— Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson
Pawel Bartoszek er fæddur 1980 í Poznan í vesturhluta Póllands.

Pawel Bartoszek er fæddur 1980 í Poznan í vesturhluta Póllands. Hann var í grunnskóla í Póllandi og á Íslandi, en er í raun dæmigerður Vesturbæingur sem gekk í Melaskóla, Hagaskóla og Menntaskólann í Reykjavík, þaðan sem hann útskrifaðist af eðlisfræðibraut árið 2000.

Hann er með B.S. gráðu í eðlifræði frá Háskóla Íslands og er núna í masternámi, auk þess sem hann er stundakennari í Háskólanum á Akureyri. "Ég hef kennt í Hagaskóla og unnið í verkefninu Bráðger börn sem er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, samtökin Heimili og skóli og HÍ. Ég kenni þar leikjafræði sem hefur verið vel sótt námskeið bæði á þessu misseri og því síðasta," segir hann.

Pawel mundar pennann og skrifar greinar á deiglan.com og er með dálk í Stúdentablaðinu. "Þar hef ég t.d. verið með vangaveltur um fánýta hluti eins og hvort líklegra sé að strætó beygi oftar til hægri eða vinstri. Á deiglunni hef ég tekið fyrir pólitískari mál eins og áfengismálin sem ég tel tímabært að færa í frjálsræðisátt," segir hann og mælir með smáum skrefum, t.d. að leyfa 18 ára og eldri að kaupa áfengi, og að selja bjór og léttvín í matvöruverslunum. "Ég hef áhuga á hlutum sem snertir fólk daglega."

Í byrjun apríl var hann á Norrænum dögum í Viðskiptaháskólanum í Varsjá í Póllandi ásamt tveimur öðrum stúdentum. Þeir voru þar með íslenskan bás, stutt íslenskunámskeið og fyrirlestur um efnahagsmál.

Hann býst við að klára masterinn að ári, en er ekki búinn að ákveða hvað tekur við eftir það. "Mér finnst þó gaman að kenna duglegum nemendum sem standa sig vel," segir hann og að hann búist ekki við að erfitt verði að finna sér verkefni, það hafi ekki verið erfitt hingað til. "Ég verð að hafa mikið að gera," segir Pawel. Hann hljóp hálfmaraþon Reykjavíkur á síðasta ári og er að búa sig undir heilt Berlínarmaraþon næsta haust. guhe@mbl.is