3. október 2004 | Menningarlíf | 540 orð | 2 myndir

Tom Waits og frumlitirnir

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tom Waits er fjölsnærður listamaður, hæfileikamikill tónlistarmaður og leikari. Nýjar plötur frá honum teljast alltaf til tíðinda og á morgun kemur einmitt út ný slík skífa, Closing Time.
Tom Waits er alinn upp á bandarískri tónlistarhefð, nærðist á frægu safni Harry Smith sem lýst var á þessum stað fyrir viku, sökkti sér í frumdjass og hráan blús, en hann er líka afsprengi evrópskrar söngleikjahefðar, heillaður af frelsi og grósku Weimar-lýðveldisins sem íhaldslúðar stimpluðu sem hnignun og úrkynjun.

Tónlist Waits hefur litast af þessu dálæti, hann notar gjarnan hið ljóta til að skapa fegurð, sýnir að lágkúran er líka falleg. Þó hann hafi stigið sín fyrstu listaskref á vesturströndinni, í San Diego, er hann Suðurríkjamaður, en þá Suðurríkja sem ekki eru til, Suðurríkja þeirra Brecht og Weill, Suðurríkja Louis Armstrong og Blind Willie McTell.

Tónlist í þrjátíu ár

Tom Waits þykir sérlundaður og þá helst fyrir það að alla tíð hefur hann haldið sínu striki, hagað málum eftir eigin höfði, gert það sem honum sýnist hverju sinni. Hann byrjaði tónlistarferil sinn fyrir rúmum þrjátíu árum er hann var dyravörður á þjóðlagabúllu í San Diego. Hann tók þátt í hæfileikakeppni í Los Angeles og fékk í kjölfarið útgáfusamning Fyrsta platan, Closing Time, kom svo út 1973 og hann hefur sent frá sér plötu nokkuð reglulega upp frá því

Waits er þó fleira til lista lagt en semja og flytja tónlist, á seinni árum hefur hann starfað talsvert við kvikmyndir, fyrst sem tónlistarmaður, samið lög í myndir og tónlist almennt, en svo sem leikari. Fyrstu kynni hans af kvikmyndunum voru er hann samdi lög fyrir Stallone-myndina Paradise Alley og lék í henni lítið hlutverk. Upp frá því hefur hann leikið í fjölmörgum myndum, nú síðast í Coffee & Cigarettes sem sýnd er hér á landi sem stendur.

Ekki er svo ýkja langt síðan Tom Waits sendi frá sér plötu eða plötur; Alice og Blood Money komu út fyrir tveimur árum. Á þeim skífum, báðum framúrskarandi, var leikhústónlist og ekki alveg ný af nálinni. Það er því aðdáendum hans gleðiefni að ný hljóðversskífa kemur út með Tom Waits á morgun, heitir Real Gone.

Ekkert píanó

Real Gone er 20. platan með nýrri tónlist Waits og all frábrugðin fyrri verkum. Þannig heyrist til að mynda hvergi í píanói á plötunni, sem hefur þó verið nátengt tónlist hans alla tíð, og að auki bregður þar fyrir fönki, reggíi, r&b; og plötuskrámi.

Þau Waits og Kathleen Brennan, eiginkona hans og samstarfskona til margra ára, semja saman lögin á plötunni. Waits segir að í stað þess að semja á píanóið eins og þau hafi gert svo gjarnan hingað til, hafi flest laganna verið samin án undirleiks, orðin látin móta laglínurnar. Hann notar röddina líka víða til að búa til takta, lætur hana koma í stað trommu og slagverks í nokkrum laganna. Sonur þeirra Brennan, Casey, sér svo um plötuskrám, en hann leikur að auki á slagverk í nokkrum lögum.

Vinnan við plötuna hófst þannig að Waits tók upp raddtakta og hljóð í baðherberginu heima hjá sér og þau Brennan notuðu þær upptökur, nokkra klukkutíma af hljóðum og töktum, sem hráefni í lög. Þegar kom að því að taka lögin upp kallaði Waits til hljómsveit og eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að taka lögin upp nánast beint á band með taktana undir, en nokkur þeirra voru klippt til og sniðin til að ná fram þeirri stemningu sem Waits segist hafa verið að leita eftir, frumliti, eins og hann kallar það, hráan blús og frumstætt rokk.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.