagðir ómældan tíma í að hjálpa til. Seinna, allar ferðirnar í Garðabæinn í vinnusloppnum með verkfæratöskuna til að dytta að hinu og þessu.

Elsku Elli minn, þín verður sárt saknað eftir öll þessi góðu ár með þér og Mattý og þær góðu og yndislegu stundir sem ég, Mallý og börnin áttum með ykkur. Ég veit að þú ert hvíldinni feginn og kominn til Mattýar þinnar.

Guð blessi þig og geymi.

Þinn tengdasonur,

Víðir.

Elsku afi.

Það er sárt til þess að hugsa að þú sért farinn frá okkur. Það er þó einnig léttir að hugsa til þess að nú ertu laus við þann ömurlega sjúkdóm, Alzheimer, sem þú þjáðist af síðustu ár.

Ég þarf ekki að hugsa mig tvisvar um þegar ég segi að þú hafir verið ljúfasti maður sem ég hef nokkurn tímann kynnst, þú varst sá allra ljúfasti, elsku afi, og það vita allir sem til þín þekktu.

Það er margs að minnast þegar ég hugsa til baka því það voru ófáar stundirnar sem ég átti með ykkur ömmu, það leið vart sá dagur að við hittumst ekki. Dýrmætar minningar sem ég mun ávallt geyma í hjarta mínu. Við tvö að borða kaldan hafragraut í hádeginu, Olsen Olsen við eldhúsborðið, dundað í bílskúrnum, ísbíltúrar og svo mætti lengi telja. Þú svoleiðis dekraðir við okkur barnabörnin, afi, þér var svo umhugað um þá sem stóðu þér næst. Alltaf hafðir þú samt orð á því, sama hve mikið þú gafst eða hjálpaðir, að þetta væri ósköp lítið. Já, akkúrat svona varstu og minninguna um þig mun ég geyma sem gull.

Ég mun sakna þín ósköpin öll en það gleður mig að hugsa til þess að nú ertu kominn í ömmu-faðm. Hvíl í friði, elsku hjartans afi.

Þín

Matthildur.

Elsku afi.

Þú kvaddir okkur að morgni fimmtudags en eftir sitja hlýjar, ríkar minningar um þig. Góðar gleðiríkar minningar sem ylja mér um hjartað. Ég hef varla verið meira en fjögurra ára þegar þú gafst mér bréfpening sem ég mátti fara með í búðina til að kaupa grænan frostpinna. Ég gekk svo stolt niður Bjarnhólastíginn og hélt í bréfpeninginn með báðum höndum, staðráðin í að standa undir því mikla trausti sem þú sýndir mér. Suðurbraut í byggingu, ég var agndofa yfir getu þinni til að byggja allt þetta stóra hús alveg sjálfur. Öll fagnaðarlætin sem ég fékk þegar ég kom til ykkar ömmu, alveg óháð því hvort ég kæmi mörgum sinnum á dag eða sjaldnar. Þið voruð flutt á Suðurbrautina þegar ég byrjaði í skólagörðunum. Ég tók ávallt aukakrók á leiðinni heim til að færa ykkur góðgætið úr görðunum. Það var svo gaman að gefa ykkur radísur sem voru á stærð við baunir, hálformétið salat og spírur sem ég kallaði stolt gulrætur því áhuginn sem þið sýnduð þessu var einlægur. Mikið fannst mér ávallt gaman að horfa á þig dunda við eitthvað í bílskúrnum. Ég gat setið klukkustundum saman og fylgst með þér þar. Ég hafði ávallt tröllatrú á því að þú gætir búið til allt milli himins og jarðar. Það var sjaldnast lognmolla hjá ykkur þegar öll fjölskyldan kom saman. Fullorðna fólkið kom sér vel fyrir í stofunni og við börnin lékum okkur út um allt. Við vorum miklir ærslabelgir og vorum öll í að prakkarastrikast. Það var alveg sama hversu mikil lætin voru í okkur, aldrei skiptir þú skapi afi minn, þú sast gjarnan í græna stólnum með hönd undir vanga að horfa á okkur, brostir ávallt þínu blíða brosi og klappaðir okkur þegar við komum til þín til að deila einhverju með þér. Þetta fylgdi þér til æviloka, það var svo gaman að fylgjast með þér þegar við komum saman, þú sast gjarnan einhvern tíma út af fyrir þig þar sem þú hafðir góða yfirsýn yfir okkur öll og horfðir bara á okkur með stolti og ánægju sem skein af þér.

Þú tókst ávallt á móti mér með þéttu faðmlagi, tveimur kossum á kinnina og orðunum: "Elsku besta stelpan mín, mikið er gaman að sjá þig." Svo var ég leidd inn í eldhús, sett við eldhúsborðið, amma smurði handa mér rúgbrauð með kæfu, án smjörs, tíndi til kleinur og annað góðgæti og svo sátum við og spjölluðum og hlógum. Þú hafðir alltaf ómældan áhuga á því sem ég tók mér fyrir hendur og hvattir mig óspart áfram. Hlýjan og væntumþykjan sem þið amma báruð til okkar barnabarnanna var svo rík og ég fékk að sjá hana á svo margvíslegan máta. Hvenær sem ég leitaði til ykkar voruð þið til staðar til að aðstoða og létta undir, ávallt með orðunum "elskan mín, þetta er svo lítið", hvort sem um var að ræða smíði heillar hillusamstæðu eða að skutla mér milli húsa. Örlæti ykkar og greiðvikni var svo mikil. Ég átti alltaf öruggt skjól hjá ykkur.

