29. janúar 1992 | Innlendar fréttir | 394 orð

62 ára sögu Ríkisskipa lokið: Askjan seld til Noregs og nær öllum starfsmönnum

62 ára sögu Ríkisskipa lokið: Askjan seld til Noregs og nær öllum starfsmönnum sagt upp REGLULEGRI starfsemi Ríkisskipa verður hætt um næstu mánaðamót og nær öllum starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp störfum.

62 ára sögu Ríkisskipa lokið: Askjan seld til Noregs og nær öllum starfsmönnum sagt upp

REGLULEGRI starfsemi Ríkisskipa verður hætt um næstu mánaðamót og nær öllum starfsmönnum fyrirtækisins sagt upp störfum. Búið er að selja Öskju til Noregs og semja við Samskip um yfirtöku hinna tveggja skipa Ríkisskipa, Esju og Heklu. Andvirði seldra eigna félagsins er um 400 milljónir króna en eftir er að selja vöruskemmu þess við Reykjavíkurhöfn. Fasteignamat skemmunnar er tæpar 140 milljónir króna. Með þessu er lokið 62 ára sögu Ríkisskipa.

Á blaðamannafundi sem Halldór Blöndal samgönguráðherra efndi til í gærdag kom fram að ráðherrann áformar að leggja fram á Alþingi, að loknu þinghléi, frumvarp um að Ríkisskip verði formlega lagt niður. "Við gerum ráð fyrir að löggjöfin um að leggja Ríkisskip niður miði við að það verði 1. apríl nk.," segir Halldór Blöndal.

Eftir 1. febrúar verða aðeins 6 eða 7 af tæplega 100 starfsmönnum Ríkisskipa enn starfandi en þeir eiga að ljúka bókhaldi og uppgjöri síðasta árs. Af öllum starfsmönnum hefur tekist að útvega 50-60 önnur störf en óvissa er með framtíð 40-50 þeirra. Af hópnum eru 23 opinberir starfsmenn og njóta þeir biðlauna í 6 til 12 mánuði eftir starfsaldri.

Viðræðum við Samskip er lokið og hefur félagið tekið Esju á þurrleigu með kauprétti en Heklu á tímaleigu með kauprétti. Samskip hefur þar að auki keypt gáma, lyftara og annað lausafé Ríkisskipa.

Undirritaður hefur verið samningur um sölu Öskju til Lars Holm Shipping í Tromsö í Noregi. Á fundinum kom fram, að söluverð allra skipanna er nálægt áætluðu markaðsverði þeirra, Esju um 120 milljónir króna, Öskju um 70 milljónir króna og Heklu um 70 milljónir króna en hvað Heklu varðar var tekið fram að ef Samskip kaupa Heklu mun viðgerðarkostnaður vegna skemmda á botni skipsins dragast frá verðinu.

Á blaðamannafundinum kom fram að Samskip munu auka við strandsiglingar sínar og sigla m.a. á allar þær hafnir á Vestfjörðum sem Ríkisskip sigldu á þótt komur Samskipa verði ekki jafn tíðar. Eina þjónustan sem Ríkisskip hafði á hendi og fellur alveg niður er sigling frá Austfjörðum til Akureyrar en í hittiðfyrra námu flutningar félagsins á þessari leið um 1800 tonnum eða innan við 2% af flutningamagni félagsins. Halldór Blöndal segir að hann sé ánægður með að Samskip og Eimskip muni að stórum hluta taka við þeim flutningum sem Ríkisskip hafði á hendi í strandsiglingum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.