Sagan um Klöru Bókmenntir Jóhanna Kristjónsdóttir Auður Ingvars: Hvenær kemur nýr dagur? ­ Örlagasaga fólks. Útg. Fjölvi 1991. Við búum í lagskiptu samfélagi.

Sagan um Klöru Bókmenntir Jóhanna Kristjónsdóttir Auður Ingvars: Hvenær kemur nýr dagur? ­ Örlagasaga fólks. Útg. Fjölvi 1991. Við búum í lagskiptu samfélagi. Þar sem margt lítur vel og snyrtilega út á ytra borði en þegar litið er undir yfirborð kemur margt heldur óþverralegt í ljós. Kvennaathvarf, Stígamót, áhugamannasamtök um eyðni, áfengi og önnur vímuefni og svo má lengi telja. Börn eru litin hornauga nema við sérstök tækifæri þegar henta þykir, sama máli gegnir um konuna. Henni er hampað við ákveðin tækifæri en vanmetin í ótal mörgu, launamál kvenna eru auðvitað sérkapítuli. En samt eigum við líka okkar plastlið. Fólkið í fínu og smart fötunum sem lifir svo eftirsóknarverðu og spennandi lífi. Þar sem allt hlýtur að vera í sómanum. Eða er það ekki? Kannski er það oftar á ytra borðinu en menn hyggja. Það er bara í þægilegri aðstöðu til að fela það sem passar ekki inn í glansmyndina.

Ofbeldi, glæpir og hvers konar harmleikir eru hvarvetna. Hins vegar hentar það okkur flestum að loka augunum fyrir þeim. Þeir sem búa við harma og erfiðleika eru ekki nógu smart og það hlýtur að vera allt fyrir eigin aumingjaskap. Þannig er ljómandi þægilegt að afgreiða málið.

Í skáldsögu Auðar Ingvars er tekið á einum anga af stóru vandamáli, ofbeldi á heimilinu. Þar sem eiginmaðurinn beitir konu sína Klöru ofbeldi, heldur henni næstum því gangandi, ef svo má orða það, á angist og skelfingu. Verður hún barin þegar hann kemur heim næst? Og þó Auður kafi ekki eftir því dýpra ­ leiti ekki svara við spurningunni um af hverju Klara sættir sig við ofbeldið ­ á sagan rétt á sér þó ekki væri nema fyrir það að fjalla um þennan þátt. Sem er ekki inni" því kona sem lætur misþyrma sér hlýtur að eiga sök á því sjálf. Hún hlýtur að vera hálfgerður aumingi og dusilkona að láta þetta yfir sig ganga.

Það vantar ekki kraftinn í söguna, en þær hliðstæður sem Auður stillir upp, Klara annars vegar og Halla, hin sterka, hins vegar verða ekki nægilega tengdar vegna þess að höfundi er hreinlega of mikið niðri fyrir. Hún vandar ekki fléttuna nóg. Sinnir stundum of mikið um aukaatriði sem ekki verður séð að skipti máli, ég nefni undirbúning hátíðahaldanna í þorpinu. Kannski vakir fyrir Auði að undirbúa slysið sem verður en það gengur ekki upp hjá henni.

Höfundur á auðvelt með að skrifa samtöl og hefur léttan frásagnarmáta. En það vantar samt meiri fyllingu í söguuppbygginguna og persónan Halla verður ekki nógu trúverðug þó saga hennar einnar og sér væri efni í bók.

Það er greinilegt að Auður getur sagt sögu en hún þarf að vanda betur til verka, hafa á hreinu hvað það er sem hún vill segja og gæta að því að fara ekki út um víðan völl með söguna.