Eyjólfur Hannesson fæddist á Núpsstað í Fljótshverfi 22. júní 1907. Hann lést á Borgarspítalanum 23. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Hannes Jónsson bóndi, f. 13.1. 1880, d. 29.8. 1968, og kona hans Þóranna Þórarinsdóttir, f. 14.5. 1886, d. 8.9. 1972. Af börnum þeirra eru nú á lífi: Margrét, f. 1904, Filippus, f. 1909, Margrét yngri, f. 1910, Jón, f. 1913, Jóna Aðalheiður, f. 1924, og Ágústa Þorbjörg, f. 1930. Dáin eru: Dagbjört, f. 1905, Málfríður, f. 1914, og Sigrún, f. 1920.

Eyjólfur var bóndi á Núpsstað með Filippusi bróður sínum frá 1968 til dánardægurs.

Útför Eyjólfs verður gerð frá bænhúsinu á Núpsstað í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Ég man hvað það var gaman að fara í heyskap á Núpsstað og hvergi leið manni betur en aftan á heyvagninum hjá Fibba eða Eyja, þar sem maður naut þess að láta stráin kitla sig. Þeir brugðu jafnan á leik með okkur krökkunum og þrátt fyrir heyannir gafst alltaf tími til að byggja hús úr böggunum. Eyjólfur var einstakur maður, glaðvær og glettinn og sjálfsagt leika það fáir eftir áttræðir að aldri, að hlaupa um í síðastaleik með okkur krökkunum og blása ekki úr nös.

Mér er svo tamt að tala um þá bræður í einu og sama orðinu og það hryggir mig mjög að hugsa til þess að hér lýkur næstum aldar sambúð Eyjólfs og Filippusar. Alltaf mun ég minnast Eyja frænda með mikilli hlýju og þökk fyrir þá góðvild og endalausu athygli sem hann sýndi okkur systkinunum. Hann kenndi okkur að virða náttúruna og dýrin, stór og smá, og hló hjartanlega að hræðslu minni við köngulær, en hann leit einfaldlega á þær sem nágranna sína. Mér finnst það svo yndislegt og einkennandi fyrir öll systkinin frá Núpsstað, þessi takmarkalausa hlýja og lífsgleði.

Vertu sæll, frændi, og takk fyrir samfylgdina, minning þín mun lifa um ókomna tíð í hjörtum okkar allra.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur it sama;

en orðstír deyr aldregi,

hveim sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Guðrún Ómarsdóttir.

Á Núpsstað fer saman stórbrotin og töfrandi fegurð landslags og einstakar menningarsögulega minjar. Þar hafa búið bræðurnir Filippus og Eyjólfur, synir Hannesar Jónssonar landpósts og Þórönnu Þórarinsdóttur, en Eyjólfur hefur nú kvatt, 98 ára að aldri. Með nokkrum orðum vil ég kveðja kæran vin og góðan samstarfsmann Þjóðminjasafns Íslands.

Á Núpsstað sameinast af hógværð en um leið stórfengleika landslag, mannvirki og líf í eina heild eins og fegursta sköpunarverk. Núpsstaður í Fljótshverfi er austasti bærinn við Skeiðarársand. Samhliða búskap var Hannes, faðir Eyjólfs, landpóstur allt til ársins 1947, og forfeður hans einnig. Móðurætt Hannesar hafði setið á Núpsstað frá 1730, en bærinn stendur undir háum hömrum, skammt fyrir vestan Lómagnúp. Þar eru varðveitt torfhús sem að grunni til eru mörg hundruð ára gömul, en varðveisla þeirra er til marks um hógværð og virðingu heimamanna fyrir umhverfi sínu. Bænhúsið á Núpsstað er í vörslu húsasafns Þjóðminjasafns Íslands ásamt merkustu torfbæjum og torfkirkjum landsins. Bænhús á Núpsstað er reist um miðja 19. öld, en er hugsanlega eldra að stofni til og er hluti af merkri bæjarheild á staðnum.

Sumarið 2000 hafði undirrituð nýlega tekið við starfi þjóðminjavarðar og fór í hringferð um landið ásamt Þór Magnússyni, fyrrverandi þjóðminjaverði, í því skyni sækja heim söfn og minjastaði. Í ferðinni kynnti Þór mig fyrir því góða fólki sem Þjóðminjasafnið á í samstarfi við um land allt. Þá heimsóttum við bræðurna Eyjólf og Filippus, sem tóku sérlega vel á móti okkur. Síðan hef ég reglulega komið á Núpsstað og átt góðar stundir með þeim bræðrum í notalegu eldhúsinu. Eyjólfur hefur hellt upp á kaffi og síðan höfum við setið og spjallað um málefni líðandi stundar. Fróðlegt hefur verið að hlusta á frásagnir bræðranna af æsku þeirra og lífi. Þeir hafa rifjað upp leiki æskunnar á Núpsstað, kvöldvökur, söng og spil. Eyjólfur hefur sagt sögur af Kötlugosinu, sem hann upplifði 11 ára gamall. Einnig höfum við rætt um bílana á hlaðinu, en í vetur var Eyjólfur að velta því fyrir sér hvar hann gæti náð í nagladekk á gamla Willys-jeppann sinn. Ætíð hafa bræðurnir séð skoplegu hliðarnar á tilverunni og gantast með góðlátlegri stríðni. Góð heilsa, létt skap og snyrtimennska hefur mér fundist vera aðalsmerki þeirra bræðra, sem og systur þeirra Margrétar sem ég hef einnig haft ánægju af því að kynnast. Stundir með þeim systkinum hafa verið mér ómetanlegar og kærar. Nú hefur ríkisstjórn Íslands að tillögu menntamálaráðherra samþykkt að veita fé til varðveislu torfhúsanna á Núpsstað og á síðasta fundi okkar Eyjólfs ræddum við um skipulagningu þeirra framkvæmda í hlýlegu eldhúsi þeirra bræðra. Er ég þakklát fyrir þá góðu stund, sem ég átti með Filippusi og Eyjólfi nokkrum dögum fyrir andlát hans. Ég vil þakka Eyjólfi fyrir góð kynni um leið og ég sendi Filippusi mínar bestu kveðjur. Með þökk í huga fyrir gott samstarf við Þjóðminjasafnið í gegnum tíðina og í minningu góðs manns sendi ég fjölskyldunni hlýjar kveðjur. Heiðruð sé minning Eyjólfs Hannessonar á Núpsstað.

Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands,

Margrét Hallgrímsdóttir,

þjóðminjavörður.

Núpsstaður í Fljótshverfi hefur verið mér hugstæður allt frá barnsaldri er ég las Njáls sögu og áhrifamikla frásögn hennar um bergrisann í Lómagnúpi er kvaddi feiga menn sér til fylgdar. Þjóðskáldið Jón Helgason batt þetta á snjallan hátt í ljóðlínur: "Jötunninn stendur með járnstaf í hendi / jafnan við Lómagnúp. / Kallar hann mig og kallar hann þig, / kuldaleg rödd og djúp." Hann hefur nú kvatt í þá förina sem enginn á afturkvæmt úr aldraða sómabóndann Eyjólf Hannesson á Núpsstað. Ekki stefndi Eyjólfur þó til vistar í þessu glæstasta byggðarfjalli landsins, hugur hans leitaði hærra í hæðir. Með honum hvarf saga heillar aldar. Glöggt man ég fyrstu komu mína að Núpsstað fyrir meira en hálfri öld. Heiðursmaðurinn yfirlætislausi, hlýi og hljóðláti, Hannes Jónsson, og hans ágæta húsfreyja, Þóranna Þórarinsdóttir, sátu þar enn að búi og fögnuðu gestum að gömlum og góðum sveitasið. Nauðleitarmenn og ferðafólk höfðu um langan aldur átt þar traustri og góðri fyrirgreiðslu að mæta. Allt bar fyrir mér blæ þess að þarna hafði sama ætt setið lengi að búi. Þess gætti jafnt utan sem innan dyra. Gömul heimilismenning mætti manni í orði og á borði. Ekki spillti það áhrifum hjá mér að síðar fræddi vinkona mín, Kristín Bjarnadóttir á Heiði, mig um það, að rætur okkar beggja voru í gömlu Núpsstaðarættinni, ætt Hannesar Jónssonar, og nefndi mig frænda í krafti þess.

Ekki var þessi fyrsta för mín að Núpsstað farin til þess að svipta heimilið gömlum minjum, þær sóma sér þar best í þeim húsum sem verið hafa athvarf þeirra alla tíð, en áhrifin af heimsókninni tóku hjá mér öllu öðru fram, þetta að sjá húsaþorpið mikla með svip allra alda Íslandssögunnar og vita að það átti þá engan sinn líka allt frá Burstarfelli í Vopnafirði og til Keldna á Rangárvöllum. Þóranna og Hannes hurfu sýnum en bræðurnir, synir þeirra, Eyjólfur og Filippus, eiga þá sæmd að hafa varðveitt fyrir þjóðina fram á þennan dag þetta fágæta og ómetanlega dæmi fornrar húsagerðar og húsaþyrpingar á stórbýli. Það verður seint að fullum verðleikum metið.

Þeir bræður voru í blóma aldurs er mig bar fyrst að garði á Núpsstað. Aldurinn gekk síðan undra hægt yfir þá. Kvikir og hressir í sjón og raun og léttir í máli fetuðu þeir inn í tíunda tug æviára. Í starfi mínu á Byggðasafninu í Skógum kynni ég flesta daga mynd af bænhúsinu á Núpsstað og fer þá ekki framhjá því að kynna bræðurna, bænhúsbændur, sem fram á þetta ár hafa ekið bílum sínum líkt og ungir væru um þjóðvegi byggðarinnar. Eyjólfur ók raunar bíl sínum út á Síðu nokkrum dögum áður en hann dó og geri aðrir betur, 97 ára að aldri.

Gestrisni og góð forsjá heimilis hallaðist engan veg í höndum þeirra bræðra, Eyjólfs og Filippusar, er föður og móður missti við. Eyjólfur hafði líkt og aðrir karlmenn af kynslóð hans vanist umhyggju góðrar móður í öllu heimilishaldi innan stokks en í engu skorti á það hjá honum að gesturinn ætti notalega viðdvöl í gamla, vinalega eldhúsinu þar sem Eyjólfur gekk um beina.

Þjóðin stendur í þakkarskuld við þá Núpsstaðarbræður fyrir það að hafa varðveitt óraskað gamla húsaþorpið til þessa dags. Sú skuld verður nú greidd í því að þessari einstæðu mynd af húsakosti liðinna alda verður haldið í horfi til framtíðar. Þetta er dýrt og krefjandi átak sem vænta má að staðið verði að með fullum sóma undir forystu nýs Hannesar Jónssonar á Núpsstað sem ber í öllu sterkar og hlýjar taugar til ættarseturs.

Ég sendi Filippusi Hannessyni, systkinum hans og öllu skylduliði Eyjólfs á Núpsstað samúðarkveðjur mínar og Byggðasafnsins í Skógum nú þegar hann er kvaddur hinstu kveðju í helgum reit á staðnum þar sem hann ól allan aldur sinn. Friðar og gleði ann ég honum vel í eilífðinni.

Þórður Tómasson.