Elsku afi minn, þú hefur fengið frið. Með miklum söknuði kveð ég þig að sinni. Takk fyrir allt sem þú varst mér.

Þín

Hrafnhildur.

Elsku afi.

Mikið finnst okkur erfitt að vera að skrifa minningargrein um þig, en við getum huggað okkur við það að þér líður vel núna og ert kominn til hennar ömmu Mattý.

Það hefur verið mjög erfitt að horfa á þig ganga í gegnum þennan erfiða sjúkdóm, Alzheimer, og breytast með honum. En alltaf, þrátt fyrir allt, hélstu þínum ljúfleika og gæsku.

Þú varst mikill afi í þér enda var alltaf jafn gaman að koma til þín og ömmu. Þú tókst alltaf á móti okkur barnabörnunum með opnum örmum og passaðir alltaf uppá að okkur vanhagaði ekki um neitt. Við munum þegar við vorum yngri spiluðum við mikið saman og var það þá yfirleitt olsen, olsen eða veiðimaður, okkur þótti það svo gaman.

En elsku afi, við eigum ótalmargar minningar um þig sem við munum ávallt geyma í hjörtum okkar, betri afa var ekki hægt að biðja um, jafn ljúfur og yndislegur sem þú varst.

Guð geymi þig, elsku afi.

Þín

Karen og Arnór.

Elsku afi minn.

Það er sárt að kveðja þótt ég viti að þú sért hvíldinni feginn. Það eru svo margar góðar minningar sem þú skilur eftir hjá mér og sammerkt finnst mér vera í þeim öllum að þú ert hæglátur vinnandi verkin þín sem svo oft voru handa öðrum.

Þolinmæði þín gagnvart okkur barnabörnunum var ótæmandi að virtist, hjálpsemi þín og greiðvirkni. Þegar við vorum lítil fórstu svo oft með okkur í bíltúra um helgar, öll í einni hrúgu upp á Skaga eða í Eden. Það fannst okkur gaman. Á sunnudögum komum við saman á Bjarnhólastíg og borðuðum sunnudagsmatinn. Síðan sofnaðir þú í sófanum mitt í öllum skarkalanum og látunum. Það finnst mér lýsa þér best. Sama hvað á dundi - þú hafðir alltaf þessa stóísku ró yfir þér. Hana misstir þú aldrei. Það var svo gott að njóta hennar með þér þegar þú vaknaðir til vinnu snemma morguns, þá drakk ég með þér te og borðaði rúgbrauð í kyrrðinni, svo fór ég aftur að sofa. Þegar ég varð eldri voruð þið amma alltaf til staðar, alltaf reiðubúinn að hlaupa undir bagga og voruð börnunum mínum jafngóð og þið voruð mér.

Með söknuði kveð ég þig, afi minn, með sömu orðum og þú hvíslaðir að mér svo ótal oft - fyrirgefðu elskan hvað þetta er lítið.

Gunnhildur.

Elsku afi, mig langar að kveðja þig með nokkrum orðum.

Það var á fimmtudaginn 18. mars að ég fékk hringingu um að þú værir orðin það veikur að þú myndir ekki eiga nema nokkrar mínútur eftir með okkur og kom ég til þín og fékk að sjá þig áður en þú færir til himna að hitta ömmu. Ég er svo ánægður að hafa náð að koma til þín.

Það hafa komið margar yndislegar minningar upp í hugann á mér undanfarna daga, þú varst sá besti maður sem að ég hef nokkurn tíma hitt, þú vildir alltaf gera allt sem að þú gætir til þess að aðrir yrðu ánægðir og alltaf varstu svo glaður, ég sá þig aldrei reiðan eða pirraðan og það er einstakt.

Ég man svo vel þegar þú og amma komuð í Engihjallann og ég og Beggi fengum ný hjól sem þú og amma gáfuð okkur, það lýsir þér best, afi minn, svo góður og gjafmildur yndislegur maður. Oft fékk ég að sofa hjá ykkur ömmu og svo þegar við vöknuðum þá fórum við í bílskúrinn, þú að vinna og ég að búa til sverð.

Ég kveð þig með trega, elsku afi minn, en get huggað mig við allar góðu minningarnar sem ég á um þig, elsku afi.

Þinn

Brynjar Logi.

Ég vil kveðja langafa minn og þakka fyrir alla góðmennskuna og strokurnar. Það var alltaf gott að sitja í fangi þínu, elsku afi. Ég á eftir að sakna heimsóknanna til þín í Sunnuhlíð.

Hann gekk hér um að góðra drengja sið,

gladdi mædda, veitti þreyttum lið.

Þeir fundu best sem voru á vegi hans

vinarþel hins drenglundaða manns.

Þó ævikjörin yrðu máski tvenn,

hann átti sættir jafnt við Guð og menn.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Þín

Aníta Crystal Finnsdóttir.