Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir
Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um geðheilbrigðismál: "Notendarannsóknir hafa gert hlut aðstandenda og annarra sýnilegan."

STOFNUNUM fyrir geðsjúka var fækkað víðsvegar um heim, þegar sýnt var að þjónustan sem þar var veitt, stóðst ekki væntingar. Geðsjúkir misstu einfaldlega hæfnina til að lifa utan sjúkrahúsveggjanna. Það er því ekki tilviljun að þeir sem náð hafa bata eftir langa sjúkrahúsdvöl segist hafa lifað af stofnanavist. Nú er sjúkrahúsdvölin höfð eins stutt og hægt er en þjónustuna þarf að færa frá stofnunum yfir í samfélagið. Staðan er hins vegar sú að sjúkrahústengd þjónusta tekur til sín stærstan hluta þess fjármagns sem til ráðstöfunar er þannig að þjónusta við geðsjúka og þátttaka þeirra í samfélaginu verður afar takmörkuð.

Þegar að innlögn á geðdeild er komið hafa einstaklingar oftast misst tökin á eigin lífi. Færni er skert, sjálfstraust og sjálfsvirðing í molum og langan tíma tekur að byggja allt upp á nýjan leik. Styrkja ber þjónustu í samfélaginu sem tekur á þessum þáttum jafnframt því að fyrirbyggja áhrifaleysi, vonleysi, einangrun og missi sjálfstrausts. Víða erlendis hafa geðsjúkir sem náð hafa bata tekið þátt í að byggja upp slíka þjónustu og náð meiri árangri en hefðbundin þjónustuform. Þjónustan í samfélaginu þarf starfskrafta sem nýta sér þekkingu úr mismunandi geirum; þekkingu sem byggist á reynslu og viðhorfum geðsjúkra. Svokölluð notendaþekking byggist á þáttum eins og hugmyndum um þýðingu þess að vera þátttakandi í samfélaginu, hvernig maður geti eftir geðveiki aftur orðið hluti af því samfélagi og hvernig halda megi tengslum og komast yfir hindranir. Þá þarf að velta upp hugmyndum um hvað þurfi að vera til staðar í umhverfinu svo einstaklingurinn geti valdið ábyrgð, öðlast virðingu og náð tökum á eigin lífi. Þetta jafngildir ekki því að þekking fagfólks minnki að verðleikum, heldur verður að hleypa notendaþekkingunni að, því hún er nauðsynleg til að lifa í samfélaginu. Sá sem veitir þjónustuna og sá sem tekur á móti henni verða í sameiningu að skilgreina vandamálið og taka þátt í aðgerðaplani og síðast en ekki síst að hafa val um nálgun að settu marki.

Ef við vinnum út frá heilsueflingu og bata og viðurkennum notendaþekkingu þýðir það m.a. að við eflum færni í þáttum sem hafa þýðingu og gildi fyrir geðsjúka, á þeirra forsendum. Þetta er mikil ögrun fyrir hefðbundin kerfi því þau byggjast oft á eigin forsendum. Geðsjúkir vilja að fagfólk mæti þeim og aðstoði á sviðum sem þeir eru uppteknir af, eins og að viðhalda mannréttindum. Þeir vilja ekki láta afgreiða sig sem samansafn einkenna; takmarkana sem uppræta þurfi eða eyða. Geðsjúkir ná betri tökum á lífinu með hjálp lyfja og alls kyns meðferðartilboða, en ekki eingöngu vegna þeirra. Aðstandendur eru oft í lykilhlutverki. Fjölskyldumeðlimir, vinir, vinnufélagar og samferðamenn hafa oft gengið fram fyrir skjöldu og gert það sem skipt hefur sköpum fyrir einstaklinginn, en það er sjaldnast dregið fram í rannsóknum. Notendarannsóknir hafa gert hlut aðstandenda og annarra sýnilegan. Flytja þarf áherslur frá þörfum fagfólks og leggja áherslu á þarfir notenda eins og þeir sjá þær, en ekki eins og fagmenn túlka þær. Þetta hefur áhrif á nálgun, ekki bara í störfum heilbrigðisstétta heldur einnig í rannsóknarstörfum og þjónustuformi.

Hugarafl er samstarfshópur geðsjúkra í bata og iðjuþjálfa sem býður sig fram til að taka þátt í uppbyggingu þjónustu við geðsjúka í samvinnu við ráðamenn, fagmenn, aðstandendur, atvinnumarkað, skóla og almenning. Hópurinn er staðsettur í Heilsugæslunni og hægt að nálgst hann á hugarafl@hugarafl.is. Hópurinn hefur m.a. safnað að sér notendaþekkingu, þýtt notendaefni, tekið þátt í kennslu fyrir heilbrigðisstarfsmenn, flutt fyrirlestra og verið virkur þátttakandi í nýsköpunarhugmyndum varðandi þjónustu og atvinnusköpun fyrir geðsjúka.

Elín Ebba Ásmundsdóttir skrifar um geðheilbrigðismál

Höfundur er forstöðuiðjuþjálfi geðsviðs LHS og lektor við HA.